Áramótaræða forsætisráðherra skrumskæling á raunveruleikanum í íslensku þjóðfélagi

Skoðað: 701

Ræðan sem skilaði Kötu á stól forsætis en síðan hafa kjör ífeyrisþega bara versnað.

Þó nokkuð margir af þeim sem hafa lesið eða hlustað á áramótaræðu Katrínar Jakobsdóttur hafa tjáð sig opinberlega um ræðuna og segja hana eins langt frá raunveruleika almennings og hægt sé að komast.  Helst sé þarna um að ræða lýsingu á einhverjum hliðstæðum heimi, (parallel universe) sem annað hvort forsætisráðherra lifi í eða dreymi um því svo langt frá öllum sannleika sé ræða hennar.

Marinó G. Njállsson er ekkert að sykurhúða staðreyndirnar og tætir ræðu Katrínar í sig og leggur til að einstaklingar og samtök bjóði henni að skoða hvernig raunveruleikinn er í þjóðfélaginu í staðin fyrir að bulla tóma þvælu og í raun ljúga að þjóðinni í ræðu sinni en fólk getur lesið hana hérna og þá borið hana saman við það sem Marinó skrifar um hana.

Okkar ágæti forsætisráðherra sagði í ávarpi sínu á síðasta degi ársins:

“Það samfélag er gott sem styður þau sem minnst hafa”

Ég átti ekki von á jafn afdráttarlausum áfellisdómi forsætisráðherra yfir ríkisstjórn sinni og kemur fram í þessum orðum. Raðirnar hafa sjaldan verið lengri hjá góðgerðar- og hjálparsamtökum, einstaklingar eru að safna fé fyrir þá sem eiga ekki fyrir lífsnauðsynjum, bilið á milli lægstu launataxta og greiðslna frá almannatryggingum eykst á hverju ári, aldrei hafa fleiri verið heimilislausir, afborganir lána og leigugreiðslur eru enn einn ganginn að sliga heimili (sérstaklega tekjulágra), græðgin ríður ekki einteymingi né heldur gjafmildi stjórnvalda til þeirra sem ekki vita aura sinna tal.

Bara svo það sé á hreinu, þá er Ísland EKKI samfélag “sem styður þau sem minnst hafa”. Við stöndum okkur vissulega betur en Bandaríkin, en mér kæmi ekki á óvart ef flest ríki heims standi sig betur miðað við efnahagslega getu þjóðarinnar.

Í hvert sinn sem örlítið gefur á bátinn efnahagslega, þá leggst hlutfallslega mest á þá sem minnst mega sín. Þar hefur auðvaldið fundið breiðu axlir samfélagsins. Hvort heldur það sé vaxtastefna Seðlabankans, meint “markaðsleiga” sem ákveðin er einhliða af leigusölum eða verð á neysluvöru. Hafi heimili tekjur undir miðgildistekjum, að ég tali nú ekki undir fátækramörkum, mun aldan fyrst skella á þeim. Katrín og Bjarni horfa á úr fjarlægð til að vera viss um að aldan gangi ekki of langt á land og ógni kjörum þeirra, einkavina og fjármagnseigenda. Meðan það gerist ekki, þá er allt í lagi og ekkert þarf að gera.
Ég legg til að nokkrir valinkunnir einstaklingar og samtök bjóði Katrínu Jakobsdóttur í ferðalag um raunheima Íslands.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, bjóði ráðherra í ferð um veröld félagsmanna Eflingar. Ragnar Þór Ingólfsson gæti svo tekið við og kynnt Katrínu fyrir hinum mörgu leigutökum sem fengið hafa 30% hækkun leigu sinnar. Þuríður Harpa gæti síðan kynnt Katrinu fyrir öryrkjum sem þurfa að framfleyta sér og sínum á innan við 300.000 kr. eftir skatta og af því tekur leigusalinn 320.000 kr. Rauði krossinn gæti síðan frætt forsætisráðherra um líf útigangsfólks og flóttafólks. Umhyggja er Félag langveikra barna, en þau treysta á gjafmildi hinna ýmsu góðgerðafélaga svo börnin geti fengið þó ekki nema brot af þeirri þjónustu sem ríkið ætti að greiða og margir foreldrar hafa tekið þann kost að flýja Ísland svo börnin fái þá þjónustu sem þau þurfa. Næsti gæti forsætisráðherra notið leiðsagnar starfsmanna félagsþjónustu hinna ýmsu sveitarfélaga um heimili skjólstæðinga sinna, þar sem allt er skorið við nögl, þó viljann skorti ekki. Til að enda daginn á jákvæðum nótum fyrir ráðherrann, myndi hún heilsa upp á Heiðrúnu Lind og fá upplýsingar um eignarstöðu sjávarútvegsfyrirtækja, fengið samantekt hjá seðlabankastjóra um hagnað bankanna þriggja frá hruni og loks bankað upp á hjá Skattinum til að fá yfirlit yfir tekjur efnaðasta 1% þjóðarinnar og hve mikið þessi hópur hefur þénað síðustu 10 ár. Þannig vissi hún hvert peningarnir hafa farið sem hefðu getað nýst í að búa til samfélag “sem styður þau sem minnst hafa”.
Fjórum sinnum hefur VG verið í ríkisstjórn á síðustu 14 árum og fjórum sinnum hefur flokkurinn fórnað hugsjónum sínum og stefnumálum á altari frjálshyggjunnar. Alls hefur þjóðin notið leiðsagnar VG í rúmlega 9 ár af þessum 14 og á þeim tíma hefur auður sjávarútvegsfyrirtækja aukist um minnst 200 ma.kr., hagnaður bankannna er líklega kominn yfir 1.000 ma.kr. og fjármagnstekjur auðjöfra eru þarna einhvers staðar yfir ofan. Á Íslandi er gott að búa, fyrir suma! Fyrir hina er það streð, hark, endalaus barningur, spurning um heppni og síðan verður fólk að vera við því búið að vera barið niður í svaðið með jöfnu millibili með háum vöxtum, hárri leigu og hækkun verðs neysluvöru.

Ég er sammála, að það samfélag er gott sem styður þá sem minnst hafa. Spurningin er hins vegar hver laug því að forsætisráðherra, að það væri staðan á Íslandi.

Er ekki komin tími til að ráðafólk þjóðarinar kynni sér staðreyndir hlutana áður en þeir spúa út úr sér tómri þvælu og kjaftæði yfir þjóðina, kjaftæði sem í besta falli er ekki hægt að kalla neitt annað en útpældar lygar til að forðast að þurfa að horfast í augu við staðreyndir hlutana?
Eða var hún hreinlega að gjaldfella sjálfa sig og sína ríkisstjórn með ræðu sinni?

Færsla Marinós

Skoðað: 701

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir