Þeir sitja sem fastast og fara ekki fet
Skoðað: 2679
Það verður að segjast eins og satt er að ekki jókst virðingin fyrir Alþingi eða þingmönnum eftir að leynilegar upptökur einstaklings sem kallar sig Marvin Andwer fóru að birtast í fjölmiðlum hvar sátu að sumbli á bar, í miðjum vinnutíma, sex alþingismenn, fjórir frá Miðflokknum og tveir frá Flokki Fólksins og fóru niðrandi orðum um samstarfsfólk sitt á Alþingi, sveitarstjórnarfólk, fatlaða og aðra sem þeim var á einhvern hátt í nöp við.
Við borð skammt frá þeim sat einstaklingur sem var svo gjörsamlega ofboðið talsmátin á sexmenningunum að hann ákvað að taka orðræðuna upp á farsíma sinn og koma þeim síðar til fjölmiðla enda taldi hann að þetta væri mál sem varðaði almenning í landinu, að sýna fólki hvernig kjörnir fulltrúar töluðu þegar þeir töldu sig vera í einrúmi og kæmust því upp með að segja hvað svo sem þeim sýndist.
Upptökurnar birtust og umræðurnar fóru strax á flug og margir, þar með taldir þeir þingmenn sem sátu að sumbli í vinnutíma sínum, vildu strax skjóta sendiboðan í stað þess að horfast í augu við sjálfa sig og reyndu þeir til að byrja með að þræta fyrir að hafa látið þau orð falla sem heyrast á upptökunum en þegar hljóðskrár fóru að birtast með fréttum þá fóru nú að renna á þá tvær grímur og jafnvel þrjár.
Allskonar afsakanir hafa verið bornar fram og sumir hafa beðið suma afsökunar en aðrir hafa ekki verið virtir viðlits, td. Freyja Haraldsdóttir sem var líkt við sel og fylgdu síðan hljóð sem áttu að tákna selsgelt.
Bæjarstjóri Vestmannaeyja hefur heldur ekki fengið afsökunarbeiðni frá viðkomandi þingmönnum og einn er svo óforskammaður að hann reynir að klína sökinni á aðra en hvítþvo sjálfan sig þrátt fyrir að heyra megi hann taka undir níðið og samþykkja það og á köflum bæta í.
Það sem er verst í þessu öllu saman er hvað lög um alþingismenn og ráðherra eru hrikalega léleg og gefa þessu fólki allt, allt of mikið frelsi til að haga sér eins og því sýnist án nokkurra afleiðinga og það sést hvað best í þessu máli öllu saman. Enginn sexmenningana sér neina ástæðu til að segja af sér þingmennsku þrátt fyrir hegðun sína, framkomu og talsmáta fyrir utan það að margbrjóta þingskaparlög og siðareglur alþingis með því að stinga af úr vinnunni til að fara á fyllerí og níða niður fjölda fólks með nafni í áheyrn gesta og gangandi á kránni sem þeir sátu á.
Það verður því að spyrja að því hvernig siðferði þessa fólks sé háttað?
Þessi hegðun hefði átt að leiða af sér tafarlausa afsögn þeirra strax daginn eftir fyrstu fréttir af málinu ef það væri snefill af heiðarleika og einhverju sem heitir siðferði hjá þessum þingmönnum, en nei. Það hvarflar ekki að þeim því öll hafa þau komið fram í fjölmiðlum og haldið því fram að þau hafi ekki brotið nein lög eða reglur en það er kolrangt og hrein og bein lygi í þeim öllum.
Brot á þingskaparlögum og siðareglum alþingis er brot á lögum og reglum.
Svo er ekki einu sinni hægt að reka þingmenn. Lögin koma í veg fyrir það. Lög sem þeir hafa sjálfir samþykkt til að vernda sig svo þeir geta hagað sér algjörlega óábyrgt, sagt og gert hvaðeina sem þeim sýnist án þess að þurfa að taka ábyrgð á því eða gjalda fyrir það með embættismissi. Sést það kanski best á því að báðir þingmenn Flokks fólksins voru reknir úr flokknum og sitja því sem utanflokksþingmenn í kjölfarið og neita að segja af sér þingmennsku og kalla inn varamenn.
Tveir þingmenn MIðflokksins voru svo sendir í launalaust frí þangað til mesti stormurinn verður gengin niður en fastlega má búast við að þeir snúi aftur til starfa skömmu fyrir þinglok næsta vor eins og ekkert hafi ískorist, enda verður þetta mál þá að mestu gleymt og grafið.
Hvað kallast svona hegðun?
Eina leiðin til að endurheimta eitthvað af virðingu alþingis í kjölfar þessa máls er að hætta þessari meðvirkni sem bæði alþingi og Forseti Íslands hafa sýnt í þessu máli og koma þessum þingmönnum frá fyrir fullt og fast, ef ekki með góðu þá bara með illu enda mun þeim alþingiskonum sem urðu fyrir barðinu á þeim, líða eins og það sé verið að nauðga þeim á hverjum degi, oft á dag meðan þeir fái að starfa óáreittir sem þingmenn áfram.
Þetta mál mun svo sannarlega reyna á það hvort þeir alþingismenn sem sitja á þingi í dag hefi það siðferðisþrek, þann kjark og þor sem þarf til að henda sexmenningunum endanlega út af Alþingi og kalla inn varamenn í þeirra stað.
Þjóðin á kröfu á því að þingmenn sem verða uppvísir að svona hegðun og tali sem kom fram í upptökunum verði gerðir burtrækir af Alþingi enda engin sómi að þeim heldur þvert á móti.
Taki alþingi ekki á þessu máli af hörku eða ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur þá er ekki útséð um annað en að virkja 24. grein Stjórnarskrár Íslenska Lýðveldisins og láta Forseta Íslands leysa þessa ríkisstjórn frá völdum, boða til kosninga og láta almenning um að hreinsa út úr Alþingishúsinu við Austurvöll.
Gangi það heldur ekki upp þá er málið í höndum þjóðarinar og annað hvort lætur hún þetta yfir sig ganga eða mætir fílefld á Austurvöll í hörð mótmæli þangað til þetta fólk verður látið taka ábyrgð á hegðun sinni.
Það er komið nóg af þessari meðvirkni íslensku þjóðarinar, íslenskur almenningur er orðin aðhlátursefni á erlendum vettvangi fyrir að taka aldrei á málunum.
Skoðað: 2679