Geta þau ekki bara étið hor?

Skoðað: 1851

Sagan segir að Marie Antoinette Frakklandsdrottning hafi einhverju sinni spurt að því hvers vegna soltinn almúginn borðaði ekki bara kökur þegar fólkið kvartaði undan því að eiga ekki fyrir brauði, seint á 18. öldinni en sagan er víst lygasaga og á sér enga stoð í raunveruleikanum.

Trölli.is hefur á þessu ári fengið sendann launaseðil öryrkja í nokkur skipti. Hér er hægt að sjá svart á hvítu þann blákalda raunveruleika sem öryrkjar á Íslandi búa við.

HVERNIG VERÐUR SÁ DÓMUR ?

Í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið undanfarið um meðferð vistmanna Arnarholts fyrir hálfri öld segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. “Mikilvægt er að komast til botns í hvað gerðist í Arnarholti og víðar, segir heilbrigðisráðherra. Frásagnir af þeirri meðferð sem vistmenn í Arnarholti sættu séu hræðilegar og átakanlegar. Ráðherra segist ætla að beita sér eins og henni sé unnt til að allt verði dregið fram í dagsljósið”. 

Víst var þetta hræðileg og átakanleg meðferð sem vistmenn urðu fyrir. Ef rýnt er í söguna með nútímagleraugum eigum við ekki orð yfir hvernig svona gat viðgengst fyrir 50 árum.

Ég spyr jafnframt – ef rýnt verður í söguna eftir 50 ár á meðferðina á öryrkjum, hvernig verður sá dómur réttlættur að öryrkjar á Íslandi voru sveltir árið 2020 ?

Þegar rýnt verður í söguna eftir hálfa öld er líklegt að fólki eigi eftir að hrylla við því hvernig öryrkjar og aldraðir voru kerfisbundið sveltir af núverandi stjórnvöldum, kúgaðir og öllu sem þeir hafa unnið sér fyrir, hirt af þeim með lögbundnum þjófnaði sem ríkisttjórnin kallar svo fallega “skerðingar vegna of mikilla tekna eða eigna” en engu að síður þjófnaður hvað sem öllu orðaskrúði líður.

JÓLAMATURINN VERÐUR ÉTINN ÚR EIGIN NEFI

Á dögunum þegar ég var að elda kvöldmatinn sem samanstóð úr 2ja daga gömlum grjónagraut og hafragraut síðan um morguninn, hugsaði ég með mér að nú væri illt í efni.

Allar nauðsynjar hafa hækkað töluvert vegna styrkingu krónunnar og ég sé fram á algjöra hörmung í desember. Ég get einfaldlega ekki lifað og sé fram á að hátíðarmaturinn verði étinn úr eigin nefi.

Meðfylgjandi mynd lýsir nákvæmlega því lífi sem boðið er upp á af ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga ásamt fylgisfólki þeirra, bæði innan þings og utan sem styðja stefnu þeirra.

Skoðað: 1851

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir