Bjarni Ben. Hrokafullur lygari sem talar niður til fólks sem er honum ósammála
Skoðað: 10643
Það var ótrúlegt að fylgjast með Bjarna Ben, fjármálaráðherra, svara óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær, 14 nóvember um lækkun krónunar.
Svör Bjarna einkenndust af hroka, mannfyrirlitningu, útúrsnúningum, orðhengilshætti og ósannindum, sem er svo sem ekkert óvanalegt þegar hann á í hlut en það er óþolandi að hann skuli hvað eftir annað komast upp með þessa hegðun og framkomu í ræðustól alþingis.
Hér að neðan birtum við brot af fyrirspurnum þingmanna til Bjarna og svör hans en jafnframt vísum við í fullan texta og setjum myndbönd með fyrir þá sem nenna ekki eða eiga erfitt með að lesa ritað mál.
Byrjum á fyrstu fyrirspurn frá Ágústi Ólafi Ágústssyni Samfylkingarmanni.
Herra forseti. Þriðjudagurinn 13. var vondur dagur. Ekki nóg með að ríkisstjórnarflokkarnir hafi fundið hin breiðu bök öryrkja og aldraðra heldur hrundi blessaða krónan okkar aftur.
Því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sérstaklega í ljósi þess: Hvernig ætlar hann að hækka einungis laun og bætur til öryrkja og aldraðra um rúm 3 prósentustig, eins og fjárlagafrumvarp hans gerir ráð fyrir, á sama tíma og væntanleg verðbólga vegna gengisfellingarinnar hefur nú þegar étið þau 3 prósentustig hans upp með bestu lyst?
Bjarni svarar og byrjar með hroka og yfirlæti þar sem hann talar bæði niður til þingmannsins og heldur því blákalt fram, þvert á allar staðreyndir, að kaupmáttur öryrkja og aldraðra hafi hækkað langt umfram aðra þjóðfélagshópa.
Virðulegi forseti. Hér var farið algjörlega samhengislaust út og suður og margar fullyrðingar flugu sem standast ekki skoðun.
Í fyrsta lagi: Í fjárlagafrumvarpinu stóð til að hækka launa- og verðbótaþáttinn upp um 3,4%. Eftir meðferð málsins í fjárlaganefnd hækkar sú tala upp í 3,6%, m.a. vegna þess að verðbólguspáin versnar. Við erum að hækka bætur öryrkja meira, hækka um 3,6% en ekki um 3,4. Þetta er einhver reginmisskilningur hjá hv. þingmanni.
Þingmaðurinn virðist ofan á allt þetta vera fastur í einhverri forneskju um gengismál, að hér hafi gengið verið fellt. Gengið hefur ekki verið fellt, það er frjálst gengi, gengisskráningin er frjáls, ræðst af eftirspurn og framboði. Það er rétt að Ísland var orðið dýrast Evrópuríkja. Hér var verðlag orðið hærra en í Sviss, Noregi og Bandaríkjunum. Það var ekki við öðru að búast en að eitthvað gæfi eftir. Við það vex samkeppnishæfni útflutningsgreinanna sem verða þá í sterkari stöðu til þess að skapa fleiri verðmætaskapandi störf og (Forseti hringir.) halda atvinnustiginu háu — miklu, miklu hærra en í draumalandi þingmannsins, evrulandinu.
Það stendur ekki steinn yfir steini í þessu svari Bjarna því kaupmáttur lægstu tekna og bóta almannatrygginga hefur verið meiri í þeim löndum sem hann nefnir og hvað eru margar krónur sem standa svo á bak við 0,2 prósentin sem hann nefnir ef við tökum heldar bótaupphæð upp á 240 þúsund? Rétt um 500 krónur.
Svona málflutningur er með öllu óboðlegur dónsakapur, hrokafull og röng svör ráðherra eiga ekki að líðast í ræðustól alþingis. Ekki furða þó virðing og traust almennings fyrir þessari stofnun sé á hraðri niðurleið með hverjum deginum.
Ágúst Ólafur kemur í pontu í annað sinn.
Herra forseti. Tölum aðeins um öryrkja. Það er fullkomlega óskiljanlegt að ríkisstjórnarflokkarnir skuli taka pólitíska ákvörðun um að öryrkjar af öllum hópum skuli nú taka á sig niðurskurð frá því sem hafði verið boðað. Í fjárlagafrumvarpi þessa ráðherra, sem er einungis tveggja mánaða gamalt, var beinlínis gert ráð fyrir 4 milljarða kr. raunaukningu til öryrkja á næsta ári sem var ekki mikið fyrir og hefði einungis dugað fyrir einum þriðja af því sem kostar að afnema krónu á móti krónu.
Með einu pennastriki í gær verða þessir 4 milljarðar að 2,9 milljörðum. Þetta stendur svart á hvítu í plöggum ráðherrans. Annað er fullkominn útúrsnúningur og blekkingaleikur ráðherrans í anda Yes, Prime Minister þáttanna.
Herra forseti. Það er fáheyrt að leggja til svona lækkun til öryrkja á milli umræðna um fjárlög og taki einhvern tíma að ljúka við kerfisbreytingar er lítið mál að láta þær gilda afturvirkt (Forseti hringir.) og er það oft gert, síðast þegar laun þingmanna voru hækkuð.
Þarna bendir Ágúst á þá staðreynd að Bjarni er í raun að ljúga þegar hann talar um aukningu upp á 2,9 milljarða þegar raunin er sú að það er verið að skera niður framlög frá fyrstu umræðu fjárlagana um 1,1 milljarð.
Bjarni svarar enn á ný og heldur áfram uppteknum hætti með hroka, dónaskap og ósannindum.
Virðulegi forseti. Það er ágætt að þingmaðurinn er að átta sig. Hann er að bakka niður í það að minni hækkun verði en áður var áætlað. Það leiðir jú af því að við höfum eyrnamerkt ákveðna fjárhæð, ekki bara á árinu 2019 heldur á öllum gildistíma fjármálaáætlunarinnar, til þess að styrkja bótakerfi öryrkja.
Það er verkefni sem staðið hefur yfir allt frá því að Pétur Blöndal leiddi þá vinnu fram á árið 2016. Hún stóð yfir á síðasta ári og hún stendur enn yfir. Við erum komin mjög langt með að ljúka þeim réttindabótum með kerfisbreytingum sem munu fylgja.
Fjármögnun þessara breytinga er að fullu tryggð á næsta ári frá og með þeim tíma sem líklegt er að breytingin geti tekið gildi. Við þetta hækka bótagreiðslur út úr almannatryggingum til þeirra sem búa við örorku eða fötlun um 5 milljarða. Það eru 5 milljarðar sem fara til að styrkja lífsgæði og réttindastöðu þessa fólks.
Þarna fer Bjarni að tala um kerfisbreytingarnar sem allir óttast svo mjög en það er starfsgetumatið sem nota á sem skiptimynt fyrir afnám krónu á móti krónuskerðingana. Kerfi sem dró yfir 10 þúsund manns til dauða vegna sjálfsvíga í Bretlandi á fyrstu tveimur árunum sem það var innleitt og í Danmörku hefur það leitt til þess að aðeins lítið brot af þeim sem hafa farið í það mat hafa fengið atvinnu. Restin er úti á guði og gaddinum og fær engar bætur.
Dregur þá til tíðinda því næst í pontu er Anna Kolbrún Árnadóttir miðflokki.
Hæstv. forseti. Fátækt fólk á ekki að bíða eftir réttlæti, voru orð sem núverandi hæstv. forsætisráðherra sagði hér í salnum fyrir um ári síðan. Ég er þessum orðum sammála og þess vegna er það með öllu óskiljanlegt að fresta eigi kjarabótum öryrkja vegna þess að nefnd á vegum félagsmálaráðherra hefur ekki staðið sig í stykkinu, ef ég skil orð efnahags- og fjármálaráðherra rétt og höfð voru eftir honum í fjölmiðlum. Ég vil leyfa mér að hugsa upphátt hvort ekki sé byrjað á fullkomlega röngum enda. Ég vil líka velta því upp hvort það sé virkilega þannig að öryrkjar geti ekki fengið eina einustu kjarabót fyrr en kerfisbreytingar hafa gengið í gegn. Ómöguleg verkstjórn félagsmálaráðherra á ekki að bitna á öryrkjum. Við erum að ræða um heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu. Er sanngjarnt að leggja það undir? Er sanngjarnt að sá hópur fólks sem hefur það hvað verst í landinu verði látinn bíða enn og aftur?
Ég vil því spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvernig hann fái það út að ekki standi til að draga úr fjárframlögum til örorkulífeyrisþega um rúman milljarð í tillögum meiri hlutans þegar um er að ræða fjárlög þessa árs.
Bjarni er enn til svara.
Virðulegi forseti. Það er tvennt sem mig langar til að staldra við í þessum málflutningi. Það er í fyrsta lagi það að því er haldið fram af hv. þingmanni að sá hópur sem hér er undir, einn viðkvæmasti hópur samfélagsins, hafi algerlega setið eftir, ekki fengið að njóta þess langa hagvaxtarskeiðs sem við nú lifum. Þá vil ég benda hv. þingmanni á það að opinberar tölur sýna allt aðra mynd.
Ef við förum aftur til ársins 2010 sjáum við að heildarframlögin í almannatryggingum vegna þessa málaflokks voru á verðlagi dagsins í dag 40 milljarðar. Á næsta ári verða framlögin 70 milljarðar, fyrir hv. þingmann, 30 milljarða aukning á ársgrundvelli.
Hvað þýðir þetta í auknum bótarétti fyrir hvern og einn bótaþega? Þetta þýðir að bæturnar hafa hækkað fyrir hvern og einn bótaþega um 1,1 milljón á ári. Hvers vegna stendur þá þessi hv. þingmaður hér og heldur því fullum fetum fram að þessi hópur hafi algerlega setið eftir? Tölurnar sýna allt annað.
Ég held að við ættum að fara að beina umræðunni aðeins meira inn á þær brautir í stað þess að vera hér með fullyrðingar sem standast einfaldlega ekki skoðun.
Hér að ofan hefur textinn verið feitletraður og rauðlitur til að leggja áherslu á þessa málsgrein enda hefur hún valdið miklum heilabrotum meðal lífeyrisþega og ÖBÍ hefur skrifa frétt á vef ÖBÍ þar sem þessar fullyrðingar Bjarna eru sagðar rangar, villandi og algjörlega á skjön við þann veruleika sem öryrkjar lifa við.
1: Fjármálaráðherra fullyrðir að bætur til lífeyrisþegar hafi hækkað um 1,1 milljón króna á ári frá árinu 2010. Það væri hækkun sem næmi hátt í 92 þúsundum á mánuði, á hvern mann í hverjum mánuði undanfarin átta ár. Erfitt er að koma þessum upplýsingum heim og saman við þann veruleika sem öryrkjar búa við.
2: „Hvað þýðir þetta í auknum bótarétti fyrir hvern og einn bótaþega? Þetta þýðir að bæturnar hafa hækkað fyrir hvern og einn bótaþega um 1,1 milljón á ári. Hvers vegna stendur þá þessi hv. þingmaður hér og heldur því fullum fetum fram að þessi hópur hafi algerlega setið eftir? Tölurnar sýna allt annað.“
2(a): Nú getum við öll tekið undir hversu gleðilegt það væri ef ráðherrann færi rétt með staðreyndir. Þá væri hver og einn örorkulífeyrisþegi með lauslega áætlað um 700 þúsund krónur á mánuði til grunnframfærslu. Það segir sig sjálft að margir yrðu ánægðir með að búa í þessari veröld fjármálaráðherrans.
Staðreyndin er hins vegar sú að flestir öryrkjar eru með örorkulífeyrisgreiðslur langt undir 300 þúsund krónum á mánuði, fyrir skatt. Einungis 29 prósent örorkulífeyrisþega fá 300 þúsund króna grunnframfærslu á mánuði sem náðist fram með gríðarlegum þrýstingi á stjórnvöld við gerð fjárlaga þessa árs. Sjö af hverjum tíu sitja enn úti í kuldanum.
Þá er bent á það í umsögn ÖBÍ við frumvarp til fjárlaga næsta árs, að kaupmáttur öryrkja hafi nær ekkert aukist á því tímabili sem ráðherrann talar um. Raunar hefur hann verið neikvæður megnið af tímabilinu, þar sem umrædd kaupmáttaraukning síðustu ára hefur ekki náð til örorkulífeyrisþega. Staðreyndin er sú að á árunum 2010 til 2017 hækkaði óskertur lífeyrir einungis um 74.383 kr. samanlagt á mánuði á meðan þingfararkaup hækkaði um 581.190 kr.
Það er einmitt á þessum tímapunkti sem öllu hugsandi fólki ætti að vera ljóst hvernig einstaklingur Bjarni Benediktsson er. Siðblindur og vílar ekki fyrir sér að ljúga blákalt aftur og aftur í ræðustól alþingis til að blekkja almenning og sannfæra hann um að öryrkjar hafi það í raun miklu betra en raunin er.
Það sem er einnig svo vont við svona lygar að þingmenn skuli ekki stíga fram betur undirbúnir í svona fyrirspurnartíma og reka lygarnar ofan í Bjarna.
Þessi pistill verður ekki lengri enda þegar orðin of langur en það sem komið er hér að ofan er bara hluti umræðunar sem fór fram í gær og mikið eftir af henni sem á fullt erindi við almenning og þá sérstaklega lífeyrisþega.
Bjarni heldur áfram með sömu taktíkina út alla umræðuna í formi hroka, dónaskapar, ósanninda og að tala niður til annara þingmanna og þeirra þjóðfélagshópa sem eru undir í þessari umræðu.
Það má öllum vera ljóst að fjármálaráðherran Bjarni Benediktsson er illa gerður maður, illa innrættur, siðblindur, hrokafullur og algjör dóni gagnvart viðmælendum sínum sem og þeirra sem eru honum ósammála og það er ekkert í hans störfum sem gefur tilefni til að treysta honum á nokkurn hátt, það hefur afhjúpunin á Stundinni gert að verkum enda afskriftir þeirra fyrirtækja sem hann hefur komið að rekstri á með slíkum ólíkindum að annað eins þekkist ekki. Afskiftir upp á 130 þúsund milljónir sem almenningur var látin borga fyrir Bjarna og fjölskyldu hans.
Sú staðreynd að þessi maður skuli vera fjármálaráðherra á islandi er sönnun þess að landið er á kafi í bullandi spillingu.
Ágúst Ólafur og Bjarni Ben
Anna Kolbrún og Bjarni
Halldóra Mogensen og Bjarni.
Guðmundir Ingi og Bjarni Ben.
Þorsteinn Viglundsson og Bjarni Ben.
Við látum þessu lokið en hvetjum fólk til að horfa á öll myndböndin til að fá betri mynd af því hvernig fjármálaráðherra hagar sér.
Hroki, dónaskapur, yfirlæti og lygar er það sem hans helsta einkenni.
Skoðað: 10643