Skilaboðin frá kjararáði eru komin

Skoðað: 6033

Ásta Dís segir frá staðreyndum eins og þær blasa við henni.
Ásta Dís segir frá staðreyndum eins og þær blasa við henni.

Ásta Dís Guðjóns, öryrki sendi okkur þessar hugleiðingar sínar til birtingar í þeirri von að einhverjir af ráðamönnum þjóðarinar færu að hugsa sinn gang hvort þeir væru í raun að gera fólki rangt til með aðgerðum sínum og ákvörðunum þegar kjör þeirra sem verst eru settir í þjóðféalginu er ákveðin.

Ég veit satt best að segja ekki hvað ég á að halda.
Mér líður hmmmm hvernig… jú í besta falli asnalega, í versta falli eins og ég sé föst í martröð.
Mér finnst eins og ég hljóti að hafa dottið ofan í Undralandið hennar Lísu.
Ég er fötluð kona, er þá bara sanngjarnt að ég sé að eilífu dæmd til fátæktar og eymdarlífs?
Er það öll samtryggingin sem samfélag okkar skilar samborgurum sínum?

Ef að einhver af þessum þingmönnum og ráðherrum vissi brotabrot af því sem ég veit, þekkti bara fáeina af þeim sem ég þekki eða sæju hvað þetta fólk er langt frá því að vera “brotaþegar” eða “svikahrappar” heldur er upp til hópa gott en bjargarlaust fólk. Fólk sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér vegna fötlunar, heilsu eða annarra aðstæðna og tórir við einhverskonar “snjóboltaveltandi sikksakk reikningaleik” við sult og seyru. Ég get ekki kallað það annað en reikningaleik þegar fólk reynir að halda snjóboltanum rúllandi með því að borga rétt nóg til að missa ekki allt en ná aldrei í skottið á skuldinni, þegar fólk eygir enga von lengur, reynir bara að skrimta í einhverju tómarúmi sem varla er hægt að kalla einhverskonar líf. Að minnsta kosti ekki líf sem vert er að lifa.

3% fengu öryrkjar um síðust áramót og ekkert síðan þó svo lögbundið sé að bætur skuli fylgja launaþróun.
3% fengu öryrkjar um síðust áramót og ekkert síðan þó svo lögbundið sé að bætur skuli fylgja launaþróun.

Ef þeir sæu einhvern hluta af því vonleysi sem ég sé í þessu fólki þá hefði það ekki kosið gegn afturvirkum kjarabótum fyrir ellilífeyris og örorkubótaþega. Alla vega ekki nema bara þeir siðblindu.
Fatlað fólk gat hér áður fyrr veitt sér ýmislegt þó ekki væru bæturnar háar en síðustu 15 árin hefur það versnað með hverju árinu og er nú svo komið að við vitum að fólk deyr vegna þessa.
Nú tók ég stórt upp í mig en ég meina hvert orð, hið opinbera hefur ekki hugmynd um hversu margir hafa látist af eigin hvötum t.d. með misnotkun á lyfjum eða hversu margir hafa látist vegna þess að þeir gátu ekki keypt sér þau lyf sem þurfti til að halda þeim á lífi. Þetta á bæði við um veika einstaklinga, fatlaða og eldri borgara!

Við fengum það staðfest núna sem við töldum okkur vita fyrir, að flestum þingmönnum er sama um þennan þjóðfélagshóp. Hann er of dreifður til að skipta máli, hann er of ósamlyndur til að ná samstöðu, hann er of veikur til að ná til annarra þegna þjóðfélagsins, hann er of illa stæður til að geta framkvæmt eitthvað á eigin spýtur, hann á of erfitt með úthald, til mætinga og hann lætur blekkjast til að kjósa skaðvaldana upp á nýtt með sínum nýju lygum í næstu kosningum…

Raunveruleikafirring sjálfstæðis og framsóknarflokks virðist alger, ekki bara hjá forystusauðunum. Það er skipað fyrir um smá hókus pókus töfrabrögð með tölur og allt í einu trúa flokksmenn og þeir sem eitthvað hafa á milli handanna í þessu skrýtna þjóðfélagi okkar að þetta sé komið gott – það megi bara alls ekki láta svona ruslaralýð eins og okkur hafa í okkur og á, því þá ekki bara fjölgi okkur, heldur minnkum við ágóðann þeirra, gróðatækifærin þeirra og stöðuga aukningu lífsgæða þeirra…

Reikniskúnstir fjármálaráðherra. MYND: Gunnar Karlsson.
Reikniskúnstir fjármálaráðherra.
MYND: Gunnar Karlsson.

Mér þætti gaman að sjá hvað gerðist ef starfsfólk í fyrirtækjum fengi ekki launahækkanir af því að talið er að ‘óljós einhver’ sé að stela frá fyrirtækinu. Þetta megum við þola.
Þegar við biðjum um hækkun er okkur sagt að það fari meiri peningar í bótaflokkinn en áður!
En það er ekki af því að við fáum hærri bætur heldur aðallega af því að lítilsháttar prósentuhækkun varð og eðlileg fjölgun innan hópsins átti sér stað.
Frekari fyrirspurnir verða til þess að okkur er bent á að bótasvik séu of mikil og komi í veg fyrir að hægt sé að koma til móts við þá sem mest þurfa. Þessi bótasvik eru ekki skilgreind nánar en með umræðunni er gefið í skyn að fólk “svindli” sér unnvörpum á örorkubætur! Það veit hver einasti kjaftur sem hefur þurft að ganga í gegnum örorkumat síðustu árin að það er þvílíkur hreinsunareldur að halda mætti að um hlið Himnaríkis væri að ræða. Hafi einhvern tíman verið hægt að “svindla sér á bætur” og séu einhverjir slíkir í bótakerfinu enn þann dag í dag (sem er ekki útilokað) – er þá ekki einhverju öðru um að kenna en þeim öryrkjum og ellilífeyrisþegum sem í kerfinu eru og sannanlega eru óvinnufærir sjálfir auk þess að uppfylla öll skilyrði fyrir sinni örorku?
Af hverju er okkur hegnt fyrir þá bresti sem hugsanlega eru/voru í kerfinu?
Ég hef heldur aldrei séð neina skilgreiningu á þessum meintu bótasvikum, eru þau jafn mikil meðal fatlaðra, öryrkja og eldri borgara eða getur verið að stærsti bótasvikahópurinn sé ekki úr okkar röðum heldur úr röðum atvinnulausra og foreldra sem skrá sig einstæðir og þiggja bætur sem slíkir?

Við getum ekki lagt niður vinnu, farið í verkfall, talað við stéttarfélag, farið í kjarabaráttu, kosið um launasamninga eða nýtt okkur það sem við sjáum aðra hópa þjóðfélagsins gera.
Fæst okkar eiga möguleika á vinnu hvort sem er því vinnumarkaðurinn gefur ekki tækifæri til að byggja upp hlutastörf með sveigjanleika, sjóði til að sækja í til að styrkja vinnustaði ef breyta þarf aðgengi til að koma til móts við fatlaða einstaklinga o.s.fr.
En á meðan almenningur trúir tröllasögum Bjarna, Sigmundar og fylginauta þeirra í nýju fötunum keisarans um þvílíkar kjarabætur bótaþegar eigi að hafa fengið, þá heldur fólk að við séum bara að væla til að væla á meðan staðreyndin er sú að fjöldi fatlaðs fólks þarf að velja á milli matar og lyfja um hver mánaðarmót og margir aldraðir lifa einangruðu lífi á einhæfu fæði til að reyna að ná endum saman – finnst einhverjum öðrum en Bjarna Ben þetta í alvörunni boðlegt?

Stöðugur ójöfnuður í gangi og eykst bara með hverjum deginum sem núverandi ríkisstjórn situr að völdum.
Stöðugur ójöfnuður í gangi og eykst bara með hverjum deginum sem núverandi ríkisstjórn situr að völdum.

Rök Bjarna Ben halda hreinlega ekki.
Það munu engir hópar fólks flykkjast “á bótajötuna” þó bætur yrðu mannsæmandi, jatan sú er bæði illa þefjandi og erfið. Það þarf ekki annað en að hlusta á manneskju lýsa þessum hryllilega erfiðu sporum, hvernig það er að kyngja stoltinu, éta ofaní sig skömmina og ganga með betlistafinn fyrstu skrefin.
Bjarni hefur fullyrt að ef bætur séu viðunandi sé enginn hvati fyrir fólk að koma sér áfram í lífinu og af bótunum. Í alvöru? Eiga lágar bætur að ýta við fjölfötluðum manni til að reyna að bæta stöðu sína í lífinu og koma sér út á vinnumarkaðinn? Maður í hjólastól með hnýttar hendur og getur ekki haldið á penna eða skrifað á lyklaborð, hann á bara að finna fyrir hvöt til að rífa sig upp og koma sér af bótunum. Ef Jesúkomplexarnir þínir Bjarni Ben verða einhverntíman til þess að þú náir að lækna lamaða máttu vera í sambandi – þangað til máttu alveg við því að fá vænan skammt af heilbrigðri skynsemi ásamt öflugri tengingu við líf bótaþegans (og almúgans) í þessu landi.
Ég get lofað ykkur því að þeir fáu sem ekki kæmu sér í betri aðstæður en að vera á bótum ef þeir ættu þess einhverja möguleika eru ekki þess virði að svívirða okkur hin á þennan hátt!
Vissulega væri frábært ef fleiri öryrkjar gætu unnið hlutastörf. Ef einstaklingur sem á góða daga gæti unnið þá daga en sleppt vinnu dagana sem getan er lítil eða engin. Það er hluti af eðlilegri mannlegri reisn í þjóðfélagi eins og okkar að hafa starf, að hafa titil, að finnast maður leggja eitthvað af mörkum. Við viljum taka virkan þátt en það getum við ekki í dag.

Það er þjóðhagslega hagkvæmt að tryggja viðunandi framfærslu og koma í veg fyrir fátækt.
Það er ekki flókið að skilja að kjarabót til þessa hóps skilar sér fljótt til baka í eðlilegri neyslu (ekki þó ísskáps eða raftækjakaupum þrátt fyrir vsk breytingar)

Alþingi er mitt kjararáð og skilaboðin frá kjararáði bótaþega á Íslandi virðast vera þau að aumleg tilvist okkar þjóni þeim eina tilgangi að viðhalda ríkidæmi þeirra fáu útvöldu sem völdin hafa.

Staðreyndirnar ljúga ekki.
Staðreyndirnar ljúga ekki.

Hugsaðu til ömmu og afa, hvernig höfðu þau það? Aldraðir hafa fá ráð ef ekki eru til staðar vænir sjóðir, lífeyrissjóðir og/eða söluvænar eignir. Hvað með þig, hvernig verður þitt ævikvöld?
Ef þú ert heilsuhraustur velstæður/vinnandi einstaklingur með huggulega fasteign þá kemur þér svonalagað ekkert við er það nokkuð? Fyrr en þú hefur lent í slysinu sem verður til þess að þú verður óvænt einn af okkur, fasteignin ekki aðgengileg lengur og bætur of lágar til að halda henni hvort eð er – allt í einu ertu kominn í þá stöðu að hafa hvorki efni á að lifa né deyja. Það er ekkert langsótt, þetta getur komið fyrir þig eða einhvern nákominn þér hvenær sem er – hjálpumst að og berjumst fyrir breytingum ekki seinna en núna.

Buddur bótaþega á Íslandi eru jafn fullar af engu í dagslok í dag eins og þær voru í síðasta mánuði, á síðasta ári, á síðasta áratug – þrátt fyrir alla heimsins talnablöffleiki þá fara aurarnir æ hraðar og sífellt minna fæst fyrir þá – það er sú blákalda staðreynd sem ég bý við.
Ég segi; Mér er sama hvað þið kusuð, tími breytinga er kominn, hann er hér, hann er núna.

Höfundur skrifar sem sjálfstæður einstaklingur en er formaður Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu og stjórnarmaður í EAPN á Íslandi.
EAPN (European Anti Poverty Network eru Evrópsk samtök gegn fátækt)

Skoðað: 6033

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir