Baráttan er byrjuð og almenningur þarf að vera meðvitaður
Skoðað: 1750
Smá yfirlýsing frá eiganda til ykkar lesenda vegna stofnun nýs undirflokks hér á Skandall.is vegna komandi kosninga í haust.
Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og þó svo fólki sé yfirleitt meinilla við að þurfa að hugsa um stjórnmál á þessum árstíma þá er það því miður aldrei nauðsynlegra en fyrir komandi kosningar í haust.
Nú þegar hafa formenn stjórnarflokkana gefið það út opinberlega að þeir vilji halda samstarfinu áfram eftir kosningarnar í haust en eftir reynslu af þessu flokkasamstarfi síðustu fjögurra ára þá eru margir hópar þjóðfégagsins sem hryllir við því að sjá þetta fólk áfram við stjórn landsins.
Helst eru það öryrkjar, aldraðir og lágtekjufólk sem sjá ekkert annað en dauðan í þremenningunum sem nú standa fyrir ríkisstjórn íslands enda tala verkin sínu máli, máli fátæktar og eymdar hjá þessum hópum og í fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar til næstu fimm ára er ekkert, nákvæmlega ekkert sem gerir ráð fyrir því að tekjutengingar verði afnumdar hjá fátækasta hópnum eða að bætur almannatrygginga hækki nema þeim skitnu þrem prósentum um hver áramót þrátt fyrir að 69. grein almannatryggingalaga segi annað og sé brotin á hverju ári árum saman.
Námsmenn hafa ekki farið varhluta af aðgerðum þessarar ríkisstjórnar og meira að segja á þeim voru brotin lög þegar þeim var synjað um atvinnuleysisbætur í faraldrinum þrátt fyrir að hafa unnið með námi.
Á sama tíma horfði almenningur upp á það að fyrirtækjum sem höfðu greitt sér fúlgur fjár í arðgreiðslur fengu gríðarlegar fjárhæðir frá ríkinu til að segja upp starfsfólki og til að halda sér gangandi meðan stjórnendur þeirra greiddu sér margföld laun þeirra sem höfðu unnið hjá þeim, í hverjum mánuði.
Þessi ríkisstjórn sem nú er að renna sitt skeið á enda hefur ekki verið að vinna fyrir almenning í landinu en dekrað og mulið undir auðugasta fólkið, létt af því sköttum og gjöldum sem hefur orðið til þess að nú þarf að níðast enn meira á almenningi í landinu.
Það er fátt af þeim málum sem VG lagði upp með í stjórnarsáttmálanum sem þau hafa komið í gegn á kjörtímabilinu og gott að rifja upp orð Drífu Snædal þegar hún sagði að þetta stjórnarsamstarf yrði fyrir VG eins og að éta skít í fjögur ár og það hefur gengið eftir.
Það verður farið betur og nákvæmar í þetta á næstu vikum og mánuðum eftir því sem tími og heilsa undirritaðs leyfir en fyrst og síðast verður það haft að leiðarljósi að sannleikurinn er sagna bestur og staðreyndir mega aldrei víkja fyrir sérhagsmunum hentisemistefnu. Það er bara ekki í mínu eðli að gera slík.
Með vinsemd og virðingu, Jack H. Daniels.
Skoðað: 1750