Óundirbúnir útúrsnúningar

Skoðað: 2052

Hið rétta andlit Katrínar J.

Sýndarmennskan í störfum Alþingis er stundum svo grátleg að fólki hreinlega fallast hendur við að horfa upp á liðinn: “Óundirbúnar fyrirspurnir” á alþingi íslendinga.  Réttara væri að kalla þetta; “Óundirbúna útúrsnúninga”, þegar þingmenn koma í pontu til að spyrja ráðherra út í hin ýmsu mál og fá lítið annað en hrokafulla útúrsnúninga frá ráðherrum í staðin fyrir einhver svör.

Ágætt dæmi um það er hegðun Katrínar Jakobsdóttur við fyrirspurnum Halldóru Mogensen þann 6. júlí síðastliðin þar sem Halldóra spurði Katrínu út í orð hennar frá því árið 2017 við stefnuræðu þáverandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar þegar hún sagði að stjórnvöld ættu ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi um að bíða eftir réttlæti.

Aðeins örfáum mánuðum áður en hæstv. forsætisráðherra tók við stjórnartaumum núverandi ríkisstjórnar sagði hún, með leyfi forseta:

„Stjórnmálamenn mega aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja bið eftir réttlæti. Stjórnmálamenn þurfa að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þarf til. Annars er hættan sú að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvíni og þá ábyrgð þurfum við öll að axla.“

Nú er þetta fólk enn þá að bíða. Það er því ekki að sjá að hæstv. ráðherra hafi beitt sér nægilega vel fyrir réttlætinu. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er það vegna þess að ráðherrann hefur ekki viljað beita sér eða hefur hún bara ekki getað beitt sér með hendurnar bundnar í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum þar sem hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson heldur um pyngjuna?

Svör, eða öllu heldur útúrsnúningar Katrínar eru dæmigerð fyrir manneskju sem veit upp á sig skömmina, sökina, lygarnar, falsið og svikin því hún svarar engu en snýr upp á sig og svarar algjörlega út loftið með ósannindum.

Hv. þingmaður spyr líka og gefur þar í skyn í forsendu spurningarinnar að ekkert hafi verið gert í málefnum öryrkja á kjörtímabilinu. Það er auðvitað rangt hjá hv. þingmanni. Hér hefur verið dregið úr skerðingum vegna atvinnutekna, sem hefur verið eitt stærsta hagsmunamál og baráttumál Öryrkjabandalagsins. Það var gert núna en við þeim hafði ekki verið hreyft síðan þær voru settar á fyrir 10–12 árum. Úr þeim var dregið. Á sama tíma var sömuleiðis ráðist í þá aðgerð að draga úr skerðingum milli bótaflokka. Markmið þeirrar leiðréttingar og breytingar var að auka tekjur tekjulægsta hópsins innan hóps öryrkja. Enn þá bíður að ljúka við heildarendurskoðun á kerfinu sem ekki var gert 2016, illu heilli að mínu viti, enda má sjá þegar sagan er skoðuð og tekjur ólíkra hópa skoðaðar, til að mynda aldraðra og öryrkja, að þar standa öryrkjar höllum fæti til að mynda gagnvart öldruðum. Þannig er nú staða málsins. Það er mjög brýnt að ljúka þessari heildarendurskoðun. Ég vonast til þess að það verði gert snemma á næsta kjörtímabili.

En hér er ekki hægt að tala eins og ekki hafi verið komið til móts við mikilvæg baráttumál öryrkja sem snúast einmitt um að draga úr skerðingum og gera þetta kerfi gagnsærra og réttlátara.

Þarna fer Katrín með hrein ósannindi því það hefur bara ekkert verið dregið úr skerðingum öyrkja vegna atvinnutekna, þær byrja enn að skerðast við 109 þúsund króna tekjur á mánuði og hafa ekki hækkað um einn eyri síðan 2009 þrátt fyrir hækkandi laun á vinnumarkaði og það sem meira er, vinni öryrki sér inn svo mikið sem eina krónu þá byrja aðrar bætur að skerðast eins og húsnæðisstuðningur og aðrar aukagreiðslur sem öryrkjar eiga rétt á að fá svo oftar er betur heima setið en af stað farið í vinnu þar sem kostnaðurinn verður meiri við að vinna sér inn örfáar krónur þegar upp er staðið.

Eins hefur ekkert verið gert í að taka til baka þann þjófnað ríkisins á lífeyrissparnaði öryrkja því þar er hverri krónu stolið og rúmlega það af þeim öryrkjum sem fá úr lífeyrissjóðum.  Því má aldrei gleyma.

Og nú kemur hinn skemmtilegi seinni hluti þar sem fyrirspurnartíminn verður að hreinum útúrsnúningatíma í “hálftíma hálfvitana” eins og einhver kallaði þennan dagskrárlið Alþingis enhverntíma.

Halldóra Mogensen:

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra er vel Morfís-æfð og mjög sniðug í að svara ekki spurningum sem hún er spurð. Ég var ekkert að segja að það væri ekki búið að gera neitt fyrir öryrkja. Ég var bara að segja að það væri hópur af öryrkjum sem biði eftir leiðréttingu og biði eftir réttlætinu. Í þessari frægu ræðu árið 2017, þegar forsætisráðherra sagði að stjórnvöld ættu ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi um að bíða eftir réttlæti, sagði hún að það sama ætti við um fólk á flótta sem hingað leitar. Þetta er sagt réttum tveimur mánuðum áður en hún fer í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, með hv. þm. Sigríði Á. Andersen í dómsmálaráðuneytinu. Það er því augljóst að það hefur ekki verið hátt á forgangslista hæstv. ráðherra að beita sér fyrir réttlætinu í málum fólks á flótta.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, sem alla vega í orði á tyllidögum segist vera annt um að efla traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi: Hver er ábyrgð ráðherrans þegar kemur að því að hreinlega standa við orð sín? Hvernig á þjóðin í ljósi sögunnar að geta trúað einu einasta orði sem hæstv. ráðherra segir nú í aðdraganda kosninga?

Þarna hamrar Halldóra á fyrirpsurn sinni til að reyna að kreista út einhver vitræn svör frá Katrínu en hún heggur í sama farið og snýr jafnvel enn meira út úr í seinna svari sínu ásamt því að endurtaka ósannindi þau er hún áður hafði sagt og fer í manninn en ekki málefnið.

Herra forseti. Ég ætla að sleppa því að gera að umtalsefni mælskubrögð hv. þingmanns þó að hún kjósi að koma hér upp með einhverjar slíkar fabúleringar sem eru auðvitað ekkert annað en fabúleringar. Staðreyndin er sú, eins og ég fór yfir áðan, að komið hefur verið til móts við tekjulægstu hópana í þessu samfélagi allt þetta kjörtímabil með því að lækka skatta á tekjulægstu hópana, með því að hækka barnabætur á tekjulægstu hópana, með því að ráðast í sértækar úrbætur bæði hvað varðar aldraða og öryrkja innan almannatryggingakerfisins. Það eru staðreyndir sem hv. þingmaður fær ekki hrakið og leggst því í mælskubrögð.

Þessi skattalækkun til handa öryrkjum skilaði heilum 500 krónum í vasa öryrkja en var síðan tekin af þeim með það sama vegna skerðingarákvæðana sem enn eru í fullu gildi.
Barnabætur skila sér til þeirra sem eiga börn en að sjálfsögðu ekki til hinna sem barnlausir eru.
Hverjar þessar “sértæku úrbætur” eru hafa öryrkjar í raun enga hugmynd um hverjar eru því þær eru algjörlega ósýnilegar.

Hér að neðan eru tveir launaseðalar öryrkja sem búsettur er erlendis og sem eingögnu fær tekjur frá Tryggingastofnun Ríkisins.  Annar er frá fyrsta júní 2018 en hinn frá 1. júní 2021 og sýnir í raun þetta “réttlæti” Katrínar sem öryrjar hafa beðið eftir allt kjörtímabilið en verið sviknir um.

Smellið á myndina til að stækka.

Sá fyrri sýnir heildartekjur upp á 233.408 krónur fyrir skatt, frádráttur eru krónur 32.326,- svo það sem þessi einstaklingur hefur til að lifa af árið 2018 eru heilar 201.082,- krónur á mánuði.

Sá seinni sýnir heildartekjur upp á 259.284 krónur fyrir skatt, frádráttur eru krónur 30.753,- þannig að í síðasta mánuði hafði þessi einstaklingur heilar 228.531,- krónur til að lifa af á.  Hækkunin á fjórum árum, kjörtímabili frú Katrínar Jakobsdóttur sem forsætisráðherra eru heilar 27.449,- krónur, eða að meðaltali um heilar 6.862,- krónur á ári, meðan laun á almennum vinnumarkaði hafa hækkað meira en helmingi meira á þessu tímabili.

Smellið á myndina til að skoða.

Þess má svo einnig koma að, að þessi ríkisstjórn ásamt öllum ríkisstjórnum frá því eftir hrun hafa brotið 69. grein laga um almannatryggingar sem segir alveg skýrt að bætur almannatrygginga skuli fylgja launaþróun í landinu.
Það hefur alltaf verið svikið og lög brotin.

 69. gr.
 Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Það er fátt leiðinlegra en stjórnmálafólk sem getur ekki séð sóma sinn í að koma hreint fram, segja satt og rétt frá staðreyndum en reyna hvað eftir annað að snúa út úr staðreyndum og reyna þannig að fegra gjörðir sínar sem skaða fólkið sem stjórnmálamennirnir eiga að vinna fyrir í stað þess að bæta hag þess.

Blaðagrein sem Katrín Jakobsdóttir skrifaði eftir að hún varð formaður VG fylgir hér að ofan, blaðagrein sem Katrín reyndi um tíma að láta fjarlægja af vef VG og sem á dularfullan hátt hvarf af öðrum miðlum en hafði verið bjargað í tíma af einhverjum skynsömum einstaklingi.  Blaðagrein sem sýnir og sannar hvernig fólk getur orðið að andvherfu sinni þegar það fær aukin völd.

Aldrei hefur setið forsætisráðherra í ríkisstjórn landsins sem hefur verið eins mikill óþveri og svikari við fólkið eins og sú sem nú situr og er það samdóma álit þess almennings sem þarf að lifa undir svikum hennar um réttlætið fyrir fátækasta fólkið sem svíður mest, því eins og Halldóra Mogensen sagði í seinni fyrirspurn sinni; “Hver er ábyrgð ráðherrans þegar kemur að því að hreinlega standa við orð sín? Hvernig á þjóðin í ljósi sögunnar að geta trúað einu einasta orði sem hæstv. ráðherra segir nú í aðdraganda kosninga?”

Skoðað: 2052

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir