Áhrif lyfjaleysis á einni viku

Skoðað: 2167

Maríanna Vilbergs Hafsteinsdóttir

Í þessari grein fylgja þrjár hljóðskrár sem við hvetjum fólk til að husta á þar sem heyra má hvernig lyfjaleysið hjá Maríönnu Vilbergs Hafsteinsdóttur fer með getu hennar til að tala.
Sjálf setti hún inn stöðufærslu á Facebook, (með aðstoð þar sem hún getur ekki skrifað sjálf) og deildi pistli okkar frá í gær þar sem hún lýsir því hvaða áhrif lyfjaskorturinn hefur á hennar heilsu.

Sá sem þetta skrifar er einn af fáum sem hún treystir sér til að tala beint við í myndsímtölum í því ástandi sem hún er komin í núna eftir heila viku án þeirra lyfja sem hún notar til að halda krömpum, spasma og málstoli frá sér en hún segir meðal annars:

Þeir sem þekkja mig vita að ég er búin að vera mjög veik í 4 ár. Loksins þegar að ég er komin á rétt lyf sem gefa mér kost á að lifa nokkuð eðlilegu lífi og halda verstu krömpunum, verkjunum og köstunum aðeins í skefjum, þá eru lyfin búin í landinu og bið eftir meira.

Nú er ég búin að vera lyfjalaus í 7 daga sem gerir líf mitt mun erfiðara og ég er að missa málið meira og meira, og það mun taka langan tíma að ná því tilbaka, eða hvort það sé hægt. Ég á erfitt með að tala, sofa, halda niðri mat og annað!

Í myndsímtali sem ég, (Jack) átti við hana í morgun, rétt fyrir klukkan átta var ástand hennar orðið hreint út sagt skelfilegt, átti hræðilega erfitt með að tala, fékk krampa hvað eftir annað og kúgaðist aftur og aftur.  Af því ég er búinn að þekkja hana til fjölda ára, bæði fyrir og eftir slysið sem hún lenti í þá á ég auðveldara með að skilja hana þegar málstolið tekur yfir og hún þarf stundum langan tíma til að koma frá sér orðunum og þá meira og minna bjöguðum eða hreinlega alls ekki svo maður þarf að geta í eyðurnar.  Þolinmæði til að hlusta og leyfa henni að klára það sem hún er að reyna að segja er ekki öllum gefin og hún hefur oftar en tölu verður á komið fengið yfir sig dónaskap og hroka frá fólki sem heimtar að hún tali íslensku og / eða hætti að spila sig sem útlending eða fávita.  Þetta verður oft til þess að hún fær ekki þá þjónustu sem hún þarf á að halda og verður að hafa aðstoðarmanneskju með sér þegar hún fer í apótek, verslanir eða annað þangað sem hún þarf að sækja sér þjónustu.

Sérþjálfaður hundur sem hún er með skilur ekkert í því af hverju hún tekur ekki lyfin þegar hann gefur henni merki um það.

Þetta er mjög erfitt og hefur ekki bara áhrif á mig heldur alla fjölskylduna og vini sem þurfa að horfa uppá mig verða veikari og veikari og geta ekkert gert. Álfur (hundurinn minn) sem er þjálfaður hjálparhundur skilur ekki af hverju ég tek ekki lyfin mín þegar að hann gefur mér merki, hann vill ekki borða og er mjög órólegur.

Það er náttúrulega ekkert hugsað út í það að þetta fer illa með dýrið því það skilur ekki hvað er að gerast og eins og hún segir, hundurinn nærist ekki af því hann hefur áhyggjur og veit að það er eitthvað mikið að en skilur ekkert hvað er að gerast.
Þarna eru stjórnvöld beint orðin ábyrg fyrir illri meðferð á dýrinu og það er ekki við Maríönnu að sakast, hún fær ekki lyfin sem hún þarf vegna vanrækslu stjórnvalda.  Starfshópur leysir ekki málið það þarf aðgerðir og það strax.

Ég hef áhyggjur af minni heilsu og annarra sem eru í sömu stöðu. Ég skil og finn til með ykkur líka.

Maríanna er ekki ein um að vera í þessari stöðu eins og hún segir og við tökum undir með henni hvað það varðar og hvetjum þá sem bera ábyrgð á því að þessi staða kemur upp aftur og aftur að taka á þessum málum og koma í veg fyrir að þetta gerist oftar.  Það verður aðeins gert með beinum aðgerðum ekki starfshópum eða nefndum á ofulaunum sem síðan skila engu eftir sex mánuði, eitt ár eða tvö.  Þetta þarf að gerast strax!

Lyfin mín eru nú “föst” í tollinum og búin að vera það í viku (svo er mér sagt). Mig fannst ég tilneydd til að segja ykkur stöðuna og þakka Kela og Guðmundi Inga sérstaklega, fyrir að hlusta á mig og gera eitthvað í málunum! Vonandi leysist þetta fljótt og þarf aldrei að gerast aftur fyrir nokkurn mann! Öllum velkomið að deila! Kærleikskveðjur til ykkar.

(Skrifað af Hjördísi fyrir mína hönd)

Það að tollafgreiða ekki lífsnauðsinleg lyf um leið og þau berast til landsins er ekkert annað en glæpsamlegt athæfi gagnvart því fólki sem bíður eftir lyfjunum.  Stjórnvöld og opinberar stofnanir sem haga sér með þeim hætti á að ákæra og draga fyrir dóm því þeir embættismenn, ráðherrar og þeir sem bera ábyrgð á þessum hlutum eru að brjóta landslög og alþjóðasamþykktir.
Við svona lagað er ekki hægt að búa lengur og stjórnvöld verða að axla þá ábyrgð sem af þessu hlýst.

Við þökkum Guðmundi Inga Kristinssyni FF að hafa hlustað á okkur og vakið máls á þessu í ræðu sinni um störf þingsins á Alþingi í gær en því miður er okkur til efs að nokkur af þeim sem ábyrgir eru fyrir þessari stöðu mála hafi hlustað á orð hans en þakka ber þeim sem þakkir á skyldar.

Hljóðskrá á síðasta degi á lyfjum föstudaginn 23. september.

Hljóðskrá miðvikudaginn 28. september og það má heyra hvað hún á orðið erfitt með að tala eftir að hafa verið lyfjalaus í fimm daga.

Hér er svo síðasta skráin sem við fengum í morgun og þið megið setja í komment hvort þið skiljið það sem hún er að reyna að segja.

Að neðan er svo stöðufærsla Maríönnu.

ÞESSARI GREIN MÁ DEILA OG SENDA Í TÖLVUPÓSTI TIL ÞINGMANNA OG RÁÐHERRA TIL AÐ GERA HEIÐARLEGA TILRAUN TIL AÐ VEKJA ÞÁ AF ÞEIM DVALA EÐA DRAUMASVEFNI SEM ÞEIR GREINILEGA ÞJÁST ILLILEGA AF UM ÞESSAR MUNDIR.
EINNIG MÁ HAFA SAMBAND VIÐ OKKUR EF ÞÚ HEFUR SÖGU AÐ SEGJA Á NETFANGIÐ:  SKOT@SKANDALL.IS.

Skoðað: 2167

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir