Krefjast þess að bankarnir dragi vaxtaokur og vaxtahækkanir sínar til baka
Skoðað: 1641
Hagsmunasamtök heimilanna ítreka kröfu sína fyrir hönd heimilanna í landinu um að bankarnir taki á sig byrðarnar með öðrum í samfélaginu og benda á þá staðreynd að heimilin eiga inni hjá bönkunum allt að 250% vaxtamun á húsnæðislánum.
Neytendur hljóta að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau sjái til þess að sú lækkun nái strax fram að ganga.
Hagsmunasamtök heimilanna ítreka að það er ólíðandi að bankarnir stingi mismuninum í eigin vasa, ekki síst í núverandi árferði.
Rökstuðningur og útreikningar á þeim vaxtalækkunum sem bankarnir skulda heimilunum
Þegar Seðlabanki Íslands hóf vaxtalækkunarferli sitt í maí 2019 voru stýrivextir 4,5%. Síðan þá hafa þeir í nokkrum skrefum verið lækkaðir niður í 0,75%, eða um 83%. Þegar það ferli hófst var ársverðbólga 3,6%, eða sú sama og hún er núna.
Þegar vaxtalækkunarferlið hófst voru lægstu vextir verðtryggðra húsnæðislána bankanna 3,55% en hafa síðan þá lækkað niður í 2%, eða um 44%. Á sama tíma voru lægstu vextir óverðtryggðra húsnæðislána bankanna 6,00% en hafa síðan þá lækkað niður í 3,5%, eða um 42%.
Ef vextir verðtryggðra húsnæðislána hefðu hins vegar þróast eins og stýrivextir og lækkað um 83% ættu þeir núna að vera komnir niður í 0,59%, en eru í dag um 2,0%. Ef vextir óverðtryggðra húsnæðislána hefðu jafnframt þróast eins og stýrivextir og lækkað um 83% ættu þeir núna að vera komnir niður í 1,0%, en eru í dag um 3,5%.
HH og almenningur á Íslandi átta sig alveg á því að Þó 1,41 prósentustiga munur á 0,59% og 2,0% vöxtum líti ekki út fyrir að vera mikill við fyrstu sýn munar samt heilum 239%. Að sama skapi nemur 2,5 prósentustiga munurinn á 1,0% og 3,5% heilum 250%.
Það er því augljóst að bankarnir skulda heimilunum enn frekari vaxtalækkanir!
Hagsmunasamtök heimilanna gera þá ófrávíkjanlegu kröfu að bankarnir skili vaxtalækkunum Seðlabanka Íslands áfram til heimilanna í landinu!
Yfirlýsingunan má lesa í heild sinni hérna.
Hagsmunasamtök heimilanna
Skoðað: 1641