Aldraðir og öyrkjar svelta meðan fjármálaráðuneytið leggur til að bankabónusar tvöfaldist

Skoðað: 36169

Reikniskúnstir fjármálaráðherrans.
Reikniskúnstir fjármálaráðherrans. MYND: Gunnar Karlsson

Það er ekki hægt annað en lýsa yfir megnasta viðbjóði á stjórnarháttunum sem stundaðir eru í þessu þjóðfélagi nú til dags.
Meðan aldraðir og öryrkjar eru svo gott sem sveltir til dauða á tekjum sem eru langt undir viðmiðunarmörkum sem velferðarráðuneytið hefur sett og ráðherra velferðarmála og fjármála með fulltingi Alþingis alls gerir ekkert til að bæta hag þessa þjóðfélagshóps, þá berast þær fréttir úr fjármálaráðuneytinu að bónusar í einhverjum mestu þjófabælum á vesturlöndum megi alveg tvöfaldast að skaðlausu.

Í Kjarnanum segir eftirfarandi:

Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur að það yrði að „skaðlausu“ að veita fjármálafyrirtækjum heimild til að greiða tvöfalt hærri bónusgreiðslur en núverandi reglur kveða á um og þær megi því vera allt að 50 prósent af föstum árslaunum starfsmann. Þá mætti einnig skoða að smærri fjármálafyrirtækjum yrði leyft aðgreiða hlutfallslega enn hærri kaupauka til starfsmanna, til dæmis 100 prósent af árslaunum, heldur en stóru viðskiptabönkunum.  Samkvæmt lögum sem nú eru í gildi mega bónusar starfsmanna fjármálafyrirtækja vera 25 prósent af föstum árslaunum þeirra.

Á sama tíma og þetta er að gerast hafa aldraðir og öryrkjar hvað eftir annað gert þá kröfu að bætur þeirra hækki til samræmis við það sem lög gera ráð fyrir og fylgi kjarasamningum á almennum markaði, án árangurs Skilaboðin sem lífeyrisþegar þessa lands fá frá ráðamönnum eru einfaldlega að halda kjafti og þakka fyrir að fá þó það sem að þeim sé rétt.  “Þið hafið það alveg nógu gott helvítin ykkar” eru þau skilaboð sem Bjarni Benediktsson, Eygló Harðardóttir og restin af ríkisstjórninni sendir rúmlega þrjátíu þúsund einstaklingum sem margir hverjir eiga ekki fyrir mat eða lyfjum út mánuðinn.  Það er margsannað mál að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei verið hliðhollur öldruðum og öryrkjum og mun aldrei verða það.
Því lítur út fyrir að eina leiðin til að sækja réttlát kjör, sé hreinlega að stefna ríkinu.

Svo maður tali nú ekki um þá félgaslegu einangrun sem fátækt getur valdið.

Gamla fólkið sem byggði upp þetta þjóðfélag undir rassgatið á núverandi ríkisstjórnarmeðlimum hefði betur tekið fastar á þessum silfurskeiðungum og rasskellt þá almennilega í uppvextinum og látið þá vinna almennilega vinnu í stað þess að þagga niður í frekjuöskrunum í þessum aumingjum með því að stinga upp í þá sælgæti.
Aumingja fólkið vildi vel, vildi ekki að þessir duglausu ræflar og sjálfhyggjuaumingjar þyrftu að þræla sér til húðar fyrir fertugt og hefnist nú fyrir það því þeir eru búnir að bíta höndina sem fæddi þá, af við öxl.
Er nema von að fjölgun alraðra með sjálfsskaða og tilraun til sjálfsvíga hafi snaraukist siðan þessi stjórn komst til valda?

Það er hreint ógeðslegt að sjá hvernig Bjarni Benendiktsson kemur fram við gamla fólkið í þessu landi og það fólk sem hefur unnið frá sér heilsuna langt fyrir aldur fram.

Meira úr grein Kjarnans:

Íslandsbanki og Arion banki gjaldfærðu samtals um 835 milljónir króna vegna kaupaukagreiðslna til starfsmanna sinna á síðasta ári. Um hundrað starfsmenn fá slíkar greiðslur hjá hvorum banka fyrir sig. Arion banki gjaldfærði 477 milljónir króna í fyrra sem var 25 milljónum króna meira en árið á undan. Samtals hefur bankinn því gjaldfært tæpan milljarð króna vegna kaupaaukakerfis síns á síðustu tveimur árum. Íslandsbanki gjaldfærði 258 milljónir króna í fyrra, eða 17 milljónum krónum meira en árið 2013. Samtals nema kaupaukar til starfsmanna bankans því rúmum hálfum milljarði króna á tveimur árum.

Á meðan banksterarnir geta rakað til sín tugum milljóna í bónusa, (við munum jú eftir banksterabónusunum frá því á árunum fyrir hrun, ábyrgðin var svo mikil, eða þannig) þurfa aldraðir og öryrkjar að velta hverri krónu sem þeir fá, minnst fimm sinnum og gera upp við sig hvort verður keypt, lyfin eða matur.

Það er ógeðslegt þjóðfélag sem leyfir svona framkomu og hegðun.

Skoðað: 36169

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir