Óskum ykkur gleðilegrar hátíðar

Skoðað: 644

En þó ekki öllum.  Sumir eru nefnilega því marki brenndir að þeir eiga ekkert gott skilið miðað við hvernig þeir haga sér og koma fram við annað fólk og þá sérstaklega fyrir hátíðarnar.
Einstaklingar sem með græðgina að leiðarljósi, dansandi í kringum gullkálfinn en kalla sig kristna á sama tíma og þeir maka eigin krók á kostnað fátækasta fólksins í landinu.

Breyta þurfti “dröftuðum” pistli í flýti þar sem ótrúleg staðreynd blasti við undirrituðum í morgun þegar búið var að nudda stýrurnar úr augunum, gefa köttunum morgunskattinn, (þýðir ekkert að fá sér kaffi fyrr en þeir eru búnir að fá sitt enda eru þeir á þeirri skoðun að það sé verið að reyna að drepa þá úr hungri fái þeir ekki matinn sinn á réttum tíma og helst tveim tímum fyrr), skola síðan síðustu hrotum næturinar niður með rótsterku kaffi.  Þurfti því að bretta upp ermar (á ermalausa bolnum sem ég alla jafna geng í hér heima) og þurka út fyrri skrif og fara að hugsa. (Morguninn er einmitt besti tíminn til þess), þið sem hugsið svona alla jafna eitthvað vitið hvað ég á við.

Sif Sigmarsdóttir pistlahöfundur með meiru.

Ástæðan er einföld og má lesa í góðum pistli Sifjar Sigmarsdóttur þennan aðfangadag jóla í Fréttablaðinu.
Undirritaður var búinn að eyða nokkrum dögum í berja saman “jóla”hugvekju sem átti að birta um hádegið í dag en rak upp stór augu þegar pistill Sifjar birtist í morgun og setti hljóðan því annað hvort hafði það gerst að Sif “hakkaði” sig inn í heilabú undirritaðs og rændi þaðan nánast fullburða pistli þeim sem hún síðan birti með jólabros á vör.

En þetta er nú allt í góðu gríni sagt um hana Sif okkar því hún er snilldarpenni sem undirritaður gæti aldrei fetað í fótsporin á en situr þess í stað við fótskör hennar og dáist því hve leikin hún er með að koma hinum alvarlegri hugrenningum á blað þannig að eftirtekt vekji en þó alltaf með gamansömum undirtón þrátt fyrir alvarleika þess efnis sem hún fjallar um.

Nóg um það því þar sem ég varð að breyta mínum pistli til að verða ekki sakaður um ritstuld þá læt ég hér fylgja brot úr pistli Sifjar því eins og sagt er, bæði í gríni og alvöru, “Great mind think alike” og á það vel við um þá furðulegu tilviljun að við skyldum skrifa nánast það sama í okkar pistlum.

Hvernig stendur á því að ævintýri sem var skrifað fyrir 179 árum nýtur enn slíkrar hylli?

Jóladraumur kom út árið 1843. Dickens var ekki nema 31 árs. Þótt hann væri þá þegar vinsæll rithöfundur átti hann í fjárhagsbasli. Nýjasta bók hans hafði selst illa og útgefandinn hótaði að skera niður laun hans.

 

Jóladraumur er ádeila á harðneskjulegt viðhorf til fátæktar á Viktoríutímanum. Sögunni er ætlað að „opna hjörtu lesenda fyrir þeim sem heyja harða lífsbaráttu í neðstu þrepum samfélagsins,“ segir Michael Slater, fremsti Dickens-sérfræðingur Breta. „En hún er einnig aðvörun um hætturnar sem stafa að samfélaginu af völdum almennrar fáfræði og óuppfylltra þarfa fátækra.“

Hugsunarháttur hinna velmegandi, ofurríku og á sama tíma siðblindu einstaklinga sem ráða för í dag er nákvæmlega sá sami og þegar Jóladraumur var skrifaður. Það hefur lítið breyst á tæplega 180 árum í heiminum þrátt fyrir meira og betra aðgengi að upplýsingum og tækni.

Skömmu fyrir jól mátti lesa eftirfarandi fyrirsögn í Fréttablaðinu: „Sætti sig við að vera án jóla en átti ekki von á að enda á götunni.“ Fréttin fjallaði um 65 ára einstæðan sjúkling, Brynju Bjarnadóttur, sem fékk kalda jólakveðju í tölvupósti frá leigufélaginu Ölmu; tilkynningu þess efnis að hækka ætti mánaðarleigu hennar um 75.000 krónur, úr 250.000 krónum í 325.000. „Ég lendi á götunni um áramót,“ sagði Brynja.

Á síðustu 18 mánuðum hagnaðist leigufélagið Alma um rúma 17 milljarða króna samkvæmt Kjarnanum, eða um 950 milljónir króna að meðaltali á mánuði.

Hvað útskýrir langlífi Jóladraums Dick­ens? Þetta. Á árinu 2022 lifir enn í glæðum Viktoríutímabilsins.

Megi jólaandarnir þrír vitja þeirra sem það eiga skilið í nótt. Ykkur hinum óska ég gleðilegrar hátíðar.

Pistil Sifjar má lesa hér í heild sinni en við hér á Skandall.is óskum ykkur gleði og gæfu yfir hátíðarnar, það er að segja ykkur sem eru EKKI Ebenezer Scrooge í huga ykkar og hjarta.

Skoðað: 644

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir