Réttlæti hinna ríku
Skoðað: 1944
Það hefur vakið athygli mína hvernig réttlætið vinnur að hagsmunum ákveðinna hópa í samfélaginu okkar. Við höfum orðið vitni að því að skipun dómara í dómstig landsrétts var ólögleg og ef við lítum aftur í tíman þá eru fleiri dæmi um það að dómarar hafa verið pólitískt skipaðir með sama hætti.
Þegar maður fer að skoða hvernig sum mál hafa verið felld á tækniatriðum og önnur nánast ekkert verið rannsökuð þá fer maður að spá í því hvernig skipað hefur verið í embætti lögreglustjóra og sýslumanna. Þá blasir við manni spillingin í öllu sínu veldi.
Við sem Íslendingar getum ekki verið þess fullviss um að fá réttláta málsmeðferð ef einstaklingurinn sem við mætum í réttarsalnum, eða verið er að rannsaka vegna brota gegn okkur er í réttum stjórnmálaflokki.
Hvað þýðir þetta fyrir réttarríkið okkar?
Með lögum skal land byggja, er setning sem flest allir Íslendingar þekkja. Hún er grafin á legstein Haralds hárfagra, fyrsta konungi Noregs, og ég er nokkuð viss um að hann er búinn að taka nokkra snúninga í gröfinni vegna notkunnar okkar Íslendinga á þessari setningu.
Ef æðsta stétt þessa lands getur ekki tekið puttana úr okkar dómskerfi sem er undirstaða réttarríkisins í okkar samfélagi, þá höfum við ekki sömu réttindi. Við erum undir þegar kemur að réttlæti samfélagsins.
Viljum við vera þar?
Fyrir mér, sem hef nú gert mitt besta og barist fyrir lífi og heilsu fólksins í okkar landi, þá er myndin af okkar samfélagi orðin heldur svört. Og ekki út af því að ég er eitthvað svartsýn á það hvernig staðan er heldur hef ég sett mikinn tíma í það að skoða samfélagið okkar frá nánast öllum hliðum. Spillingin og misskipting auðs er að ganga frá okkar samfélagi.
Engin heilvita ungur Íslendingur, sem ekki er fæddur í réttu fjölskylduna, sér sér fært að skapa sér líf á Íslandi, tækifærin eru í öðrum löndum þar sem það skiptir ekki máli í hvaða fjölskyldu þú ert eða stjórnmálaflokki.
Svo er líka veðrið miklu betra á öðrum stöðum, maturinn miklu betri því fólk sem fer erlendis þarf ekki að borða ríkiskjötið sem framleitt er með styrkjum í nafni “sjálfbærni” og talandi um sjálfbærni. Sjálfbærni fiskveiða í kringum Ísland er stöðugt stefnt í hættu með óhóflegum veiðum á loðnu sem er undirstaða fæðu þorsks á hrygningartímanum en samt erum við með kvótakerfi. Og í nafni sjálfbærni, en aðeins að nafninu til, því það kerfi er einungis til þess að tryggja einokun á auðlindinni okkar í höndum einstaklinga sem að hafa engan áhuga á því að skapa velsæld og sjálfbærni.
Við sjáum framferði Samherja í Namibíu. Og ekki gleyma bæjarfélögum sem nýtt hafa fiskin fyrir utan höfnina í aldanna rás á Íslandi. Allar þær brotnu byggðir sem að hafa nánast lagst í eyði vegna samþjöppunar og græðgi.
Tímin okkar á þessari jörð er stuttur okkur ber skylda til að skapa jöfn tækifæri fyrir alla. Réttlæti, hreint loft, góða heilbrigðisþjónustu og tíma til þess að lifa og leika sér. Þau tækifæri eru ekki á Íslandi.
Og verða ekki á Íslandi.
Ef við gerum ekki neitt.
Skoðað: 1944