Afleiðing fátæktarstefnu leiðir til fjölgunar öryrkja

Skoðað: 1400

Það er hreint með ólíkindum sársaukafullt að hlusta á vælið í Bjarna Benediktssyni og öðrum nýfrjálshyggjupostulum væla yfir því að öryrkjum fari fjölgandi á íslandi og slá um sig með tölum sem eiga að sanna þá staðreynd.  Tölum sem þegar betur er að gáð eiga sér litla sem enga stoð í raunveruleikanum þegar kemur að raunverulegri fjölgun öryrkja því fjöldi þeirra hefur staðið í stað meðaltalslega séð síðustu 12 árin hið minnsta en rétt er það þó, og skal haldið til haga að nokkur fjölgun varð á árunum 2016 og 2017 þar sem var verið að vinna upp biðlista og kærur hjá Tryggingastofnun Ríkisins sem höfðu safnast upp frá árinu 2012 en þessu hefur Öryrkjabandalagið nú þegar svarað af kostgæfni með tölulegum upplýsingum.

Það sem Bjarni Ben og aðrir nýfrjálshyggjupostular þurfa að átta sig á er sú staðreynd að síðustu tvo, nærri þrjá áratugi hefur markvisst verið unnið að því að lækka rauntekjur fólks með þeim hætti að í stað þess að fólk geti lifað af á dagvinnulaunum lægstu launa þarf fólk að þræla sér út á bestu árum sínum til að eiga í sig og á og reyni fólk að eignast húsnæði á þeim lánakjörum sem bjóðast á íslandi þá er útséð um að fólk geti eignast það á einni lífstíð vegna okurvaxta sem hvergi þekkjast í hinum siðmenntaða heimi með verðtryggingunni sem leggst ofan á lánin þannig að það er kanski möguleiki á að barna-barnabörn þess sem lánið tekur nái að borga það upp.

Þetta leiðir svo til þess að fólk fer í tvær til þrjár vinnur til að eiga fyrir lánum, mat, nauðsynjum og til að halda fjölskyldunni uppi, þrælar fimm daga vikunar í allt að sextán til átján tíma á dag og kemur heim örþreytt til að fá kanski fjögurra tíma hvíld áður en þrældómurinn er hafinn að nýju.  Helgarnar fara svo oftast í það að taka aukavinnu eða þriðju vinnuna til að auka tekjurnar.
Það er nákvæmlega ekkert heilbrigt við þetta fyrirkomulag en þetta er það sem nýfrjálshyggjan hefur skapað og heldur að sé lausn allra vandamála þó þeir viti að það kemur í bakið á þeim með þeim hætti að fólk þrælar sér til húðar fyrir fertugt, brennur upp á sálinni og líkaminn útslitinn sem á áttræðu gamalmenni áður fertugsaldrinum er náð.
Dæmin eru óteljandi.

Síðan má ekki gleyma áhyggjum, kvíða, þunglyndi, þreytu, svefnleysi og ýmsum fleiri andlegum þáttum sem tengjast öllu þessu beint eða óbeint sem að sjálfsögðu einnig leiða til þess að fólk brennur út löngu fyrir aldur fram.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagði sína sögu sem er saga margra láglaunakvenna á íslandi þar sem þær þræla sér út í láglaunastörfum og enda á örorku löngu fyrir aldur fram vegna auðmannadekurs stjórnmálamanna sem hvorki geta né vilja hugsa um afleiðingar gerða sinna en kenna alltaf öðrum um og það sést hvað allra best á störfum þeirrar ríkisstjórnar sem innan nokkurra mánaða mun blessunarlega láta af stöfrum eftir eyðileggingarstarfsemi og niðurrif allt kjörtímabilið.

Sjálfstæðismenn og þeir nýfrjálshyggjupostular ásamt auðvaldsdekursinnunum þurfa að fara frá völdum og þjóðin þarf fólk með heilbrigða heilastarfsemi í ráðaneytin eftir næstu kosningar.  Fólk sem hlustar á almenning og hefur þann skilning á starfi sínu að það á að þjóna almenningi í landinu en ekki stjórna almenningi eins og núverandi ríkisstjórn virðist halda í sínum sjúka huga.

Þjóðin þarf fólk við stjórnvölinn sem sér ástandið hjá almenningi, fátæktina, skortinn og neyðina hjá öldruðum og öryrkjum og hvernig heilbrigðiskerfið er gjörsamlega að hruni komið eftir sveltistefnu síðustu tveggja áratuga og hvernig aðgerðir núverandi stjórnvalda hafa att ungu fólki til að taka sitt eigið líf því það sér enga framtíð í að mennta sig eða af því það hreinlega hefur ekki efni á því að brjótast til mennta vegna helstefnu í lánamálum námsmanna þar sem aðeins þeim sem eiga ríka ættingja er gert kleyft að brjótast til “æðri” mennta.

Þeim sem síðan lenda á örorku er gert ókleyft að eignast eitthvað líf eða ná sér í tekjur þá sjaldan sem heilsan leyfir þeim að vinna því allt sem þeir ná að vinna sér inn er jafnharðan rifið af þeim með skerðingum sem gera það aftur að verkum að þegar fólk er orðið of veikt til að vinna þá fær það feita rukkun frá Tryggingastofnun um að borga til baka með vöxtum og innheimtukostnaði “ofgreiðslur” TR.
Þetta er ofbeldi, níðingsháttur og kúgun stjórnvalda á veiku og ósjálfbjarga fólki.

Nýfrjálshyggjan hefur einnig leitt til gífurlegs siðferðisbrests meðal þeirra sem fylgja þeirri stefnu og það sér almenningur kanski einna best hjá Samtökum Atvinnulífsins og eigendum stórútgerðana í landinu enda er alltaf viðkvæðið hjá þeim; “Ég á þetta!  Ég má þetta!”.
Ótrúlega mörg fyrirtæki greiða eigendum sínum milljarða á milljarða ofan þó þau séu nánast rekin með tapi ár eftir ár og þegar harðnar á dalnum í krepputíð eins og nú er þá koma eigendurnir sem hafa rakað milljörðum inn á aflandsreikninga í skattaskjólum og heimta að ríkið bjargi þeim.  Neðar er varla hægt að komast í óheiðarleika og siðleysi nema ef vera skyldi sá ráðherra sem aumkar sig yfir slíka óráðssíuseggi og dælir fjármunum úr ríkissjóði í svona siðleysingja.

Nei það er komin tími til að ráðamenn á íslandi og Samtök Atvinnurekenda fari að skoða hvaða afleiðingar verk þeirra hafa á almenning í landinu og til hvers svona þrælastefna leiðir því aðgerðum fylgir ábyrgð og það er ábyrgð sem er komin tími til fyrir ráðafólk á íslandi að axla því fjölgun öryrkja er algjörlega á ábyrgð þeirra sem móta stefnu í atvinnu, launamálum og efnahag landsins.

Hverjir eru það sem skapa auðsöfnun útgerða og stórfyrirtækja?
Hvað mundi gerast ef starfsfólkið labbaði út segði eigendum þeirra að vinna skítverkin sjálfir?
Það er spurning sem þarf að svara.

Skoðað: 1400

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir