Hvernig ráðamenn á Íslandi niðurlægja þjóð sína á erlendum vettvangi
Skoðað: 2120
Það þarf oft ekki nema eina blaðagrein í erlendum fjölmiðli til að sýna fram á hvað íslenskir stjórnmálamenn geta verið skammsýnir og blindir á eigin gerðir og athafnir í störfum sínum. Sett í alþjóðlegt samhengi og þýdd yfir í erlend tungumál líta ummælin gjarnan út eins og þröngsýn vitleysa – sem þau eru auðvitað.
Í blaðagrein sem birtist í The Guardian föstudaginn 15. nóvember síðastliðinn er farið er lauslega yfir Samherjamálið sem frægt er orðið. Dregin eru fram orð ráðamanna á Íslandi og hvernig þeir bregðast við eftir að málið kom upp. Vitnað er í Bjarna Benediktsson þar sem hann segir rót vandans sennilega liggja í spillingu í Namibíu. The Guardian ályktar réttilega út frá þessu að ‘hinn ráðandi Sjálfstæðisflokkur’ kenni spillingarmenningu í Namibíu um skandalinn.
Hvað ætli manneskja í Bretlandi hugsi þegar hún sér svona viðbrögð ráðamanns við frétt af því að fyrirtæki í landinu hans hafi orðið uppvíst að því að arðræna fátæka þjóð í stórum stíl?
Hugsar hún „Já þetta er sko alveg rétt hjá honum, algjör óþarfi að hugsa eitthvað um ábyrgð Íslendinga, þetta er alveg greinilega Namibíumönnum að kenna að vera svona spilltir og láta taka sig svona.“?
Er það líklegt?
Nei, það er sennilega líklegt að hún hugsi sem svo að þarna tali maður sem vill ekki horfast í augu við eigin ábyrgð. Þetta virkar því miður í suma Íslendinga af því við erum föst í meðvirkni og afneitun, föst í því að vilja ekki viðurkenna hversu ömurlega rotin við getum verið. Eina leiðin til þess að fá einhverju breytt hérna er oft sú að við förum að skammast okkur nægilega mikið yfir áliti annarra á okkur. Innri skömm virðist hins vegar vera takmarkaðri auðlind á Íslandi. Þetta spilar Bjarni Ben inn á og gerir það satt best að segja bara vel. Hann veit að fólk vill ekki hugsa um þessa hluti of mikið, vill frekar að einhver komi og taki af því skömmina. Hann var fljótur að setja út skrif á Facebook þar sem hann talaði um að það væri engin ástæða til að tala um að Ísland sé eitthvað spillingarbæli af því að við erum svo frábær.
Málið er hins vegar að það að vera í alvörunni frábær, í alvörunni sáttur við sjálfan sig, kemur ekki í lífinu nema þegar maður hefur tekið sig rækilega á, girt sig í brók og axla almennilega ábyrgð. Það sama gildir hjá þjóðum, það er ekki nóg að berja sér bara á brjóst og kenna einhverjum öðrum um, fórnarlömbunum manns, heldur þarf að þrífa upp skítinn þegar hann kemur upp. Bjarni vill ekki þrífa skítinn, hann vill bara sópa honum undir teppið og halda partýinu gangandi.
Við Íslendingar viljum eiga okkar fiskiauðlindir sjálfir og erum ekki hrifin af þeirri að aðrir komi og sogi þær upp og taki arðinn af henni úr landi. Það er hins vegar nákvæmlega það sem Samherji, íslenskt fyrirtæki, gerði við Namibíubúa. Við getum nákvæmlega ekkert sagt um einhvern rétt okkar til okkar eigin auðlinda ef ráðamenn okkar geta ekki hunskast til að viðurkenna að svona gerir maður bara ekki. Með Bjarna í brúnni er það samt líklega aldrei að fara að gerast.
Skoðað: 2120