Mótmæli við þinghúsið
Skoðað: 2634
Alþingi kemur saman í dag eftir jólafrí og hefjast umræður á alþingi klukkan 15 í dag. Reikna má með að umræður standi ekki lengi þennan fyrsta starfsdag alþingis en þriðja dagskrármálið gæti þó teygst aðeins fram á kvöldið ef að líkum lætur sem kemur sér ágætlega því boðað hefur verið til mótmæla framan við alþingishúsið klukkan 17 í dag og standa þau fram til klukkan átta í kvöld.
Spillinguna burt! Auðlindirnar í okkar hendur!
Við mætum þegar þing kemur aftur saman eftir hlé og látum í okkur heyra! Viljum við að arður af auðlindunum okkar fari í vasa fárra einstaklinga, sem nýta þá til þess að kúga okkur og arðræna – eða viljum við nýta arðinn af þeim í hag almennings? Viljum við gott heilbrigðiskerfi sem hefur burði til þess að hlúa að okkur þegar við veikjumst? Viljum við gott menntakerfi sem eflir okkur sem samfélag? Viljum við styðja betur við aðgerðir gegn loftslagsbreytingum? Viljum við tryggja að allir geti lifað með reisn? Viljum við Nýja stjórnarskrá sem færir okkur spillingarvarnir, eykur gagnsæi í stjórnsýslu, eflir fjölmiðla, eykur vald almennings og vernd náttúrunnar – og umfram allt færir okkur auðlindirnar í okkar hendur?
Mætum þá öll sömul og látum í okkur heyra þegar þing kemur saman! Mætum með allt sem okkur dettur í hug til þess að slá taktinn í okkar samtakamætti!Við krefjumst enn að:
* Sjávarútvegsráðherra segi tafarlaust af sér embætti.* Alþingi lögfesti nýja og endurskoðaða stjórnarskrá sem landsmenn sömdu sér og samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. – Að sjálfsögðu með því auðlindaákvæði sem kjósendur samþykktu.
* Arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna renni í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins og til að tryggja mannsæmandi lífskjör allra.
Það er Jæja hópurinn og Skiltakarlarnir sem standa að viðburðinum.
Skoðað: 2634