Mammonsdýrkun prestastéttarinnar með blessun biskups

Skoðað: 4360

Þegar allar gerðir hlunninda prestastéttarinnar eru teknar saman er ljóst að verulegir hagsmunir eru í húfi fyrir marga að halda í óbreytt ástand enda eru margir prestar á landsbyggðinni búsettir á hlunnindajörðum sem skila þeim milljónum og jafnvel tugum milljóna á hverju ári sem rennur beint í vasa þeirra sjálfra.

Um þetta má lesa í frétt á Rúv frá því 21. mai, síðasta vor en fréttin var svo uppfærð daginn eftir þar sem upplýsingar höfðu bæst við hana, en þar segir meðal annars:

Prestar sem nýta hlunnindi kirkjujarða fá samtals tugi milljóna króna árlega í arð af þeim. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, telur þetta fyrirkomulag ekki sanngjarnt, einkum þegar haft er í huga að margar sóknir á landsbyggðinni eigi i fjárhagserfiðleikum.

Prestar í stórum prestaköllum í þéttbýli geta að sama skapi hækkað tekjur sínar verulega með hinum ýmsu aukaverkum sem greitt er fyrir sérstaklega.

Gunnlaugur Stefánsson, prestur í Heydölum, hefur setið í Kirkjuráði frá árinu 1987. Hann varð þjóðþekktur þegar hann var kosinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn árið 1991 en hann gegndi bæði preststarfinu og þingmennskunni til 1995. Heydalir eru mikil hlunnindajörð en mestu hlunnindin liggja í æðarvarpi í Breiðdalseyjum.

Samkvæmt fasteignamati er æðarvarpið metið á rúmar 10 milljónir króna. Kirkjujörðin á einnig rúmlega 16% hlut í Breiðdalsá, sem í fasteignamati er metinn á tæpar fjórar milljónir kr. Til að halda utan um rekstur af dúntekju og laxveiðihlunnindum á kirkjujörðinni stofnaði Gunnlaugur einkahlutafélagið Háhólma.

Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008 námu tekjur af æðardúni og laxveiði rúmum 2,3 milljónum króna. Hagnaðurinn það ár var um 200.000 kr. Frá árinu 2009 hefur fyrirtæki Gunnlaugs hagnast um 1,5 milljón kr. Hreindýraarður sem tilheyrir Heydölum rennur beint til prestsins en frá árinu 2005 hefur Gunnlaugur fengið greiddar samtals tæpar 900 þúsund kr. úr þeim potti.

Kastljós fjallaði einnig um jörðina Valþjófsstaði á Fljótsdalshéraði en þar hefur Lára G. Oddsdóttir verið prestur frá 1998. Valþjófsstaðir hafa löngum verið taldir ein mesta kostajörð Austfjarða og hafa hlunnindi Láru verið umtalsverð frá byrjun. Árið 2004 fékk hún rúman helming af 15 milljón króna bótum frá Landsvirkjun, vegna rasks á kirkjujörðinni.

Lára sat beggja vegna borðsins á þessum tíma því hún sat í stjórn Prestsetrasjóðs sem þá fór með öll fjárhagsmálefni prestsetranna. Arður Láru af kirkjujörðinni er enn meiri. Frá árinu 2005 hefur Lára fengið allan arðinn af hreindýraveiðum, alls tæpar 11 milljónir kr., í eigin vasa. Jörðinni fylgir sauðfjárkvóti sem presturinn nýtir endurgjaldslaust. Lára Oddsdóttir sagði í samtali við Kastljós að þar sem hún væri ábúandi jarðarinnar fengi hún arðinn af kirkjujörðinni samkvæmt ábúðarlögum.

Á sama tíma og prestar moka tugum ef ekki hundruðum milljóna í eigin vasa eru margar kirkjusóknir á landsbyggðinni í verulegum kröggum þrátt fyrir að 85% þeirra sóknargjalda sem greidd eru í ríkissjóð renni til þjóðkirkjunar, en þess má að gamni geta, að aðeins 75% þjóðarinar er skráð í þjóðkirkjuna.
Þetta eru um fjórir milljarðar á ári og samt dugar það ekki til að halda uppi þjóðkirkjunni í landinu.

Nútíminn birti fyrir nokkrum dögum síðan dæmi um tekjur kirkjunar og prestastéttarinar og eru þær upplýsingar sláandi þegar maður horfir til byrjunarlauna lækna í landinu og tekur þá mið af námstíma beggja stétta.  Grunnlaun presta eru 514 þúsund krónur á mánuði. Það er nokkuð gott en grunnlaun nýútskrifaðs læknakandídats eru t.d. 330 þúsund krónur á mánuði. Þetta segir þó ekki alla söguna þar sem báðar stéttir fá viðbótartekjur fyrir ýmsa vinnu í störfum sínum.

Nóg um það því það sem þó er mest sláandi í þessu öllu saman, og af nógu er þó að taka, þegar Sigmundur Davíð, forsætisráðherra sendi Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi íslands, beiðni um að skrifa bréf til stjórnvalda um fjárveitingar til handa kirkjunni.
Hæg voru heimatök Sigmundar því sonur hennar hefur verið efnahagsráðgjafi Sigmundar og er einn nánasti vinur hans, dr. Sigurður Hannesson.

Nánar má lesa um þetta með því að smella hérna.

Að lokum er þess virði að skoða hvernig þessi mál vinda upp á sig og þá í ljósi þess hvernig siðferðið er hjá Biskupi, syni hennar, prestastéttinni og siðast en ekki síst hjá forsætisráðherra og þeim þingmönnum sem styðja þessa fjárveitingu þegar sú staðreynd blasir við almeningi í landinu og öllum þeim fjölda útlendinga sem les fréttir sem fluttar eru á erlendri tungu af þessum málum, að heilbrigðiskerfið er rústir einar og læknar flýja land í kippum.

Þetta, eins og svo margt annað í þessu þjóðfélgi sem augljóslega er á mjög gráu ef ekki nánast svörtu svæði siðferðilega, er eitthvað sem allur almenningur í landinu verður að opna augun fyrir og sporna á móti með öllum tiltækum ráðum.
Þessi hegðun sem að ofan er lýst er hreinlega ekki boðleg fólki sem hefur réttlætiskenndina í lagi.

Skoðað: 4360

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir