Fátækir koma úr felum
Skoðað: 3003
Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt boðar til þögullar samstöðu á Austurvelli framan við þinghúsið fimmtudaginn 1. oktober þegar þingsetning og stefnuræða Katrínar Jakobsdóttur fer fram, en dagskrá þingsetningar má finna á vef Alþingis:
Alþingi verður sett fimmtudaginn 1. október og hefst þingsetningarathöfnin kl. 13:30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni.
Vegna kórónuveirufaraldursins verður aðeins örfáum gestum boðið til þingsetningarinnar að þessu sinni.
Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða að kvöldi þingsetningardags, kl. 19:30.
Á sama stað er síðan tekið fram að fyrsta umræða um fjárlagafrumvarp 2021 og fyrri umræða um fjármálaáætlun verða aðalmál 2. viku þingsins og hefst umræðan mánudaginn 5. október.
Nú þarf fátækt fólk og fólk á lægstu launum að athuga það að þetta er síðasta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur þar sem Bjarni Benediktsson er starfandi fjármálaráðherra og þessi fjárlög koma til með að sýna í verki hvort Katrínu var alvara með orðum sínum árið 2017 þegar hún sagði að fátækt fólk ætti ekki að þurfa að bíða eftir réttlæti af hendi stjórnvalda.
Þetta fátæka fólk hefur nú beðið eftir réttlætinu í þrjú ár án árangurs og hafa lífskjör, afkoma og kaupmáttur þessa fólks rýrnað umtalsvert undir stjórn Katrínar og Bjarna og sérstaklega í COVID-19 faraldrinum þar sem verðlag á nauðsynjum hefur hækkað langt umfram kaupmátt þeirra samninga sem gerðir voru við launafólk fyrr á árinu en lífeyrisþegar hafa algjörlega setið eftir kjaralega séð.
Komum úr felum – mættu með okkur á Austurvöll á fimmtudaginn 1. oktober – sýnum Alþingi og ríkisstjórninni að við erum hérna – að við erum afl sem er ekki hægt að horfa framhjá lengur!!!
Örorkugreiðslur duga ekki fyrir nauðsynjum og hafa ekki gert lengi.
Hvað þá framfærslustyrkur sveitarfélaganna sem er enn lægri.
Fólk úr þessum hópi situr uppi með skömmina yfir fátækt og erfiðum aðstæðum sínum, aðstæðum sem að það bjó ekki sjálft til og kemst ekki sjálft úr. Það er þó engin skömm að því að lifa í fátækt. Skömmin er öll stjórnvalda – því skilum við skömminni þangað sem hún á heima. Til þeirra sem valdið hafa og taka sínar pólitísku ákvarðanir án þess að gæta að hvern þær skaða.
Við virðum að sjálfsögðu sóttvarnarmörk.
Höldum 1m millibili milli fólks eftir því sem hægt er.
Grímur og hanskar verða á staðnum en hvetjum fólk jafnframt til að mæta með sinn eigin sóttvarnarbúnað.
Skoðað: 3003