FRÉTTATILKYNNING FRÁ HAGSMUNASAMTÖKUM HEIMILANNA!
Skoðað: 2799
FRÉTTATILKYNNING – 11. mars 2020
Áskorun til ríkisstjórnar Íslands
Viðspyrnu er þörf – fyrir hagkerfið og heimilin
Í gær kynnti Ríkisstjórn Íslands “Viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf” vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna Covid-19 veirunnar.
Það dylst engum að ef fram heldur sem horfir mun efnahagslíf þjóðarinnar og jafnvel heimsins alls verða fyrir miklu áfalli, þannig að viðspyrnu er þörf og nauðsynlegt að undirbúa hana eins vel og hægt er.
Hins vegar þarf að hafa í huga að undirstaða hagkerfisins eru heimilin, því án þeirra væri engin þörf á neinni þjónustu, engin til að hvorki kaupa né selja og engin til að lána. Í stuttu máli væri ekkert hagkerfi til án heimila landsins.
Það skýtur því óneitanlega skökku við að í viðspyrnu ríkisstjórnarinnar er ekki minnst einu orði á heimilin, frekar en þau væru ekki til.
Þetta er því miður sama hugarfarið og einkenndi aðgerðir stjórnvalda í kjölfar hrunsins, þar sem ekkert var gefið eftir gagnvart heimilunum sem voru látin taka á sig höggið af fullum þunga og með skelfilegum afleiðingum.
Það má alls ekki endurtaka sig.
Þá, eins og nú, hafði Ríkisstjórn Íslands samráð við Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) um “lausnir” og nú eins og þá, hunsar hún algjörlega fulltrúa heimilanna.
Hagsmunasamtök heimilanna þurfa ekki síður að koma að borðinu en SFF og jafnvel enn frekar.
Heimilin eru hagkerfið
Til samanburðar er áhugavert að nefna aðra ríkisstjórn sem líka tilkynnti um sína “viðspyrnu” vegna Covid-19 og hjá henni eru áherslur aðrar og betri. Ríkisstjórn Ítalíu virðist átta sig á mikilvægi heimilanna og snýr aðgerðum sínum fyrst og fremst að þeim. Þannig hafa stjórnvöld á Ítalíu gefið heimilum og einstaklingum “frestheimild” á afborgunum húsnæðislána í kjölfar Covid-19.
Ekki nóg með það, heldur hafa Samtök fjármálafyrirtækja á Ítalíu sagt að lítil fyrirtæki og heimili muni fá frestheimildir vegna efnahagslegra afleiðinga Covid-19.
Ísland er sem betur fer ekki jafn illa statt og Ítalía vegna veirunnar og vonandi þarf ekki að grípa til jafn róttækra aðgerða hér á landi og Ítalir hafa neyðst til að gera en reynslan eftir hrun ætti þó að hafa kennt stjórnvöldum að heimilin þurfa að vera með í ráðum og að gæta þurfi hagsmuna þeirra ekki síður en fjármálafyrirtækjanna.
Við, sem þjóð, verðum að setja heimilin á íslandi í forgang því þau eru grunnurinn að hagkerfinu.
Viðspyrna fyrir heimilin
Hagsmunasamtök heimilanna vilja því beina því til Ríkisstjórnar Íslands að endurtaka ekki mistök fyrri ríkisstjórna og muna að aðgerðir hennar eigi fyrst og fremst að snúast um að verja heimilin í landinu. Þá er vert að minna á að Stjórnarskráin er samin fyrir einstaklinga og heimili þeirra en ekki til að verja stjórnkerfið eða fjármálafyrirtækin.
Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á að strax verði sett þak á verðtryggingu lána heimilanna að hámarki 3,5%. Hefði það verið gert í kjölfar bankahrunsins 2008 hefði margt farið á annan veg og þúsundir fjölskyldna ekki misst heimili sín.
Hagsmunasamtök heimilanna benda á að það sem veldur heimilunum meiri skaða en nokkuð annað er hækkun verðbólgu vegna þess sér-íslenska og stórhættulega fyrirkomulags sem heitir verðtrygging á lánum heimilanna.
Fari verðbólgan af stað hefur engin stjórn á því sem gerist nema gripið sé í taumana strax með fyrirbyggjandi aðgerðum. Aðstæður eins og þær sem núna hafa skapast staðfesta það sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa krafist frá seinasta hruni að afnema beri með öllu verðtryggingu lána heimilanna án tafar, því hún veldur bæði þeim og hagkerfinu öllu stórfelldum skaða.
Vonandi kemur ekki til þess, en fari allt á versta veg þá verður Ríkisstjórn Íslands einnig að grípa til “frestheimilda” á greiðslum húsnæðislána á sama eða svipaðan hátt og Ríkisstjórn Ítalíu er að gera.
Hagsmunasamtök heimilanna bjóða Ríkisstjórn Íslands aðstoð sína og óska hér með formlega eftir aðkomu að þeim leiðum og lausnum fyrir heimilin í landinu sem sannarlega þarf að fara í á þessum sérstöku tímum sem nú ganga yfir, því sameinuð getur íslensk þjóð sigrast á öllum vanda.
Hagsmunasamtök heimilanna
Skoðað: 2799