Opið bréf til Ríkisstjórnar Íslands! Afnemið skatta á allar greiðslur lífeyris frá Tryggingastofnun
Skoðað: 3136
Það var hreint ótrúlegt og skelfilegt að hlusta á tillögur ríkisstjórnarinar á dögunum þar sem lagt var til að létta á fyrirtækjum landsins með því að afnema gjöld og skatta sem lögð eru á þau svo þau komist í gegnum krísuna sem er fyrir höndum vegna COVID-19 en ekkert var minnst á þá sem verst standa í þjóðfélaginu, öryrkja og aldraða. Fyrir þá á greinilega ekkert að gera nú þegar búið er að loka fyrir allar hjálparmiðstöðvar sem hafa hlaupið undir bagga með fátækasta fólkinu þegar það á ekki fyrir mat handa börnunum sínum. Þau eiga bara að svelta þangað til krísan er gengin yfir.
En fyrst ríkissjóður er allt í einu svo efnaður að það er hægt að fella niður tug ef ekki hundruð milljóna skatttekjur sem annars kæmu í ríkissjóð þá hlýtur að vera hægt að koma til móts við öryrkja og aldraða með mjög einföldum hætti. Svo einföldum að meira að segja bæði ráðherrum og þingmönnum landsins ætti að vera það ljóst þrátt fyrir að vitið sé alla jafna ekki mikið að þvælast fyrir þeim, það þarf bara viljan til að framkvæma það og ætti ekki að taka meira en tvo til þrjá daga, mesta lagi viku ef rétt er að staðið.
Hér er tillagan hrein og ómenguð.
Fellið niður alla skatta af greiðslum úr almannatryggingum þannig að allar bætur almannatrygginga verði skattfrjálsar.
Þetta getur ekki kostað ríkissjóð meira heldur það að fella niður þau gjöld sem hefur verið ákveðið að fyrirtæki í landinu hafa fengið og þetta yrði mikil kjarabót fyrir bótaþega, (djöfull er þetta viðbjóðslega ljótt orð) sem eiga allt sitt undir greiðslum almannatrygginga.
Við hvetjum fólk til að senda þessa grein á alla þingmenn og ráðherra, varaþingmenn og ráðaneytin til að vekja athygli á þessu.
Skoðað: 3136