Geta formenn stéttarfélaga hugsað út fyrir kassan og fengið fólk til að standa saman?

Skoðað: 1867

Hugarfarslegu hlekkirnir eru í raun það sem fjötrar einstklinginn en ekki festan.

Það er dálítið athyglisvert að fylgjast með baráttu stéttarfélaga í landinu og lesa pistla þeirra þessa dagana.  Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar skrifar oftar en ekki beitta pistla sem eiga að vera hvatning til láglaunastétta að mótmæla kjörum sínum en gera því miður lítið annað en draga úr fólki bæði kjark og von um að hægt sé að bæta kjör þeirra verst settu.
Því miður má segja það sama um aðra verkalýðsforingja í landinu því það er eins og þetta fólk geti ekki hugsað út fyrir kassan og myndin hér til hliðar er svolítið lýsandi hvernig fólk bindur sig í hlekki sem hafa í raun enga festu en telja sig þó ekki geta hreyft sig úr stað þar sem það er bundið.

Í stað þess að hvetja fólk til að standa saman og berjast fyrir kjörum sínum þá benda verkalýðsforingjar út og suður í skrifum sínum á vonda auðvaldið, ríkasta fólkið í landinu, stjórnmálamenn sem dekra við auðvaldið, gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari með laga og reglugerðarbreytingum og svo framvegis og svo framvegis.

Nær væri fyrir verkalýðsforistuna að lesa sig í gegnum ræður og skrif hinna gömlu verkalýðsforkólfa sem hikuðu ekki við að beita hörðum aðgerðum til að ná fram réttindum verkalýðsins upp úr miðri síðustu öld, þar sem hörð verkföll og vinnudeilur skiluðu miklum ávinningi til almennings og verkalýðsfélögin stóðu saman að því að bæta kjör almennings.
Hægt er að skoða fréttir á Timarit.is þar sem sagan dregur þetta allt fram.
Í dag er þetta bara innantómt væl sem dregur bara máttinn og viljan úr fólki til að standa saman og bæta kjör sín.

Nýjasta innslag Sólveigar Önnu er svona dæmigert innlegg til að draga alla von úr fólki því eftir svona lestur drýpur fólk bara höfði og segir í algjöru vonleysi; “Já. Svona er þetta og við því er ekkert að gera.”

Tökum nokkur dæmi.

Jei Ísland! Kona á fimmtugsaldri, búin að vera á vinnumarkaði síðan hún var 17 ára á 10.000 krónur eftir þegar hún er búin að greiða húsaleiguna á meðan að “meðaleign hverrar fjölskyldu í efsta 0,1 prósent lagi samfélagsins hefur farið úr því að vera 922 milljónir króna í árslok 2016 í að vera 1,1 milljarður króna um síðustu áramót” samkvæmt frétt Kjarnans.

Fínt að benda á þetta og kanski verða nokkrir reiðir, aðrir verða vonsviknir og aðrir hrista bara höfuðið og hætta að lesa.
Flestir hætta reyndar að lesa þegar þarna er komið enda hugsa flestir að svona sé þetta og þó þessu hafi verið slengt í andlitið á þeim þá halda upptalningarnar bara áfram restina af pistlinum en engar lausnir eða hvatning til að gera eitthvað róttækt í málunum eru lagaðar fram.
Ekkert.

Skrollum aðeins niður í pistlinum og þá kemur þetta.

Á Íslandi halda hin ríku sannarlega og rösklega áfram að auðgast, og hafa meira að segja gefið í auðsöfnunina á síðustu árum: “Því liggur fyrir að efnuðustu Íslendingarnir eru að taka til sín stærra hlutfall af nýjum auð á síðustu tveimur árum en þeir hafa gert að meðaltali síðastliðin níu ár.”

Í Reykjavík er útsvar ekki lagt á fjármagnstekjur. Þannig að vinnuaflið leggur sitt af mörkum til borgarinnar svo að hægt sé að bjóða borgurunum alla þá þjónustu sem þeir reikna með, eins og t.d. leikskóla, á meðan hin ríku sem að lifa af eignum og auðsöfnun þurfa ekki að velta slíku fyrir sér.

Enn meira rætt um hvað hinir ríku fá miklar fyrirgreiðslur og hvernig þeir geta komist hjá því að taka þátt í samfélaginu meðan 250 þúsund króna láglaunakonan/maðurinn stendur undir því að reka samfélagið sem það býr í.
Ekkert sérstaklega hughreystandi eða uppbyggilegt þar á ferð og dregur enn niður vonina að nokkuð skuli skána.

Hellings bla, bla um þrældóm og slæm kjör láglaunafólks og síðan þetta.

Þau sem fara með völd í þessu samfélagi, þessari borg, standa frammi fyrir vali. Ætla þau að halda áfram að ríkja yfir kerfi sem er augljóslega ógeðslegt og ósiðlegt, halda áfram að láta sem ekkert sé, að öllum finnist bara gaman, að “hver sé sinnar gæfu smiður” eins og hinn kaldlyndi ráðuneytisstjóri félagsmálaráðuneytisins komst að orði þegar hann velti fyrir sér örlögum aðflutts verkafólks eða ætla þau að sýna sómakennd og styrk, og gera það sem í þeirra valdi stendur til að í það minnsta byrja að vinda ofan af bullinu? Ætlar borgin að halda áfram að vera speglaborg nýfrjálshyggjunnar þar sem ekkert skiptir máli nema það að við þykjumst öll vera hress eða ætlar hún að “woman-up” og færa fólkinu sínu það sem það á skilið?
Það er ýmsir möguleikar fyrir hendi til að byrja að taka til og það væri ágætt að byrja á því að setja útsvar á fjármagnstekjur og nota svo ávinninginn til að borga láglaunafólkinu í borginni mannsæmandi laun.

Það er búið að benda stjórnvöldum á þetta í amk tvo áratugi en hvað hefur breyst þrátt fyrir öll skrifin?
Ekkert.
Nákvæmlega ekki neitt og mun ekki gera það.

Ef Sólveig, Ragnar þór, Vilhjálmur, Drífa í ASÍ og aðrir verklýðsforingjar vilja raunverulega standa upp og gera eitthvað þá þarf að byrja á því að kalla fólk saman til aðgerða og samstöðu þar sem ólögin í sambandi við verkföll og vinnustöðvanir eru hreinlega brotin og stjórnvöld þvinguð til að breyta þeim lögum þó það mundi kosta að fólk lenti í fangelsi tímabundið og janvel missa vinnuna, tímabundið, því skrif og blaður út í loftið skilar engu, það sýnir og sannar sagan okkur.

Ef fólk vill raunverulegar kjarabætur þá þarf það að byrja á því að horfa á myndina þarna efst í pistlinum og sjá sjálft sig í henni og síðan þarf það að hugsa sig út úr henni með því að standa upp og fara á fundi með sínu verkalýðsfélagi og taka þátt í því á verklegan hátt að laga kjör sín því það gerir það enginn fyrir þig þegar upp er staðið.

Verkalýðsforingjar þurfa að vera duglegri að fá fólk til að standa saman í verklegum aðgerðum gegn stjórnvöldum og auðvaldinu svo það geti rétt sín kjör því þú gerir það ekki sitjandi á rassgatinu við tölvuna, röflandi á samfélagsmiðlum eða vælandi í kaffistofunni yfir samstarfsfólki þínu um hvað lífið sé vont og kjörin slæm heldur bendir þú fólki á þá staðreynd að það verði að standa upp og gera hlutina með þér.  Með foristu stéttarfélagana.  Með því að mæta á fundi og leggja þitt að mörkum til að bæta þín eigin kjör.

Þegar þið skiljið aflið sem þið búið yfir þá getið þið byrjað að laga heimin.

Láglaunafólkið í landinu getur alveg bætt sín kjör.
Það þarf bara að hætta að hugsa eins og asninn á myndinni sem heldur að hann sé fastbundinn þó hann sé laus.
Það þarf bara að standa upp og gera hlutina í stað þess að “ræða” þá því það skilar nákvæmlega ekki neinu.

Verkalýðsforistan þarf að líka að hætta að blaðra út í eitt og skrifa út í eitt, hún þarf líka að standa upp og gera eitthvað að gagni og góð byrjun þar væri að fara á vinnustaðina og tala við fólkið og hvetja það til að hjálpa sér sjálft að bæta sín kjör og kalla saman fundi og biðja fólk að koma með tillögur því ef það næðist almennilega samstaða væri hægt að lama þjóðfélagið og þar með auðvaldið sjálft til að ganga að kröfum láglaunahópa.

Blaður, skrif og samstöðuleysi skilar engu það sannar sagan því harðar aðgerðir í kröfum með vinnustöðvunum og verkföllum hafa skilað fólki mestu í gegnum tíðina.
Það er staðreynd.
Sólveg, Ragnar Þór, Vilhjálmur og Drífa, það er komin tími til að hætta að skrifa og fara að gera eitthvað.

Hættið að vera asninn á myndinni.

Skoðað: 1867

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir