Hversvegna lýsa þessir flokkar ekki yfir stuðningi við baráttu láglaunakvenna?

Skoðað: 1756

Láglaunafólk í Reykjavík er á leið í verkfall ef ekki verður samið á allra næstu dögum. Verkfallsboðun Eflingar var samþykkt með 96% atkvæða sem sýnir hversu sterk samstaðan er meðal félagsmanna. Stéttarfélagið semur sérstaklega við borgina og eru um 1800 starfsmenn sem falla undir samninginn, af stórum meirihluta konur, en félagsmenn Eflingar í öðrum sveitarfélögum eru mun færri.

Samstaðan er mikil og það sést á samfélagsmiðlum þar sem langflestir styðja heilshugar kröfurnar sem eru settar fram af samninganefnd Eflingar sem er skipuð félagsmönnum. Það er nefnilega verkafólk sem er á leið í verkfall, verkafólk sem er að berjast fyrir mannsæmandi kjörum. En ekki eru allir jafn sáttir því stuðningsfólk og virkt flokksfólks þeirra flokka sem mynda meirihutann í Reykjavík er margt sannfært um að baráttan sé í raun kosningabarátta Sósíalistalfokksins til þess að koma höggi á Dag B. Eggertsson og Samfylkinguna. Um sé að ræða ekkert minna en samsæri gegn meirihlutanum. Fyrir utan hvað þessar ásakanir gera lítið úr baráttu láglaunafólks þá sýnir þetta líka hversu viljugir margir á miðjunni eru, í Samfylkingunni og Pírötum, til þess að taka undir hlægilegar samsæriskenningar Björns Bjarnasonar og öfgahægrisins.

Rekja má samsæriskenninguna til gamla kratans Þrastar Ólafssonar sem sagði á Facebook18. janúar: “Er þetta strategía nýja Sósíalistaflokksins? Brjóta upp lífskjarasamninginn með því að einangra baráttuna við einn viðsemjanda”. Þröstur sakaði að auki Eflingu um að nota “ungabörn sem eins konar gísla” til að eyðileggja lífskjarasamningana. Hvorki meira né minna. Stuttu seinna höfðu Staksteinar og Björn Bjarnason gripið boltann á lofti en Björn hefur endurtekið kenninguna margsinnis undanfarna daga og skrifaði hann færslu á bloggið sitt 21. janúar með yfirskriftinni: “Efling í framboð með Sósíalistaflokknum”.

Hversvegna ræðst stuðningsfólk meirihlutans á trúverðugleika kjarbaráttunnar með þessum hætti? Svala Jónsdóttir, fyrrverandi frambjóðandi og virkur stuðningsmaður Samfylkingarinnar segir á Facebook nýlega: “Þetta er pólitískt útspil hjá formanni Eflingar, algerlega óraunhæfar kröfur sem ekki eru ætlaðar til þess að ná samningum”. Þingmaður Pírata, Björn Leví, tekur í sama streng: “Hversu mikið af þessum kjaraviðræðum er borgarpólitík miðað við að Efling nær til fleiri sveitarfélaga en borgarinnar”. Elfa Jónsdóttir Pírati gengur lengra og endurómar áróður Björns Bjarnasonar: “er verið að reka kosningabaráttu Sósíalista í gegnum Eflingu og beita láglaunafólki fyrir vagninn?”.

Í stað þess að taka sér stöðu með fólkinu sem er að berjast fyrir mannsæmandi kjörum heyrist ekkert fulltrúum Samfylkingarinnar og Pírata í borginni annað en ásaknir og samsæriskenningar sem styrkja ekki heldur grafa undan baráttunni. Hversvegna lýsa þessir flokkar ekki yfir stuðningi við baráttu láglaunakvenna?

Skoðað: 1756

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir