Þingsetning og stefnuræða Katrínar Jakobs.
Skoðað: 1744
Alþingi verður sett í dag 1. oktober og eflaust margir sem bíða spenntir eftir því þegar Katrín Jakobsdóttir flytur stefnuræðu sína í kvöld klukkan 19:30 í síðasta sinn enda kosningar næsta haust.
Pepp Ísland, grasrót fólks í fátækt hefur boðað til þögullar samstöðu á Austurvelli við þingsetninguna í dag undir kjörorðinu “Ekki í sama báti” og síðan aftur í kvöld þegar Katrín stígur í stól þar sem hún mun eflaust hrósa sér og ríkisstjórninni af þeim verkum sem en aðalega því verkleysi sem þessi ríkisstjórn auðvaldsins hefur gert á kjörtímabilinu og þá sér í lagi á þessu ári sem hefur einkennst af heimsfaraldrinum COVID-19 sem ekki virðist sjá fyrir endan á.
Við hvetjum fólk til að mæta enda verða sóttvarnir í hávegi hafðar og er fólk hvatt til að virða eins meters regluna, vera með grímur og hanska en eitthvað slíkt verður þó í boði á staðnum fyrir þá sem ekki hafa séð sér fært eða haft efni á þeim. Grímurnar verða merktar með áberandi kross yfir munnsvæðinu til að minna á þá staðreynd að reynt hefur verið að þagga niður í fátækasta fólkinu í landinu og það hefur ekki fengið neina aðstoð frá stjórnvöldum í gegnum COVID fárið eins og auðvaldið og ríkasta fólkið í landinu.
Það er staðreynd sem verður að koma á framfæri að kjör öryrkja og aldraðra hafa dregist aftur úr lágmarkslaunum á Íslandi og nú er svo komið að það munar um 80 þúsund á lægstu launum samkvæmt samningum og fullum bótum almannatrygginga en vegna skerðingarákvæða stjórnvalda geta öryrkjar, ólíkt launafólki ekki drýgt tekjur sínar með vinnu eða neinum öðrum hætti því þá er allt tekið af þeim með skerðingunum og því situr þetta fólk eftir í fátækt enda útborgaðar tekjur frá TR slefa varla í 230 þúsund í heildina en viðmiðunarmörk til að geta lifað mannsæmandi lífi eins og segir í stjórnarskrá íslands, eru í kringum 400 þúsund FYRIR UTAN HÚSNÆÐISKOSTNAÐ!
Hvað segir það okkur um stjórnvöld sem neita að hækka bætur almannatrygginga?
Sameinumst á Austurvelli klukkan 19:00 í kvöld og minnum þingheim og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur á að fátækt er staðreynd og einnig þá staðreynd að kaupmáttur öryrkja og aldraðra hefur staðið í stað nánast allt þetta kjörtímabil þrátt fyrir að Katrín hafi haft uppi stór orð um hið gagnstæða.
Þann 13. september árið 2017 sagði Katrín orðrétt í ræðu sinni sem finna má á alþingisvefnum að stjórnvöld ættu ekki að biðja fátækt fólk að bíða eftir réttlæti.
Kæru landsmenn. Ranglæti, hvar sem það finnst í samfélaginu, er ógn við réttlætið. Þess vegna megum við aldrei slaka á í baráttu okkar fyrir réttlátu samfélagi. Að bíða með réttlætið jafngildir því að neita fólki um réttlætið — eins og Martin Luther King orðaði það í frægu bréfi.
Stjórnmálamenn mega aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja bið eftir réttlæti. Stjórnmálamenn þurfa að vera reiðubúnir að beita sér stöðugt fyrir réttlætinu og breyta kerfinu ef það þarf til. Annars er hættan sú að traust fólks á hinu lýðræðislega samfélagi dvíni og þá ábyrgð þurfum við öll að axla.
Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlæti. Núverandi áætlanir þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr gera ráð fyrir því að öryrkjar og aldraðir eigi að halda áfram að hokra og búa við skammarleg kjör. Það á að bjóða atvinnulausu fólki með fullan bótarétt upp á 217.000 kr. á mánuði. Lægstu laun á Íslandi standa enn í 280.000 kr. Þau duga ekki til framfærslu. Og fólk á lægstu launum er beðið að vera þakklátt fyrir 20.000 kr. því að hlutfallslega sé það nú ekki lítið. „Því miður þarf að bíða aðeins með réttlætið fyrir þig,“ er viðkvæðið, „en allt stendur þetta til bóta.“ Þegar þetta fátæka fólk er beðið um að bíða eftir réttlætinu er verið að neita því um réttlæti.
Að því sögðu þá spyr maður sig hvernig siðferði Katrínar Jakobsdóttur lítur út eftir þriggja ára setu sem forsætisráðherra?
Hefur hún staðið undir þessari ræðu eða er hún sama stjórnmálaaflið sem vísar í ríkjandi kerfi?
Hefur hún á kjörtímabilinu gert eitthvað til að breyta ríkjandi kerfi til batnaðar?
Hvar stendur hún og hennar ríkisstjórn gagnvart fátækum í dag?
Kæru lesendur hvar sem þið eruð í pólitík þá eru þetta hagsmunir sem varðar okkur öll sem lifum undir ógnarhæl núverandi stjórnvalda sem hafa hvorki kjark, þor né vilja til að taka á þessum málum og útrýma fátækt í landinu. Taka til í málefnum sem varða hreinan þjófnað á auðlindum þjóðarinar þar sem örfáir einstaklingar hirða allan hagnað af stærstu auðlind þjóðarinar, fiskimiðunum meðan hátt í 10 þúsund börn og fjölskyldur þeirra lifa við slíkan skort að eiga ekki fyrir hollum mat, lyfjum og afþreyingu í hverjum mánuði. Mörg börn geta ekki stundað íþróttir eða tómstundir vegna fátæktar foreldrana og það er ekki foreldrunum að kenna heldur ónýtu kerfi og viðhald þess af ónýtum og gagnslausum stjórnmálamönnum.
Það er okkar sjálfra að breyta þessu og koma þeim stjórnmálamönnum sem ekkert gagn er að frá völdum og hætta að hlusta á endalausan lygaþvættinginn frá þeim fyrir hverjar kosningar enda svíkja þeir, ljúga og stela eins og þeim hafi verið fært valdið frá almættinu en ekki fólkinu sem þeir eiga að þjóna.
Breytum þessu og mætum á Austurvöll klukkan 19:00 í kvöld undir stefnuræðu Katrínar Jakobsdóttur.
Skoðað: 1744