Hvort mætir þú á mótmæli eða í hamsturshjólið?
Skoðað: 2315
Þeirri spurningu hefur oft verið velt upp af hverju það er ekki hægt að hafa mótmæli við Alþingishúsið á virkum degi þegar full starfsem er þar í gangi og svörin eru alltaf þau sömu: “Við þurfum að vera í vinnu á virkum dögum”.
Jú að sjálfsögðu þarf fólk að vinna, það segir sig sjálft. Það þarf að halda hamsturshjólinu gangandi fyrir fyrirtækin, atvinnurekendur, auðmennina, útgerðirnar og svo mætti lengi telja og alltaf þarf að auka framleiðni, snúa hamsturshjólinu hraðar og hraðar og pína sem mest út úr hverjum starfsmanni, auka framleiðni og nýtingu starfskraftsins út í það óendanlega, láta fólk hlaupa hraðar og hraðar þar til það krassar fyrir rest.
Þá er því hent og nýtt fengið í staðin. Úrvalið er óendanlegt.
Ekkert er tekið tillit til þess að fólk er farið að brenna út andlega og líkamlega mikið fyrr á ævinni en fyrir aldarfjórðungi síðan og ungt fólk í dag er raunar útbrunnið áður en það kemst á vinnumarkað vegna þeirra gríðalegu krafna sem samfélagið gerir til þess og ætlast til af því í námi, tómstundum og öllu öðru því sem fylgir því að vera barn, unglingur og ungur einstaklingur í framhalds eða háskóla.
Kröfur sem margir standa hreinlega ekki undir og sligast, brotna undan þeim og enda sem kvíðasjúklingar það sem þeir eiga eftir ólifað.
Er þetta það sem fólk vill í raun? Þræla sér út fyrir aldur fram fyrir skítalaun, enda á örorku með tekjur langt undir fátæktarmörkum eða ef fólk nær í ellilaunin að horfa upp þau skorin og skert þannig að ekkert verður eftir þannig að fólk varla skrimtir á þeim í einu ríkasta landi af auðlindum í heimi?
Þarf þetta virkilega að vera svona?
Á fólk virkilega að þurfa að sætta sig við að tekjum af auðlindum þeirra sé hreinlega stolið fyrir augunum á þeim þannig að eitt prósent þjóðarinar eigi nánast allan auð og allt fjármagn í landinu fyrir tilstuðlan gjörspilltra ráðamanna sem hafa komið hlutunum í þennan farveg árum og áratugum saman?
Að hinn almenni launþegi, öryrkjar og aldraðir fái ekki tekjur sem duga til framfærslu?
Nei að sjálfsögðu á það ekki að vera þannig og atburðir síðustu vikna hafa fært almenningi þá staðreynd að daglega er hann rændur um upphæðir sem eru venjulegu fólki óskiljanlegar. Upphæðir sem gætu gert það að verkum að fólk gæti haft það virkilega gott á Íslandi og lifað góðu lífi af átta stunda dagvinnu, að öryrkjar, fólk sem hefur misst heilsuna eða kanski aldrei haft hana, gætu lifað áhyggjulaust á örorkubótunum og jafnvel leyft sér smá munað af og til. Að þeir sem hafa unnið baki brotnu alla sína ævi og byggt upp íslenskt þjóðfélag fái að njóta elliárana án áhyggna og fjárhagserfiðleika en þurfa ekki að skrimta í fátækt og ömurð síðustu æviárin þar sem engin skiptir sér af þeim, börn og barnabörn hætt að koma í heimsókn og starfsfólkið sem á að hugsa um þau hreytir í þau ónotum og lítur bara á þetta fólk sem vandræði og fyrirhöfn sem það neyðist til að sinna.
Ekki af umhyggju heldur til að halda hamsturshjólinu gangandi og eiga fyrir salti í grautinn.
Kæri íslendingur!
Það er boðað til mótmæla á morgun, laugardaginn 23. nóvember klukkan tvö og þér, sem ábyrgur þjóðfélagsþegn sem er ekki sama um framtíð þína, barnana þinna eða barnabarna ber eiginleg og borgaraleg skylda að mæta og láta vita að þú villt ekki spillta stjórnmálamenn við völd í landinu.
Þú villt ekki stjórnmálamenn sem vinna bara að hag þeirra ríku og efnameiri á íslandi en hundsa vilja almennings og líta á sjúkt fólk og aldraða sem ónytjunga sem þarf helst að losa landið við, jafnvel þó það sé gert á þann viðbjóðslega hátt að halda kjörum þess svo lágum að það drepist vegna matarleysis, lyfjaskorts eða hreinlega fremji sjálfsmorð því þá geti þeir þvegið hendur sínar þó þær séu blóðugar upp að öxlum.
Kæri Íslendingur!
Sem þáttakandi í þjóðfélaginu og sem íslenskur ríkisborgari hefur þú skyldum að gegna, ekki bara gagnvart sjálfum þér heldur líka gagnvart samborgurum þínum, fjölskyldu þinni og börnum.
Kæri Íslendingur!
Hættu að sprengja þig á hamsturshjóli auðræðisins og sýndu og sannaðu að þú sért einhvers virði og mættu á Austurvöll klukkan 14:00 á morgun.
Skoðað: 2315