Þingmaður VG lýgur blákalt í ræðustól Alþingis
Skoðað: 4177
Ólafur Þór Gunnarsson þingmaður Vinstri Grænna fór með ósannindi, það er að segja á mannamáli, lygar, í máli sínu í pontu alþingis í gær, 20. febrúar.
Þar sagði Ólafur eftirfarandi:
Ríkisstjórnin hefur hækkað frítekjumark vegna atvinnutekna elli- og örorkulífeyrisþega úr 25.000 í 100.000 kr.
Þetta er rangt hjá Ólafi og það ætti hann að vita hafi hann yfir höfuð eitthvað verið inni í umræðunni og fylgjst með umræðum er snerta öryrkja.
Ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem setið hefur í rúmt ár, hefur ekki hækkað frítekjumark örorkulífeyrisþega. Frítekjumark örorkulífeyrisþega hefur staðið í stað í áratug. Um þetta er meðal annars fjallað í umsögn ÖBÍ um frumvarp sem kom fram á Alþingi fyrir ári, um afnám skerðingar ellilífeyris vegna atvinnutekna.
Frítekjumarkið hefur verið óbreytt frá árinu 2009. Á meðan frítekjumarkið stendur í stað og laun á vinnumarkaði hækka, þá skila launahækkanir sér ekki til örorkulífeyrisþega.Í umsögninni kemur jafnframt fram að frítekjumarkið er nú um 110 þúsund krónur á mánuði. Hefði það hækkað í samræmi við hækkun launavísitölu frá árinu 2009 ætti það að nema rúmum 200 þúsund krónum á mánuði.
ÖBÍ bendir á að stór hópur örorkulífeyrisþega þarf enn að glíma við grimmar skerðingar sem halda fólki í fátæktargildru. Þetta er krónu-á-móti-krónu skerðingin, sem gerir fólki með skerta starfsgetu nánast ókleift að bæta sinn hag, til dæmis með hlutastarfi. Við hverja einustu krónu sem fólk vinnur sér inn eða hefur í lífeyristekjur, er örorkulífeyrir skertur að fullu á móti.
Þingmanninum og ríkisstjórn hans yrði sómi að því að hækka frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyrisþega upp í 200 þúsund og afnema krónu-á-móti-krónu skerðinguna strax. Þá hefði þingmaðurinn og ríkisstjórnin eitthvað til að stæra sig af.
Skoðað: 4177