Hamra járnið meðan það er heitt

Skoðað: 2076

Það er óhætt að segja að mikið hafi gengið á um helgina og fólk hefur fylgst vel með því sem er í gangi í þjóðfélaginu enda var stofnað til mótmæla í gær, laugardaginn 23. nóv og mæting var góð eða vel á fimmta þúsund manns.
Eini gallinn við þessi mótmæli voru þau að þingmenn og ráðherrar voru í helgarleyfi og grái steinkumbaldinn sem hýsir æðstu stjórn landsins því galtóm eins og hausinn á pólitíkus.

Þættirnir Sprengisandur og Silfur Egils hafa fengið góða deilingu á samfélagsmiðlum og Silfrið reyndar svo rosalega að þjónar RÚV réðu ekki við álagið og krössuðu hvað eftir annað þegar fólk var að reyna að horfa á þáttinn enda kom þar berlega í ljós að Egill Helgason er bullandi meðvirkur með gjörspilltum stjórnmálamönnum og þurfti að stoppa Atla Þór Fanndal af þegar hann ætlaði að fara reka spillingarmál þingmannsins framan í hann.

Áðurnefndur Atli hélt reyndar þrusuræðu á Austurvelli í gær og var ekkert að skafa utan af hlutunum heldur kallaði þá sínu rétta nafni og hlaut að launum mikið lófatak og hyllingu fyrir ræðuna, en hana má sjá hér og heyra að neðan.

Nú boðar Kveikur annan hluta spillingarmálsins á dagskrá Rúv á þriðjudagskvöldið 26. nóvember og verður fróðlegt að sjá hvaða mynd þeir draga upp í þeim þætti.  Það er mælt með því að fólk stilli inn á þáttin þegar hann verður sýndur og óskandi að tæknimenn RÚV verði búnir að koma streymisþjónum í lag og að næg bandvídd sé til staðar svo fólk geti fylgst með á netinu.

Gamallt máltæki segir að hamra skuli járn meðan heitt er og nú þarf fólk að standa saman í því að fara að mótmæla svo það heyrist inn í steinkumbaldann kalda og gráa við Austurvöll og nái eyrum þeirra er þar sitja því ekki hlustar þetta fólk á almenning að því er virðist, nema barin séu búsáhöld eða olíuföt af stærri gerðinni svo þeim er inni sitja verður sárt í eyrum og hugsun óskýr vegna hávaða.

Nú má alls ekki slá slöku við og fólk verður að vera samtaka í því að láta þingheim, ráðherra og umheiminn vita að það er komið meira en nóg af spillingu, afneitun á henni og löskuðu siðferði ráðamanna landsins.
Við þurfum siðað fólk og heiðarlegt á alþingi og já, við þurfum líka nýja stjórnarskrá.

Skoðað: 2076

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir