Innantóm afsökunarbeiðni Karls Garðarssonar þingmanns Framsóknar
Skoðað: 4349
Tæpum 10 mánuðum eftir að Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins braut lög um almannatryggingar með því að neita öryrkjum og öldruðum um lögbundnar hækkannir afturvirkt á bótum almannatrygginga að boði yfirboðara sinna, þeirra Sigmundar Davíðs og Bjarna Benediktssonar fyrir síðustu jól eftir að hafa sjálfur þegið hundruð þúsunda í afturvirkar kjarabætur, stígur hann fram í gær með bloggfærslu á Eyjunni og reynir að afsaka og réttlæta gjörðir sínar. Það eru um 70 dagar til kosninga núna og hvað segir það þegar maðurinn stígur fram með svona lýðskrum?
Karl á sér engar málsvarnir í þessu máli því það voru skrifaðar ótaldar greinar og pistlar í vefmiðla, blogg og fjölmiðla á þessum tíma þar sem lögð voru fram gögn og útreikningar þar sem sýnt var fram á bæði rangfærslur og lygar frá fjármálaráðuneytingu, velferðarráðuneytinu og hvernig bæði þingmenn og ráðherrar stjórnarflokkana leyfðu sér að koma fram í fjölmiðlum og ljúga blákalt framan í almenning í landinu.
Meira að segja úr ræðustól alþingis lugu bæði þinmenn og ráðherrar stjórnarflokkana að þingi og þjóð án þess að skammast sín hið minnsta.
Grípum nokkra punkta úr færslu Karls.
Ég var í hópi þeirra þingmanna sem greiddi atkvæði gegn afturvirkum hækkunum til aldraðra og öryrkja á sínum tíma. Það gerði ég þar sem ég taldi að raunverulegar kjarabætur til framtíðar væri það sem raunverulega skipti máli fyrir þessa hópa. Ekki eingreiðsla upp á nokkra tugi þúsunda sem færi að stórum hluta í ríkiskassann aftur í formi skatta.
Þessi 80 þúsund hefðu geta skipt sköpum fyrir ótrúlega marga og orðið til þess að það hefði orðið matur á borðum margra aldraðra og öryrkja um síðustu jól. Auk þess hefðu börn þeirra sem verst eru settir mögulega fengið einhverjar jólagjafir og eitthvað af reikningum í vanskilum hefði verið hægt að borga og þar með létta af áhyggjum sem annars hefðu sett svip sinn á jólahald þessa fólks.
Því talaði ég fyrir 300.000 kr. lágmarksgreiðslum til þessara hópa á þeim tíma sem þessi mál voru í umræðunni, í þeirri trú að það yrði niðurstaðan áður en langt um liði. Það hefur ekki gerst og því voru það mistök að samþykkja ekki afturvirku greiðsluna – hún hefði verið betri en ekkert.
Nú erum við að renna yfir umræður frá þessum tíma og hér er eitt brot úr ræðu Karls sem hann flutti á Alþingi þann 11. des á síðasta ári. Þarna talar maður sem ver sína ríkisstjórn í bak og fyrir samkvæmt þeirri forskrift sem honum hefur verið uppálagt að fara eftir en ekki út frá eigin sannfæringu.
Virðulegi forseti. Mikið hefur verið rætt um kjör aldraðra og öryrkja undanfarna daga og hefur staðreyndum oftar en ekki verið snúið á hvolf í þeirri umræðu. Ein fyrsta ákvörðun ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna var að skerða kjör aldraðra og öryrkja og það var gert 1. júlí 2009 skömmu eftir að sú ríkisstjórn tók við völdum. Til að gæta sanngirni er rétt að geta þess að greiðslur til þeirra sem voru á strípuðum töxtum voru ekki skertar heldur hinna sem höfðu tekjur. Ákvörðun um skerðingu á greiðslum til aldraðra og öryrkja var tekin með þeim orðum að hér hefði orðið hrun og að allir yrðu að taka þátt í því.
Núverandi ríkisstjórn hefur sett það í forgang að draga úr skerðingum sem aldraðir og öryrkjar sættu í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar sumarið 2013 var að afnema þá reglu að lífeyrissjóðstekjur skertu grunnlífeyri. Jafnframt var frítekjumark vegna atvinnutekna, ellilífeyristekna aldraðra og öryrkja hækkað og svo má lengi telja. Þetta þýðir að bætur til aldraðra og öryrkja eru 7,4 milljörðum kr. hærri á ári en ella væri.
Og hvað er fram undan? Bætur til aldraðra og öryrkja munu hækka um 9,7% um næstu áramót. Það kemur til viðbótar 3% hækkun um síðustu áramót sem kostar um 4,3 milljarða kr. Vel að merkja, þetta er hækkun sem aðrir fengu ekki á þeim tíma. Inni í þessari tæplega 10% hækkun um næstu áramót eru tæpir 4 milljarðar sem eru afturvirk hækkun vegna launaþróunar á árinu.
Við skulum fara yfir þetta í stuttu máli. Aldraðir og öryrkjar fengu 3% hækkun um síðustu áramót, þeir fá 9,7% hækkun um komandi áramót og væntanlega munu þeir fá allt að 8% hækkun eftir ár og er þá miðað við spá um launavísitölu. Greiðslur til þeirra hafa fylgt þeirri vísitölu.
Aldraðir og öryrkjar eru ekki ofaldir af sínum greiðslum, svo mikið er víst. Hagur þeirra hefur hins vegar batnað jafnt og þétt og hann mun halda áfram að batna í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það má gjarnan gera enn betur og ég mun vissulega beita mér fyrir því hér á þingi. Ég hef sagt það áður og ég get endurtekið það nú.
Ég fagna þeim breytingartillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram. Þær eru jákvætt skref í áttina að betra þjóðfélagi þar sem reynt er að gæta jafnvægis við útdeilingu fjármuna. Breytingartillögurnar eru fjölmargar en oft er það svo að tiltölulega litlar upphæðir geta skipt sköpum.
Hæstv. forseti. Að lokum langar mig að fara nokkrum orðum um fjárlagagerð á Íslandi. Hún hefur valdið mér vonbrigðum í heildina litið. Sjálfstæði Alþingis er afar mikilvægt. Löggjafarþingið verður að hafa síðasta orðið þegar kemur að útdeilingu úr sameiginlegum sjóðum okkar. Núverandi meiri hluti fjárlaganefndar hefur gengið lengra en áður hefur þekkst í að stuðla að þessu sjálfstæði. Við sjáum það bæði á breytingartillögum og eins þeirri umræðu sem orðið hefur í fjölmiðlum þar sem ítrekað hefur reynt á sjálfstæði þeirra sem sitja í fjárlaganefnd. Þrýstingurinn er mikill á viðbótarútgjöld eða niðurskurð frá ráðuneytum, stofnunum, ráðherrum, þingmönnum og óteljandi hagsmunaaðilum fyrir utan þinghúsið. Við slíkar aðstæður þarf sterk bein til að standast oft og tíðum ófyrirleitnar árásir og kröfur þar sem öllum ráðum er beitt. Því miður taka fjölmiðlar allt of oft gagnrýnislausan þátt í þeim dansi. Krafa er um sífellt meiri útgjöld en á sama tíma er jafn hávær krafa um að ríkissjóður skili meiri afgangi. Þetta fer ekki alltaf saman.
Í upphafi ræðu minnar minntist ég á mikilvægi þess að horfa til framtíðar, hafa langtímahugsun við fjárlagagerð. Vonandi náum við því markmiði með nýjum lögum um opinber fjármál. Vonandi tekst okkur að komast úr skotgröfum skammtímahugsunar í fjárlagagerð sem getur jafnvel skaðað okkur til lengri tíma.
Og það er meira í ræðum og andsvörum sem verður að birta því þetta er bara hluti þess sem hann lætur frá sér.
Virðulegur forseti. Mér er ljúft að koma hingað upp til að fara yfir afstöðu mína til kjara aldraðra og öryrkja, ekki síst eftir atkvæðagreiðslu um afturvirkar greiðslur til þessara hópa í vikunni. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og ítreka hana hér að ég tel að lágmarksgreiðslur til aldraðra og öryrkja eigi að ná 300 þús. kr. á þeim tæpu þremur árum sem þorra launamanna eru tryggð slík lágmarkslaun. Ég hef oftar en einu sinni skýrt frá þessu viðhorfi mínu á fundum hjá mínum flokki, síðast fyrir örfáum mánuðum.
Í dag fá aldraðir útborgað að lágmarki um 192 þús. kr. á mánuði en lífeyrir þeirra nemur um 225 þús. kr. Um næstu áramót hækkar þessi tala um 9,7% og fer lágmarkslífeyrir þá í um 245 þús. kr. Miðað við spá um launavísitölu bætast síðan 8% við til viðbótar eftir ár og verða lágmarksgreiðslur til aldraðra komnar yfir 260 þús. kr. Ríkisstjórnin á að stíga skrefið til fulls og tryggja þessum hópum 300 þús. kr. lágmarksgreiðslur á sama tíma og aðrir fá þær.
Aldraðir og öryrkjar fengu 3% hækkun um síðustu áramót, ekki frá 1. maí, og fá 9,7% til viðbótar núna um áramótin. Því var ekki hægt að greiða atkvæði með tillögu um afturvirkni greiðslna til þessara hópa. Þeir fá ekki minna en aðrir á þessu ári.
Hópur aldraðra og öryrkja getur ekki lifað af þeim lágmarksgreiðslum sem kerfið tryggir þeim í dag. Hin raunverulega kjarabót þeirra felst hins vegar í 300 þús. kr. lágmarkslífeyri, engu öðru, allra síst eingreiðslu upp á nokkrar krónur í boði stjórnarandstöðunnar. Minn ágæti félagi, Ásmundur Friðriksson, er því algjörlega á röngu róli í þessu máli. Á umræðunni er helst að skilja að ráðamenn séu (Forseti hringir.) vondir menn sem vilji sjúklingum, öldruðum og öryrkjum allt hið versta.(Forseti hringir.) Ég þekki ekki nokkurn mann sem styður ekki þessa málaflokka, hvorki innan þings né utan. Maður gæti haldið miðað við umræðuna á samfélagsmiðlum að hér væru ekkert nema (Forseti hringir.) illmenni. Svo er auðvitað ekki. Málefni sem tengjast öldruðum og öryrkjum eru ein af stóru málum okkar samtíðar.
Þarna vísar Karl í umræðuna á samfélagsmiðlum og réttlætir meira að segja hegðun sína og annara stjórnarþingmanna í þessu máli. Það var ítrekað í pistlum og færslum á samfélagsmiðlum bent á að ríkisstjórnin væri að brjóta lög um almannatryggingar en þeir hlustuðu ekki og því er afsökunarbeiðni Karls með öllu ómarktækt skrum sem enginn ætti að hlusta á. Farið nú á þessa síðu og skrunið niður þar til þið komið að umræðum um fjárlög 2016, Föstudagur 11. Desember og fikrið ykkur svo upp á við og lesið það sem Karl hefur sagt á alþingi í þessu máli því þar kemur hans afstaða alveg kristalskýrt fram.
Sú staðreynd að þessi færsla Karls er ekkert annað en yfirklór fyrir eigin getuleysi og aumingjaskap þar sem hann hlustaði ekki á vinnuveitendur sína, kjósendur og fólkið í landinu en kaus að fylgja frekar eigendum sínum og yfirboðurum í Framsóknarflokkinum, gerir þessa afsökunarbeiðni hans að hreinu og kláru lýðskrumi sem hefur enga merkingu nema þá að reyna að svíkja sig aftur inn á þing til að endurtaka þann ljóta leik sem hann sýndi af sér fyrir jólin í fyrra.
Skoðað: 4349