Braut Gunnar Bragi 128. grein almennra hegningarlaga?

Skoðað: 3366

Mynd: Gunnar Karlsson.

Það má öllum vera nokkuð ljóst að sú uppljóstrun sem birst hefur í fjölmiðlum undanfarið hefur valdið talsvert miklu fjaðrafoki í þjóðfélaginu og ekki síst inni á Alþingi Íslendinga enda þeir þingmenn sem þar eiga í hlut ekkert að skafa utan af stóryrðum sínum um samþingmenn sína, sérstaklega konur þó svo einn og einn karlmaður hafi fengið að finna fyrir því hjá þeim.

En í upptökunni leynast upplýsingar þar sem Gunnar Bragi Sveinsson fyrrum utanríkisráðherra ljóstrar því upp hvernig hann skipaði Geir H. Haarde sendiherra í Bandaríkjunum með samkomulagi við Bjarna Ben upp á það að Gunnar Bragi sjálfur nyti í framtíðinni góðs af þeirri skipun, yrði jafnvel verðlaunaður með sendiherrastöðu þegar fram líða tímar.

Í viðtali á Rúv í morgun sagðist hann hafa logið til um þetta en það var of seint í rassinn gripið því Sigmundur Davíð, sem þá var forsætisráðherra hefur staðfest að þetta var rétt eftir haft og því er það staðreynd að Gunnar Bragi laug í viðtalinu í Rúv.

Í 128. grein almennra hegningarlaga segir meðal annars: „Ef opinber starfsmaður, [alþingismaður eða gerðarmaður] heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til, í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skal hann sæta … fangelsi allt að 6 árum, eða sektum, ef málsbætur eru.“

Ákvæðinu um alþingismennina var bætt inn í lögin árið 2013 vegna fullgildingar samnings Evrópuráðsins á sviði refsiréttar um spillingu. Fram kom í máli þáverandi innanríkisráðherra að frumvarpið væri lagt fram í kjölfar ábendinga í skýrslu GRECO um framkvæmd Íslands á spillingarsamningi Evrópuráðsins og tilmæla vinnuhóps OECD um mútur í alþjóðlegum viðskiptum. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi 24. janúar 2013 með öllum greiddum atkvæðum og í einu umsögninni sem barst um málið sagði: „Alþýðusamband Íslands styður heils hugar lagabreytingar eins og þessa sem eru settar með það að marki að auka siðvæðingu samfélagsins.“

Þessi frétt á Stundini afhjúpar þetta ágætlega enda fylgir hljóðuptaka með.

Nú er það stóra spurningin, verður hafin rannsókn á þessu máli til að kanna hvort 128. greinin hefur verið brotin?

 

Skoðað: 3366

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir