Seinagangur TR í útreikningum setur lífeyrisþega í vanda

Skoðað: 2829

Okkur barst ábending frá lesanda þess efnis að útborgaðar bætur Tryggingastofnunar Ríkisins yrðu lægri í Janúar 2020 heldur en í nóvember 2019 og að sjálfsögðu fórum við að skoða málið til að kanna þessa vísbendingu.

Sá sem þetta skrifar tók sig til og skráði sig inn á mínar síður hjá TR og komst að því að þessi ábending er rétt, munurinn frá því í nóv á þessu ári og í jan á því næsta er að vísu ekki mikill, eða 1.276 krónur, en þegar það munar um hverja einustu krónu hjá þeim sem minnst fá til ráðstöfunar skiptir skiptir þessi “litla” upphæð máli sem viðkomandi fær útborgað.

Það sem þó er bæði sláandi og stórmerkilegt við þannan mismun er skattafrádrátturinn því að á báðum skjáskotunum, Nóv 2019 og jan 2020 er sama grunnupphæðin, 174.205 krónur en dregin er hærri skattur af janúargreiðslunni þrátt fyrir fullyrðingar fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinar að skattaprófsentan eigi að lækka hjá þeim sem lægstar hafa tekjurnar.
Það er ekki að sjá miðað við þessar upplýsingar.

Í upplýsingum á mínar síður hjá TR kemur þó eftirfarandi tilkynning fram:

Í greiðsluáætlun kemur fram, sundurliðað á mánuði og eftir greiðslutegundum, hvaða mánaðargreiðslur lífeyrisþegar eiga von á að fá miðað við tekjuáætlun.

Ef lífeyrisþegar breyta tekjuáætlun fá þeir senda nýja greiðsluáætlun sem miðast við nýjar upplýsingar.

  • Greiðsluáætlun 2019 má finna undir rafræn skjöl
  • Bráðabirgðagreiðsluáætlun 2020 verður tilbúin eftir miðjan desember
  • Endanleg greiðsluáætlun 2020 mun liggja fyrir eftir miðjan janúar
Skoðið skattafrádráttinn í nóvember og berið saman við seinni myndina.
Janúargreiðsla 2020

En hvað er það sem veldur því að á hverju einasta ári þurfa lífeyrisþegar sem fá greitt frá TR að bíða fram í febrúar eftir að fá greidda út rétta upphæð í stað þess að gengið sé frá þessum málum fyrir áramót og “réttar” greiðslur inntar af hendi strax þann fyrsta janúar?
Ekki eru heldur greiddir vextir til lífeyrisþega þegar þeir þurfa að bíða eftir réttum greiðslum en fái þeir ofgreitt er TR fljótt að skella vöxtum á endurgreiðslurnar.

Handarbaksvinnubrögðin og hálfkákið sem einkennir öll vinnubrögð ríkisstofnana á íslandi kristallast í þessum vinnubrögðum TR og ekkert er gert til að laga þetta ástand því svona hefur þetta verið árum saman þrátt fyrir loforð um bót og betrun allra stjórnarflokka síðustu áratuga.

Stjórnvöld ætla sér leynt og ljóst að svelta öryrkja og aldraða til bana með aðgerðar og afskiptaleysi sínu enn eitt árið en á sama tíma hreykja sér af því að aldrei hafi efnahagur landsins verið betri.

Siðblinda, hræsni, lygar, svik og algjör aumingjaskapur ríkjandi stjórnar hefur aldrei verið meiri.

Skoðað: 2829

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir