Ekki í sama báti – samstaða með þeim sem lægstar hafa tekjurnar.
Skoðað: 2645
Öryrkjar – Aldraðir – Námsmenn – Atvinnulausir – Láglaunafólk og aðstandendur þessara hópa ásamt öllum þeim sem vilja, er hér með boðið á Austurvöll framan við Alþingishúsið fimmtudaginn 1. oktober af Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt.
Boðað er til samstöðu á Austurvelli við þingsetningu Alþingis fimmtudaginn 1. október, samstöðu sem er þá nokkurskonar þögul mótmæli á vegum fólks í fátækt til að minna á að enn bíðum við eftir kjarabót Katrínar forsætisráðherra okkur til handa.
Alþingi verður sett fimmtudaginn 1. október og hefst þingsetningarathöfnin kl. 13:30 með guðsþjónustu í Dómkirkjunni.
Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana verða að kvöldi þingsetningardags, kl. 19:30.
Hversu lengi á fólk í fátækt, fatlaðir og langveikir að búa við óviðunandi kjör og þurfa að leita til hjálparstofnana sér til aðstoðar, sem þó dugir skammt?
Hversu langt aftur úr öðrum þarf þessi hópur að dragast áður en gripið er í (stjórnar)taumana?
Örorkugreiðslur duga ekki fyrir nauðsynjum og hafa ekki gert lengi. Hvað þá framfærslustyrkur sveitarfélaganna sem er enn lægri.
Fólk úr þessum hópi situr uppi með skömmina yfir fátækt og erfiðum aðstæðum sínum, aðstæðum sem að það bjó ekki sjálft til og kemst ekki sjálft úr. Það er þó engin skömm að því að lifa í fátækt. Skömmin er öll stjórnvalda – því skilum við skömminni þangað sem hún á heima. Til þeirra sem valdið hafa og taka sínar pólitísku ákvarðanir án þess að gæta að hvern þær skaða.
Því segjum við – Komum úr felum – mættu með okkur á Austurvöll á fimmtudaginn – sýnum Alþingi og ríkisstjórninni að við erum hérna – að við erum afl sem er ekki hægt að horfa framhjá lengur!!!
Við virðum að sjálfsögðu sóttvarnarmörk.
Höldum 1m millibili milli fólks eftir því sem hægt er.
Grímur og hanskar verða á staðnum en hvetjum fólk jafnframt til að mæta með sinn eigin sóttvarnarbúnað.
Skoðað: 2645