Kevi kemur heim, og hvað svo?

Skoðað: 13835

Hörður H. Hannesson sendi okkur þessar hugleiðingar sínar sem eru vel þess virði að lesa með athygli og lesa hana alla áður en fólk dæmir.

Ótrúleg hræsni "góðu" íslendingana.
Ótrúleg hræsni “góðu” íslendingana.

Ég bara verð að tjá mig aðeins um málefnin sem eru í gangi í dag, því ég er algjörlega og með öllu hættur að skilja fólk í dag.

Mig langaði að bera saman 2 málefni sem eru mikil hitamál í dag, kjarabætur aldraðra og öryrkja, og meðferð útlendingastofnunar á máli Albönsku fjölskyldunnar sem var sparkað úr landi um miðja nótt með langveikan dreng.

En fyrst langar mig að segja (mjög) stuttlega frá mér.

Ég er öryrki í dag.
Litli bróðir minn er langveikur (öryrki).
Mamma mín er öryrki (vegna álags við að eiga langveikt barn).
Ég hef verið útlenskur innflytjandi.

Það sem ég er hættur að skilja geta kannski sumir séð á meðfylgjandi skjáskotum sem ég tók af Facebook-inu mínu.  Sumir eiga eflaust eftir að halda að ég sé útlendingahatari eftir næstu setningu, en ég ætla að taka sjénsinn.
Samkvæmt þessum myndum þá höfðu um 1.700 manns það sterka skoðun á málefnum Albönsku flóttamannanna að þeir mættu á mótmæli vegna brottrekstrar þeirra en einungis 86 manns styðja öryrkjana og gamla fólkið okkar í þeirra kjarabaráttu.

Ekki dæma mig alveg strax, leyfðu mér að klára!
Það sem ég er að furða mig á að svona margir einstaklingar láti þetta mál einstakrar fjölskyldu sig varða en ekki mál sem að snertir hundruði, ef ekki þúsundir fjölskyldna hér á landi.  Það er einsog fólk átti sig ekki á því að það á eftir að tilheyra þessum hópi fólks, öryrkjum og öldruðum, fyrr eða síðar, hvort sem því líkar það betur eða verr.

Það þarf bara eitt slys.
Það þarf bara eitt gallað gen.
Það þarf bara eitt áfall.
Það þarf bara að anda í 67 ár.
Það þarf bara eina frumu til að skipta sér vitlaust…
…og það fer á stað ferli innra með þér sem þú hefur enga stjórn á, getur ekki stöðvað, getur ekki tekið til baka, og alltíeinu tilheyrir ÞÚ þessum hópi sem að margir kalla aumingja og afætur kerfisins. Hópi sem þú, í þínum hroka, segist þurfa að halda uppi með þínum skattpeningum. Hópi sem þú, í þínum hroka, segir að eigi bara að drullast til að vinna. Hópi sem þú, í þínu hroka, heldur að þú eigir aldrei eftir að tilheyra.

Gerið þið ykkur grein fyrir því að Kevi, tilheyrir þessum hópi líka ?
Hann er ekki bara Albanskur flóttamaður, hann er LANGveikur, hann er líka öryrki. Það er greinilegt að mikið af því fólki sem að vill fá Kevi og hans fjölskyldu aftur hingað, og er tilbúið til að berjast fyrir því, er alveg sama um þetta fólk, svo lengi sem það fær að vera hérna. Það mun ekkert frekar taka upp hanskann fyrir þennan dreng heldur en fyrir afa sinn og ömmu, vin sinn sem að lenti í vinnuslysi, vinkonu sem missti barnið sitt og náði sér ekki eftir það, foreldra, frændur eða frænkur, bræður og systur, sem að töpuðu í lottóinu um „normal“ líf. Það er það sem ég sé á þessu Facebook skjáskoti mínu.

Þannig, þið sem haldið að það eina sem þarf til að þessi drengur og hans fjölskylda þurfi til að lifa hamingjusömu lífi er að koma til Íslands, hugsið aðeins lengra og hjálpið ekki bara þeim, heldur öllum  hinum líka, þið gætuð þurft á því að halda sjálf einhverntímann, þegar þið hafið ekki orkuna, eða jafnvel lífsviljann til að hafa áhrif.

Hörður H. Hannesson
Aumingi og afæta

Skoðað: 13835

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir