Helbláir stjórnendur borgarafundar á RÚV

Skoðað: 3436

Skjáskot úr þætti rúv.

Ríkisútvarpið Sjónvarp á að vera hlutlaus miðill allra landsmanna og hefur ákveðnar skyldur í þeim efnum.  Að vera fræðslu og upplýsingastöð með vandað efni í hæsta klassa og að þar sé gerð sú krafa að þeir sem afla og flytja fréttir, fréttatengt efni og þætti séu algjörlega hlutlausir þegar efnið er pólitískt.

Því miður er oftast mikill misbrestur þar á og hefur það farið versnandi á síðustu árum að fréttamenn og þáttastjórnendur eru svo ramm – bullandi pólitískir að þættirnir sem þeir stjórna bera þess skýr og greinileg merki hvaða flokkum þeir fylgja að málum og það er ekkert verið að fela það á nokkurn hátt lengur.

Þann fyrsta oktober síðastliðin var haldin borgarafundur í beinni útsendingu í sjónvarpssal og stjórnuðu þeim þætti þau Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir og Einar Þorsteinsson fréttamenn RÚV.

Það skal tekið fram áður en lengra er haldið að mjög margt gott kom fram á þessum borgarafundi en þarna gerðist líka margt sem var bæði RÚV og þáttarstjórnendum báðum til háborinar skammar og sannaði að það hentar ekki alltaf að allur sannleikur mála og staðreyndir komi í ljós því þarna var aftur og aftur reynt að þagga niður, af þáttarstjórnendum, í þeim sem reyndu að koma á framfæri staðreyndum um kjör margra eldri borgara.

Erna Indriðadóttir og Viðar Eggertsson virtust greinilega staðráðin í að beina talinu að því hróplega ranglæti sem felst í allt of lágu frítekjumarki, tekjutengingum og óhóflegum skerðingum á lífeyrisgreiðslum úr almannatryggingakerfinu, ranglæti sem meirihluti eldri borgara má búa við (allt 300.000 króna fólkið), en stjórnendur þáttarins nánast þögguðu niður í öllu slíku tali.

Viðar skrifar eftir þáttinn færslu á Facebook síðu sína um upplifunina af þessum þætti:

Tók þátt í umræðu um málefni eldri borgara í Kastljósi. Umræðunni var skipt upp í þrjú meginþemu og skipt um fólk í panel eftir þemum. Því miður var ég ekki í þeim hluta sem fjallaði um launakjör og afkomu. Ég segi því miður, því þá hefði ekki staðið á mér að mótmæla orðum stjórnarþingmannsins sem þarna var og fannst sæma að taka sem dæmi um kjör eldri borgara að fólk hefði milljón (sic!) í greiðslur úr lífeyrissjóði á mánuði og því væri rétt að skerða eftirlaun frá almannatryggingum!

Kannski sýnir þetta sápukúluna og fyrringuna sem fólk getur verið haldið sem vílar og dílar með kjör okkar á Alþingi. Því ekki þekki ég neinn sem hefur rétt á slíkum greiðslum (nema þá helst alþingismenn sjálfa sem hafa rækilega tryggt eftirlaun sín). Hitt þekki ég vel – af miklum fjölda fólks – sem hefur í kringum 250.000 í greiðslu frá lífeyrissjóði og þegar ríkið hefur beitt skatta- og skerðingahníf sínum á greiðslurnar frá almannatryggingum, 248.105 kr., þá situr fólk eftir með alls um 300.000 kr. til að lifa á. Það er undir framfærsluviðmiði hins opinbera.

Já, og svo er fjöldi fólks sem ber minna úr býtum…

 

Það er vel þess virði að skoða umsagnirnar við þessa færslu Viðars enda kemur þá upp úr dúrnum hvað mörgum fannst um þáttinn, þáttarstjórnendur og framkomu þeirra við þá sem voru að reyna að koma réttlætismálum og staðreyndum á framfæri.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvernig staðið er að svona þáttum í framkvæmd og vinnslu því þarna var eingöngu fólk sem hefur haft góðar tekjur um ævina og hefur jafnvel enn og þarf ekki að hafa áhyggjur af elliárunum þegar það sest í helgan stein eins og svo margir þeir sem ómenntaðir eru og hafa alla sína tíð þrælað á lægstu laununum við búskap eða verkamannavinnu en ekkert af því fólki sást á setti né heldur sáum við þær konur sem allan sinn aldur sinntu börnum og búi og þar af leiðandi tekjulausar og þurfa því í ellinni að hokra á þeirri hungurlús sem ríkið skammtar þeim.

Allir hljóta að sjá það skýrt og greinilega að RÚV er ekki fyrir almenning því allir þættir fréttatengdir sem snúa að almenningi eru lokaðir fyrir því að sá hópur eða talsmenn þeirra fái að tjá sig opinberlega.  Það er aðeins elítan, rjómi íslendinga sem ljúflega renna inn í dagskrá þeirra þátta þar sem fjallað skal um kjör aldraðra, sjúkra og fátækra.  Aldrei sér maður í Silfri Egils fólk sem þarf að komast af á rétt rúmlega 200 þúsund krónum á mánuði eða lýsingar þess fólks hvernig það fer að því að lifa af á þeim nánasarbótum sem þeim eru skammtaðar heldur eru kallaðir til “sérfræðingar” í málefnum fátækra, fólk með um og yfir hálfa milljón á mánuði til að lýsa fátæktinni.

Það er ömurlegt að horfa upp á svona vinnubrögð og svona hegðun þáttarstjórnenda og þessu þarf að breyta og þetta þarf að laga.
Það á ekki að líðast lengur að RÚV sé bara útvarp/sjónvapr sumra landsmanna en ekki allra.
Það á líka að leyfa fátæku og veiku fólki að mæta í þættina og gamla fólkinu sem líka er fátækt til að sýna sannleikann og staðreyndir um ástandið í þjóðfélaginu í stað þess að reyna að draga alltaf upp einhverja glansmynd af einhverju sem er bara tálsýn í besta falli og fals og lygi í versta falli.

Hér má síðan horfa á borgarafundinn á Rúv en þátturinn verður aðgengilegur á vef RÚV til 30. des, 2019.

Skoðað: 3436

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir