Enn ætlar ríkisstjórnin að hunsa lög nr. 100/2007 um almannatryggingar
Skoðað: 2003
Marínó G Njálsson skrifar langa færslu um einbeittan brotavilja ríkisstjórnarinar þar sem farið er í saumana á því hvernig þróun upphæða og greiðslna sem renna til örorkulífeyrisþega. Hér er EKKI verið að fjalla um greiðslur til ellilífeyrisþega.
Skoðum fyrst hvað segir í 69. gr. laga 100/2007 (sjá hér: https://www.althingi.is/lagas/150c/2007100.html):
“Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.”
Þetta ákvæði var sett inn í lög 117/1993 (sem voru endurútgefin sem lög 100/2007) með lögum 130/1997. Í athugasemdum með einstökum greinum þess frumvarps segir m.a.:
“Í stað núgildandi bráðabirgðaákvæðis um hækkun bóta almannatrygginga er í 9. gr. lagt til að þær verði framvegis endurskoðaðar árlega og breytt í samræmi við þróun launa, en hækki þó aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þannig er við það miðað að verðlagsmiðun ráði, ef verðlag hækkar meira en laun. Jafnframt er eðlilegt að fjárhæð bótanna verði ákveðin á fjárlögum hverju sinni, enda byggist viðmiðun þeirra á sömu forsendum og fjárlög um almenna þróun launa og verðlags á fjárlagaárinu.” (sjá hér: https://www.althingi.is/altext/122/s/0407.html)
Það fer því EKKERT á milli mála, að vilji löggjafans var að eingöngu átti að víkja frá viðmiðinu um þróun launa, þegar laun hækkuðu minna en vísitala neysluverðs. Annars á að hækka upphæðir í samræmi við forsendur fjárlaga um launaþróun!
Hér fyrir neðan skoða ég áhrif lögbrota ríkisstjórna frá árinu 2007. Ég er hins vegar nokkuð viss um að sé farið aftur til ársins 1997, þá bætist talsvert í syndakistuna.
Frá því að lög 100/2007 tóku gildi hafa vissulega orðið hækkanir á upphæðum allra flokka almannatrygginga og eins hafa orðið breytingar á samsetningu flokka. Skoðum þetta nánar fyrir annars vegar árið 2007 og síðan árið 2020.
Upphæðir árið 2007:
Örorkulífeyrir 24.831
Aldurstengd örorkuuppbót, 100% 24.831
Örorkustyrkur, yngri en 62 ára 18.184
Tekjutrygging örorkulífeyrisþega 79.674
Heimilisuppbót 23.164
Upphæðir árið 2020:
Örorkulífeyrir 48.108
Örorkustyrkur 16 til 61 árs 35.565
Örorkustyrkur 62 ára og eldri 48.108
Aldurstengd örorkuuppbót (100%) 48.108
Tekjutrygging örorkulífeyrisþega 154.058
Heimilisuppbót til örorkulífeyrisþega 52.073
Verðbólga frá ársbyrjun 2007 til ársbyrjunar 2020 var 76%. Það þýðir að upphæðir hafa hækkað lítillega umfram verðbólgu á þessum 13 árum eða um 94%. Svona á að giska 1,2% umfram verðbólgu á ári.
Launavísitalan sem Hagstofan reiknar stóð í 311,5 stigum í janúar 2007 og 705,6 í janúar í ár. Breyting á þessum 13 árum er 126,5%. Þetta þýðir að frá því að lög 100/2007 tóku gildi hafa örorkulífeyrisþegar dregist verulega aftur úr meðallaunamanninum, þ.e. sem birtist í launavísutölunni. Lægstu taxtarnir hafa síðan hækkað enn meira, t.d. fann ég frétt á síðu Samtaka atvinnulífsins, þar sem fram kom að hækkun lægstu launa frá janúar 2008 til 2014 hafi verið 71%. Þá eru öll hin árin eftir.
Munurinn á 94% hækkun og 126,5% hækkun er 35%. Þ.e. hlutfallsleg hækkun meðallaunamannsins var 35% meiri en örorkulífeyrisþegans og örugglega nokkur hundruð föld þegar horft er til krónutölunnar.
Hefðu upphæðirnar frá árinu 2007 hækkað í samræmi við launavísitölunnar, þá væri örorkulífeyrir og aldurstengd örorkuuppbót 56.246 kr. (hvort um sig) og tekjutrygging örorkulífeyrisþega 180.475 kr. Heimilisuppbótin hefur að mestu haldið í við vísitölulauna. Örorkulífeyrisþegi, sem fær tekjutryggingu og fulla aldurstengda örorkuuppbót, er svikinn um rúmlega 42.000 kr. á mánuði að frádregnum sköttum. Það gerir rúmlega hálfa milljón á ári.
Þar sem þetta hefur hugsanlega verið gert frá árinu 1998, þá var mögulega komin 25% skekkja árið 2007 og ef hún bætist ofan á 35% skekkjuna, þá ættu ofangreindar upphæðir að vera enn hærri og svikin því enn meiri.
Ekki er hægt að heimfæra þessa útreikninga yfir á upphæðir ellilífeyris, því þær hafa fylgt öðru ferli en upphæðir vegna örorkulífeyris.
Skoðað: 2003