Fréttamönnum miskunarlaust hótað atvinnu og afkomumissi af stjórnmálamönnum, útgerðargreifum og auðvaldinu, haldi þeir sig ekki á mottunni
Skoðað: 16290
Fyrirsögnin er löng, því er ekki að neita en ekki að ástæðulausu.
Fólk sem fylgist með fréttum í fjölmiðlum á íslandi hefur oft furðað sig á því hvað blaða og fréttamenn eru varkárir í spurningum sínum við stjórnmálamenn, auðmenn og útgerðargreifa í landinu og einnig þeirri staðreynd að þessir einstaklingar komast hvað eftir annað upp með að neita að koma í viðtöl í útvarp, sjónvarp og í dagblöðum landsins, nema þar sem þeir fá að fara sínu fram og jafnvel hefur það gengið svo langt að þeir hafi komið með lista yfir þær spurningar yfir mál sem “má” spyrja þá um.
Þeir sem hafa fylgst með fréttum Rúv og Kastljósi geta séð þetta í hvert einasta sinn sem ákveðnir aðilar koma í viðtal, það er eins og þáttastjórnendur sitji á glóandi kolum eða tippli á glerbrotum í þessum viðtölum, skíthræddir um að spyrja “rangra” spurninga.
Helgi Seljan er gott dæmi um fréttamann sem hefur verið barinn svoleiðis niður að hann er varla meira en skugginn af sjálfum sér í dag því þegar hann byrjaði í Kastljósi á sínum tíma var hann flugbeittur og hikaði ekki við að hjóla í viðmælendur sína og spyrja þá óþægilegra spurningar. Eins var með Jóhannes Kr. en eins og allir vita var hann látinn fara þar sem hann lét ekki nógu vel að stjórn og þótti því ekki við hæfi að hann starfaði áfram sem rannsóknarfréttamaður hjá Rúv.
Helgi hins vegar situr eins og þægur rakki í dag og lætur allt yfir sig ganga að vísu með ógeðssvip á andlitinu og líður greinilega allt annað en vel þegar hann þarf að spyrja ráðamenn, auðmenn eða aðra út í ákveðin mál og maður sér og heyrir hvernig hann passar að styggja ekki viðmælendur sína, sérstaklega þá sem eiga mikið undir sér.
Björn Þorláksson, fyrrverandi ritstjóri Akureyri vikublað, nú starfandi sem fréttamaður á sjónvarpsstöðinni Hringbraut lýsir því ágætlega hvernig þetta var þegar hann var nýráðinn fréttamaður hjá Rúv árið 2002 en það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir fólk hvernig hlutirnir hafa þróast síðan þá ef fréttamenn hafa alltaf lúffað þegar þeim hefur verið hótað.
Gefum Birni orðið:
Tveimur dögum eftir að ég hóf störf hringdi ég í bæjarstjórann á Akureyri, Kristján Þór Júlíusson. Eitthvað var ég að sauma að honum með áleitinni spurningu um álitaefni stjórnsýslu. Í miðju samtali vendir hann um kúrs, skipstjórinn fyrrverandi, og brýtur upp talið. Hann segir mér að leitað hafi verið umsagnar hans fyrir ráðningu, hvort ég ætti að fá fréttamannsstöðuna. Hann sagði ekki hver hefði gert það en á þessum tíma var Útvarpsáð eins og jafnan undir stjórn sjálfstæðismanna. Hann lét mig vita að hann hefði gefið mér gott orð og var ekki hægt að túlka ummælin öðruvísi en sem svo að ég ætti honum persónulega það að þakka að ég hefði fengið stöðuna.
Til að gera langa sögu stuttu sortnaði mér hreinlega fyrir augum. Saklaus sem ég þá enn var vildi ég ekki trúa að svona gerðust kaupin stundum á eyrinni.
Eftir nokkra þögn svaraði ég skjálfraddaður að Kristján Þór hlyti að vita ef hann þekkti mig raunverulega að þessar upplýsingar hlytu að leiða til þess að ég myndi veita honum enn meira aðhald sem stjórnmálamanni en ella. Ekki léti fréttamaður kaupa sig til undirgefni eða þöggunar með slíkum óumbeðnum upplýsingum. Varð fátt milli okkar tveggja lengi og bjagað samband æ síðan.
Björn afhjúpar hér fyrrum bæjarstjóra á Akureyri, núverandi heilbrigðisráðherra í ríkisstjórninni, ríkisstjórn sem hefur fengið það vafasama viðurnefni “ríkrastjórnin” eða “auðmannsdekurstjórnin” meðal almennings.
Aldrei hafa frétta eða blaðamenn gert eins og kollegar þeirra á hinum norðurlöndunum þegar stjórnmálamenn hafa neitað að svara spurningum, að elta þá á röndum og krefja þá svara þangað til þeir gefa eftir og springa því ef íslenskri blaða og fréttamenn mundu voga sér að gera slíkt, geta þeir kvatt starf sitt og starfsframa um aldur og ævi því svo ofboðsleg er kúgunin af hendi stjórnmálamanna, útgerðargreifa og auðvaldsins hér á landi.
Og Björn heldur áfram:
Í Rannsóknarskýrslu Alþingis segir: „Ef þetta gengur ekki fram mun ég persónulega sjá til þess að þér verði ólíft á Íslandi það sem eftir er.“
Sú tilvitnun er höfð eftir einum helsta ráðamanni landsins í garð annars sem var ósammála.
Ég er ekki að halda fram að mér hafi verið send svo sterk skilaboð. En hitt var ákveðin frelsun að lesa í Fréttablaðinu í gær þegar Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmiðnaðarmanna, sagði að komin væri fram ný tegund af útgerðarmönnum sem hafi í hótunum við sjómenn. Dæmi séu um að mönnum hafi ekki bara verið hótað brottrekstri heldur útilokun um ráðningu hjá öðrum útgerðum innan SFS ef þeir sýndu of mikið sjálfstæði í baráttu. „Við glímum nú við nýja tegund útgerðarmanna. Ég hef ekki kynnst neinu slíku frá því ég byrjaði að vinna við samningagerð,“ segir Guðmundur í samtali við Fréttablaðið og tilgreindi að sjö stórar útgerðir réðu öllu. „Staðan er sú að sjómenn andmæla ekki Þorsteini Má í Samherja, Gunnþóri í Síldarvinnslunni, eða þeim á Höfn eða í Vestmannaeyjum. Þetta er veruleikinn sem við glímum við.“
Kannski tók það þennan formann nokkur ár að manna sig upp í að segja það sem hann hefur lengi hugsað. 13 árum eftir að Kristján Þór Júlíusson núverandi ráðherra gaf til kynna í miðju fréttasímtali, þar sem ég, fulltrúi almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna hjá Ríkisútvarpinu, var að spyrja hann ágengrar spurningar, að ég ætti honum gjöf að gjalda, hefur mitt hérahjarta loks orðið tilbúið fyrir næsta takt.
Í lokin hvetur Björn, kollega sína innan fréttageirans á íslandi að hætta að óttast valdið og láta hjartað og samviskuna ráða för því þar væri skilgreiningin á hugrekki og að það sé nauðsynlegt að brjóta upp vald kúgunar og þöggunar á íslandi, segir Björn að lokum.
Það kostar að sjálfsögðu eitthvað en ekkert fæst án fórna og þeir sem ekki eru tilbúnir að færa fórnir á altari réttlætis og sannleika fyrir allann almenning í landinu eiga ekki að starfa á fjölmiðlum heldur ættu þeir frekar að finna sér starf við hæfi þar sem undirlægjuhátturinn nýtur sín betur. Margir fyrrum fjölmiðlamenn hafa gert það með góðum árangri og í dag má sjá þá í störfum sem þeir njóta sín ágætlega í því að þjóna valdinu sem þingmenn, aðstoðarmenn ráðherra eða blaðafulltrúa þeirra.
Sú stétt á íslandi sem kallar sig fjölmiðlafólk, blaðamenn og fréttamenn verða að steppa upp og brjóta af sér fjötra kúgunar og þöggunar hvað svo sem valdið reynir að hóta þeim og kúga til hlýðni til þess að spillingin og sem grasserar í stjórnmálunum, útgerðunum og sérstaklega innan auðmannastéttarinnar á íslandi verði brotin á bak aftur með þeirri hörku sem þarf til að sannleikurinn komi í ljós og menn verði afhjúpaðir þar til þeir standa naktir eftir.
Það er verkefnið sem liggur fyrir fjölmiðlafólki strax í dag.
Ekki á morgun eða í næstu viku, það þarf að gerast strax.
Skoðað: 16290