Ræða Steinunnar Ólínu á Austurvelli í dag

Skoðað: 1695

Steinunn Ólína mætti með magnaða ræðu.

Kæru landar!

Ríkisstjórn íslands eða öllu heldur þjófræðisstjórn Íslands nýtur nú lítilllar tiltrúar almennings. Enn eina ferðina hefur Bjarni Benediktsson tekið snúning á eigum almennings, gert ríkustu hagsmunaaðilum landsins persónulegan greiða í þeim tilgangi einum að tryggja stöðu sína sem fjárreiðubóndi Íslendinga. Þrátt fyrir vinsældahrap treystir hann ennþá engum betur en sjálfum sér.

Það kemur ekki á óvart því þetta er genetískt próblem. Þetta er lærdómur úr hans föðurhúsum og þess vegna ræður hann bara ekki við sig; Ef það er hægt að taka snúning, tekur hann snúning, ef við lítum undan, þá lætur hann til skarar skríða, Ef hann er staðinn að verki stingur hann þumlinum upp í sig, ég þarf ekki að segja hverskonar manneskju ég er að lýsa, en við vitum öll, að honum mun aldrei verða misdægurt þótt ranglætið belgi út bankabækur besta vinafélagsins og frændgarðsins endilangs.

Og þess vegna, svo ég noti tungutak Bjarna sjálfs: þá væri það ,,heimskulegt“ að leyfa honum að sitja lengur.

Því hann mun bara halda áfram að selja undan okkur eigur okkar og landið sjálft svo lengi sem hann er í aðstöðu til þess. Hann kann ekkert annað. Engeyingar hafa aldrei haft hugsjónir eða það markmið að auðga eða bæta líf annara. Við þekkjum þetta fólk. Í viðskiptasögu Engeyinga fyrirfinnst engin nýsköpun, ekkert hugmyndaflug, þeir hafa síðustu áratugi grætt á andlausum grunnþjónustuviðskiptum. Þetta fólk sem fordæmir ríkisrekstur harðar en allt annað hefur meðal annars byggt sinn auð á að selja ríkinu þ.e okkur þjónustu sína.

Íslenska þjóðin er ekki heimsk og ráðherra sem talar til fólksins í landinu af svo djúpri fyrirlitningu á ekkert inni hjá okkur. Ekki neitt.

Bjarni Benediktsson stappar nú niður fótum því hann hefur í hyggju að þjóna áfram stærstu hagsmunaaðilum þessa lands í auðmýkt og lotningu svo hann geti molað landið að innan með frekari einkavæðingu almannaeigna og almannaþjónustu og tekið dágóða snúninga í leiðinni.

Í huga Bjarna má Samherji eiga fiskinn ef hann og hans útvöldu fá að eiga rest, landið, vatnið, vindinn og lífsandann! Það væri meira en lítið heimskulegt að leyfa honum það! Það stenst bara ekki skoðun!

Hér endar því stjórnmálasaga Bjarna Benediktssonar sem boðar land tækifæranna en bindur almenning fjötrum og kemur í veg fyrir að fólk geti verið sjálfstætt, borið höfuðið hátt og látið drauma sína rætast.

Bjarni Benediktsson sjálfstæðismaðurinn sjálfur berst gegn sjálfstæðinu sem hann boðar!

Þenslupólitík og samþjöppun auðs á fárra hendur er hugmyndafræði sem skilur efitr sig sviðna jörð. Á meðan allt hugsandi fólk berst gegn þessum heimsósóma sýnir Ríkisstjórn Íslands algjöran undirlægjuhátt fyrir þessari sjálfstortímandi hugmyndafræði.

Hér endar sú hörmungarsaga.

Ég biðla til Sjálfstæðisfólks á Íslandi að láta til sín taka. Bjarna er ekki treystandi. Bjarni stendur í vegi fyrir eðlilegu viðskiptalífi og jöfnum tækifærum öllum til handa. Innan ykkar raða er fólk sem trúir á sjálfstæði einstaklingsins til athafna. Takið til í eigin ranni, losið ykkur við Bjarna og færið okkur sjálfstæðið sem þið boðið!

Við getum ekki treyst honum, svona hugsar hann, svona vinnur hann, svona þekkjum við hann, nú afhjúpum við hann og afskrifum við hann – við rekum hann!

En vandinn er ekki bara bundinn við Bjarna. Vandinn liggur ekkert síður í liðveislu Katrínar Jakobsdóttur sem hefur tekið sér stöðu sem hin meðvirka miðaldra móðir sem reynir að verja það að óknyttastrákar hafi skorið í sundur málverkin, rifið niður gluggatjöldin, hlunnfarið húshjálpina, brotið gluggana, kveikt í fjölskyldualbúminu og pissað í píanóið.

Katrín segir: ,,það skiptir máli hver stjórnar“ og það er hverju orði sannara.

En Katrín hefur bara enga stjórn á Bjarna. Katrín sér ekkert að háttalagi Bjarna, Katrín styður Bjarna. Katrín er að deyja úr meðvirkni með Bjarna. Katrín skilur ekki að hún getur ekki læknað Bjarna! Katrín missir ráð og rænu í höndum Bjarna. Hvílík hræðileg örlagasaga er Katrín í höndum Bjarna!

Katrín kallar það lýðræðislega stjórnarhætti að samþykkja tilbúið fjársvelti fjármálaráðherra til almannakerfa.
Katrín kallar það farsæla hagstjórn að ránshendi sé farið um auðæfi lands og þjóðar.
Katrín kallar það samtal að sýna samstarfsfólki á Alþingi Íslendinga fálæti og hroka.
Katrín er hætt að tala íslensku svo nokkur skilji.

Þetta er sorgarsaga!
En vitiði hvað?
Hér endar þessi harmsaga.

Ungir kjósendur Vinstri Grænna hafa tekið til við að brenna, rífa og eyðileggja flokksskírteini sín og deila nú aðgerðum sínum á samfélagsmiðlum. Páll Magnússon gerðist uppljóstrari. Þingmenn VG hafa yfirgefið flokkinn á síðustu misserum, fólk sem getur ekki sætt sig við að leika tveimur skjöldum og tala tungum tveim.

Andóf er fyrsta skrefið og það ER mikilvægt skref. Það að gangast við því að hafa verið blekktur og una því ekki, er mikilvægt. Að láta ekki bjóða sér ofríki ofbeldismanna er heilbrigt.

Að gangast við því að hafa tekið afdrifaríkar ákvarðanir og sjá að sér, er stórt, það er mannbætandi. Hvorugt hafa Bjarni né Katrín gert og þó Katrín hafi ætlað sér að vera manneskjan með vitið í húsinu þá er hún því miður sú sem leyfir spillingunni að viðgangast í fullkominni meðvirkni.

Við verðum bara eins og hann Jesús að fyrirgefa henni, hún veit ekki lengur hvað hún gerir! Hún segir margt en gerir fátt. Hún segir eitt, en meinar annað, við getum ekki lengur treyst henni, við erum hætt að skilja hana – við verðum því miður að reka hana!

Og fyrst við erum á annað borð að reka fólk, er rétt að láta Sigurð Inga fjúka líka.

Spessi ljósmyndari mætti og dokkúmenteraði viðburðinn af sinni alkunnu snilld.

Skoðað: 1695

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir