Ósannindamaðurinn Ásgeir Jónsson
Skoðað: 1362
Það ætti að kveikja öll viðvörunarljóst hjá almenningi í landinu, stjórnmálamönnum, fjölmiðlafólki og síðast en ekki síst ættu öll viðvörunarkerfi hjá alþjóða fjármálastofnunum að blikka viðvörunarljósum og flautur að gjalla með hávaða og látum þegar seðlabankastjóri þjóðríkis fer með staðlausa stafi og hreinar lygar í málflutningi sínum sem varðar ekki bara þjóðina sjálfa heldur líka allar þjóðir sem Ísland hefur viðskipti við.
Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri varð hvað eftir annað uppvís að því að fara með rangt mál, staðlausa stafi og því miður, hreinar og klárar lygar í svörum sínum þegar hann sat fyrir svörum hjá Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis í gær, 18. oktober ´22.
Eitt af því sem hann talar um er gífurleg styrking íslensku krónunar gagnvart Evru en það er helber lygi því frá 2017 hefur krónan hríðfallið gagnvart Evrunni eins og meðfylgjandi mynd af þróun gjalmiðla sýnir glögglega því 1. sept 2017 var Evran í 124,5 krónum en í dag, 19. okt 2022 er Evran í 141,5 krónum.
Marínó G. Njálsson hefur einnig dregið fram í stöðufærslu á Facebook, atriði sem er ekki hægt að kalla annað en hreint og tómt bull í málflutningi Seðlabankastjóra.
Á fundi með þingnefnd Alþingis í morgun sagði hann:
„Með því að vera með nafnvaxtalán, og fólk hefur borgað út verðbólgu, þá hefur átt sér stað gríðarlega hröð eiginfjármyndun. Og það náttúrulega er algjörlega út í hött að tala um bætur fyrir það. Þetta er náttúrulega fólk sem hefur fengið bæði hækkun á fasteignaverði plús lækkun á höfuðstól vegna neikvæðra raunvaxta.“Nú þætti mér vænt um, ef seðlabankastjóri gæti skýrt það út fyrir okkur almúganum hvernig það bjargar greiðslugetu skuldara að eiga meira eigið fé í fasteign. Hvernig hjálpar það fasteignaeigendum að fasteignagjöld hækki samhliða meiri eiginfjármyndun (þar sem hún er nánast alltaf vegna hærra markaðsverðs og þar með fasteignamats)? Hvað er það við eigninfjármyndunina sem gerir það að verkum að fólk hefur meira ráðstöfunarfé til að borga bæði hærri vexti og fasteignagjöld?
Ég tel mig alveg ágætlega góðan í stærðfræði og líka vera með rökhyggjuna í lagi, en það er alveg sama hvernig ég reikna og skoða rök, ég hef ekki enn fundið út hvernig eiginfjármyndun getur hjálpað mér að greiða reikninga án þess að nýta eiginfjármyndunina til að taka fleiri lán. Nokkuð sem ég er handviss um að seðlabankastjóri var ekki að leggja til. Þ.e. hann var ekki að leggja til að fólk skuldsetti sig til að eiga fyrir vöxtunum, enda hefur hann verið að hækka vextina til að draga úr lántökum! Ég veit það eitt, að pappírshagnaður hefur ekki fært neinum mat á borðið.
Til þess, að rök seðlabankastjóra eigi að ganga upp án þess að fólk skuldsetji sig meira, þá verður það að selja. Ég býst við því, að rökin séu einhvern veginn á þann veg, að ef húsnæði hækkaði í verði, þá hækki eigið fé og það væri hægt að hagnast vel á að selja húsnæðið. Þau rök krefjast hins vegar þess, að viðkomandi fasteignaeigandi fari í húsnæði sem er ódýrara en það húsnæði sem hann er að fara úr, haldi upphæð skulda svipaðri og áður og fái nægilega mikið á milli í viðskiptunum til að mismunurinn geri gott betur en að greiða kostnaðinn við eignaskiptin. Sem sagt, til þess að fasteigendaeigandi geti nýtt eiginfjármyndunina, eins og seðlabankastjóri vil meina að hann sé að hagnast svo mikil á, þá þarf hann að borga háar upphæðir til fasteignasala og leggja í mikinn kostnað við að flytja.
Nei, Ásgeir Jónsson, ég er hræddur um að sá sem setti þetta fram sem svar á prófi í stærðfræði, myndi ekki fá mikið fyrir það. Raunar veit ég ekki um neina fræðigrein, sem myndi telja þessa hugmynd vera gáfulega. Hún er nefnileg alveg arfavitlaus og illa hugsuð. Þó hún sé mögulega fræðileg snilld einhvers staðar í sýndarheimum, þá er hún það ekki í raunheimum. Hugsum málið til enda. Það felst ekki mikil fjármálasnilli í því, að greiða 1-3 milljónir fyrir að skipta um húsnæði til að geta greitt einhverja tugi þúsunda (og þó það væri yfir 100.000 kr.) á mánuði aukalega í vexti. Ekki beint gáfulegt. Fyrir utan, ef allir myndu vilja “kassa inn” á eignarmyndunina, þá myndi hún hverfa eins og dögg fyrir sólu í lækkandi markaðsverði.
Seðlabankastjóri talar um “nafnvaxtalán” sem eitthvað sérstaklega hagstætt fyrirkomulag, nánast eins og fólk sé að svindla á kerfinu. Mig langar að benda honum á, að Ísland er aðeins eitt af þremur löndum í heiminum, þar sem neytendum og þar með heimilum býðst eitthvað annað lánsform húsnæðislána, en “nafnvaxtalán”. Úti í hinum stóra heimi, þá bjóðast fasteignalán með lágum, föstum vöxtum út allan lánstímann. Með slík lánskjör, þá veit lántakinn nákvæmlega hvað hann þarf að greiða af láni sínu hvern einasta mánuð lánstímans. Hvenær ætlar Seðlabankinn að stuðla að innleiðingu slíkra lánskjara hér á landi? Það er, jú, hans að móta stefnuna, ekki bíða eftir að einhver annar geri það fyrir hann.
Ég ætla ekki að fara út í þetta með “raunvexti”, þar sem raungildi vaxta er miðað út frá verði mjólkurlítrans og annarra neysluvara. Samanburður sem mér finnst gjörsamlega glórulaus.
Hér má svo horfa á fund nefndarinar í fullri lengd og þá getur fólk myndað sér skoðun á svörum Ásgeirs en margir tala um að maðurinn sé bæði hrokafullur og dónalegur.
Skoðað: 1362