Nútíma þrælahald

Skoðað: 3536

Pistill sem birtist á dögunum á Vísir.is og þann 9. mars í Morgunblaðinu verður endurbirtur hér að neðan.

Í september árið 2017 stóð núverandi forsætisráðherra, sem þá var óbreyttur þingmaður Vinstri Grænna, í pontu Alþingis og fór mikin í fjárlagaumræðu fyrir árið 2018 þar sem hún gagnrýndi harðlega þáverndi fjármálaráðherra og forsætisráðherra fyrir að gera ekki meira fyrir aldraða og öryrkja og sagði hún orðrétt: „Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu.“

Í dag, um tveimur og hálfi ári síðar er fátækasta fólkið enn að bíða eftir þessu réttlæti sem Katrín sagði að fólkið gæti ekki beðið eftir en hún settist í stól forsætisráðherra innan við tveimur mánuðum eftir að hún lét þessi orð falla með miklum þunga.
Í stefnuræðu sinni sem forsætisráðherra sagði hún orðrétt að fátækasta fólkið yrði samt enn að bíða um sinn eftir réttlætinu.

En það eru ekki bara öryrkjar og aldraðir sem bíða eftir réttlæti því síðustu þrjá áratugi hefur verið sú stefna í gangi hjá stjórnvöldum, vinnuveitendum og verkalýðsfélögum að halda niðri launahækkunum á almennum vinnumarkaði þannig að nú er svo komið að þeir sem vinna á lægstu launum í landinu hafa ekki efni á húsnæði og nauðsynjum út mánuðinn.

Nýir verkalýðsleiðtogar hafa leynt og ljóst sýnt fram á það með útreikningum og tölulegum gögnum frá því árið 2009 að á meðan þeir sem eru í hæðstu launaflokkunum hafa fengið margfaldar „leiðréttingar“ og kauphækkannir hafa þeir sem eru á lægstu launum nánast staðið í stað launalega séð með þeim afleiðingum að kaupmáttur þeirra hefur rýrnað vegna hækkanna á vörum, þjónustu og húsaleigu.
Það er staðreynd.

Við skulum aftur snúa okkur að lífeyrisþegunum því þeir eru látnir sæta algjörlega ómanneskjulegum skyldum, eru settir í hlekki þrælahalds fátæktar sem þeir eiga enga möguleika á að komast út úr, hversu svo mikið sem þeir vildu það.

Mig langar því að biðja ykkur að staldra aðeins við og setja ykkur í spor einstaklings sem hefur orðið fyrir því að missa heilsuna á besta aldri og þurfa að lifa á örorkubótum í dag á almennum leigumarkaði.

Að þurfa að leigja húsnæði og sjá fyrir öllum ykkar þörfum með um 250 þúsund krónur á mánuði útborgað.

Er það réttlátt og sanngjarnt þegar stjórnvöld setja viðmið um lágmarks framfærslu að greiða síðan bætur sem eru langt undir þeim viðmiðum?

Er það siðferðislega réttalætanlegt af stjórnvöldum að setja lög um lágmarkslaun sem eru langt undir þeim viðmiðum?

Er það með einhverjum hætti siðferðilega réttlætanlegt að skattleggja upp í topp laun sem eru undir fátæktarmörkum eða viðmiðunarmörkum um lágmarks framfærslu?

Er það réttlátt og sanngjarnt að öryrkjar og aldraðir séu látnir sæta skerðingum á greiðslum úr almannatryggingum vegna uppbóta og styrkja?

Er það sanngjarnt að rífa af þeim með skerðingum hverja krónu sem þeir ná að skrapa saman komist þeir tímabundið í enhverja vinnu?

Öryrkjar fá lægri tekjur ef þeir eru í hjónabandi eða deila heimili með einhverjum.

Hvað segðu þingmenn um það að vera lækkaðir í launum væru þeir giftir eða í sambúð?

Ríkið, með skerðingum, stelur lífeyrisgreiðslum sem fólk hefur greitt í lifeyrissjóði áratugum saman.

Hvernig þætti þér sem launþegi ef vinnuveitandi þinn ákvæði að lækka launin þín um 10 til 15% á þeim forsendum að þú ert giftur eða í sambúð?
Jafnvel bara þó þú leigðir húsnæði með öðrum?

Eða þá að skerða launin þín um krónu á móti krónu vegna aukavinnu?
Væri það sanngjarnt?

Kæru lesendur!
Þessar skerðingar.
Þessi þjófnaður.
Þetta óréttlæti sem okkur er boðið upp á af stjórnvöldum á íslandi er hvorki sanngjarnt, eðlilegt né á nokkurn hátt réttlætanlegt.

Þessi forríka elíta sem stjórnar landinu getur aldrei sett sig í okkar spor.

Hvernig það er að fá útborgað um mánaðarmót og geta aldrei leyft sér nokkuð það sem þetta fólk lítur á sem sjálfsagðan hlut því við þurfum að komast af á lágmarkstekjum, hvort sem það eru lægstu laun, eftirlaun eða fátæktarstyrkurinn sem kallast örorkubætur því þau duga ekki fyrir grunnþörfunum.

Lög um almannatryggingar hafa verið margbrotin af stjórnvöldum í fleiri ár og þá sérstaklega 69. gr:
„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.”

Bætur almannatrygginga hafa aldrei frá því eftir hrun fylgt launaþróun og það er vísvitandi brot á lögunum með samþykki stjórnvalda hverju sinni og með samþykkt alþingis.

Mér finnst hreint út sagt að þingmenn stjórnarandstöðunar í Pírötum, Flokki fólksins og Samfylkingunni hafi staðið sig ótrúlega illa, þó mig undri svo sem ekkert á því að Samfó þegi þunnu hljóði, þar sem það var þeirra ákvörðun eftir hrun ásamt VG að koma skerðingunum á og hætta að hækka bætur samkvæmt þessari lagagrein en það hefur gert það að verkum að bætur almannatrygginga hafa dregist aftur úr lágmarkslaunum um sem nemur um 100 þúsund krónum á mánuði í dag.

Hvað er þetta annað en þrælahald á nútíma vísu?

Skoðað: 3536

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir