Með “dass” af kaldhæðni. Opið bréf til Bjarna Ben frá öryrkja og doktor í frönskum bókmenntum

Skoðað: 2766

Sigurður Ingólfsson er öryrki, doktor í frönskum bókmenntum og guðfræðinemi og skrifaði opið bréf til Bjarna Benediktssonar undir liðnum Skoðun í Fréttablaðinu þann 12. þessa mánaðar hvar hann fer aðeins yfir stöðu öryrkjans með “dass” af kaldhæðni en þó grafalvarlegum undirtón.

Engin með fullu viti reiknar að sjálfsögðu með því að Bjarni svari þessu bréfi frekar en nokkru öðru sem hann hefur í raun engin svör við eða því sem hann getur ekki logið sig út úr án þess að nokkur gagnrýni það á nokkurn hátt en haldið er utan um hluta af þeim staðfestu ósannindum sem Bjarni hefur orðið uppvís að í gegnum tíðina.

Hér að neðan eru nokkrir góðir úrdrættir  úr bréfinu:

  • Ég vona að ég sé ekki að rífa þig burt frá bakstri eða lífsgæðaaukningunni sem þú segir okkur almúganum að sé umtalsverð. Maður í þinni stöðu, hefur kannski ekki mikinn tíma til að lesa eitt svona lettersbréf og það er skiljanlegt, en þú hlýtur að geta fengið aðstoðarmann þinn eða aðstoðarkonu til að segja þér undan og ofan af því sem fólk hugsar utan veggja Alþingis og Stjórnarráðs, þannig að ég örvænti ekki og verð alls ekki hissa þegar þú svarar ekki þessu tilskrifi.
  • Nú hefur þú farið mikinn um það hvað lífskjör hafa batnað, kaupmáttur aukist og að ellilífeyrisþegar og öryrkjadruslur eins og ég, hafi það margfalt betra en áður. Og fyrst að þú heldur þessu fram, þá hlýtur það að vera rétt. Ekki færi strangheiðarlegur pólitíkus (sem reyndar eru vandfundnir) að ljúga upp í opið geðið á landsmönnum þessarar fámennu þjóðar.
  • Reyndar veit ég sosum að öryrkjar eru lítið annað en baggi á samfélaginu og þess vegna skammast ég mín alltaf fyrir að vera ekki bara jakkafataklædd fyrirvinna með almennileg laun hjá einhverju risafyrirtæki eins og Samherja og er inn undir hjá stjórnvöldum. Og til að vera almennileg manneskja ætti ég að eiga helling af peningum sem ég kemst aldrei yfir að njóta í einhverri skattaparadísinni.
  • En ég er auðvitað ekki að segja að þú gerir slíkt, þú ert í svo góðri vinnu að þú getur almennilega haldið heimili á Íslandi.
  • Ég er búinn að fá um skeið 145.000 krónur útborgaðar frá Tryggingastofnun á mánuði og kann greinilega ekki að þefa uppi alla hækkunina sem þú segir að ég hafi fengið. Með von um útskýringar,

Bréfið er að sjálfsögðu lengra og ýtarlegra en hægt er að lesa það hér í heild sinni og ljótt ef það kallar ekki fram í það minnsta eina brosvipru eða hláturstíst.

Skoðað: 2766

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir