70 til yfir 100 % skattur og skerðingar á launum lífeyrisþega sem fara í vinnu
Skoðað: 6016
Í hvert sinn sem rætt er um hvernig hægt sé að fjölga öryrkjum á vinnumarkaði er algjörlega horft fram hjá þeirr staðreynd að lífeyrisþegar sem geta unnið eitthvað fá á sig svo miklar skerðingar vegna handónýtra laga um almannatryggingar, að þeir sjá sér engan hag í því að fara út á vinnumarkaðinn. Auk heldur eru fáir atvinnurekendur tilbúnir að taka fólk í vinnu sem gæti fyrirvaralaust verið frá vegna veikinda sinna eða sjúkdóma en þar gætu ríkið og sveitarfélög stigið fyrsta skrefið því þar væri oftar en ekki hægt að skipta út með tveir fyrir einn í fimmtíu prósent starf við símavörslu eða léttari störf innan stofnana og fyrirtækja á vegum þeirra.
Tökum eitt dæmi um einstakling sem er öryrki í sambúð, fær 110 þúsund frá lífeyrissjóði og fer í vinnu þar sem hann fær 250 þúsund í heildarlaun. Hann er með 50% skattkort hjá TR, 50 hjá lífeyrissjóðinum og þar af leiðandi ekkert skattkort hjá vinnuveitanda.
Sjá myndina hér að neðan.
Þessi einstaklingur fær því aðeins rétt um 150 þúsund ofan á bæturnar útborgað þegar búið er að skerða og skattleggja allt heila klabbið.
Tökum annað dæmi og nú af öryrkja sem fær eingöngu bætur frá TR og er ekki í sambúð og ekki með neinar lífeyrissjóðstekjur.
Það er ekki lítið sem munar í þessum tveim tilfellum og svo sannarlega ekki hvetjandi fyrir lífeyrisþega að fara út á vinnumarkaðinn þegar allt er rifið af þeim í formi skatta og skerðinga í þeim eina tilgangi að halda þeim í fátæktargildrunni hvað sem tautar og raular.
Halda stjórnvöld og ráðamenn að þetta sé ódýrara fyrir ríkið þegar upp er staðið?
Það er orðið bráðnauðsynlegt að koma vitinu fyrir þetta algjörlega glórulausa og viti fyrrta lið sem situr í velferðarnefnd, velferðarráðuneytinu og í ríkisstjórn Íslands sem virðist hvorki hafa vit né þekkingu á þessum málaflokki sem þeir eiga að sjá um.
Það má svo alveg bæta því hérna við þessa grein, að í dag er lágmarksframfærsla einstaklings sem býr einn á höfuðborgarsvæðinu, sem Velferðarráðuneytið miðar við að fólk eigi að geta komist á af, fyrir utan húsnæðiskostnað, 223.046,- krónur á mánuði en leiguhúsnæði í dag á höfuðborgarsvæðinu getur kostað frá 70 og upp í 220 þúsund ef því er að skipta. Ekkert tillit er tekið til þess og þetta er ein af ástæðum þess að fjöldi öryrkja býr í ósamþykktu húsnæði, eða eins og segir í frétt RÚV;
Aldrei hefur verið erfiðara fyrir öryrkja að fá þak yfir höfuðið, segir framkvæmdastjóri hússjóðs Öryrkjabandalagsins. Tæplega 400 bíða eftir húsnæði þar og biðlistinn lengist bara.Fjóla Stefánsdóttir, sagði sögu sína í fréttum í gær. Hún er 65 ára og er öryrki og hefur búið í hjólhýsi frá því í ágúst. Hún hefur ekki efni á að leigja á almennum markaði og hefur beðið lengi eftir íbúð í félagslega kerfinu. Hún er ekki ein því það bíða 880 eftir félagslegum íbúðum í borginni. Biðlistinn hjá Brynju hússjóði Öryrkjabandalagsins hefur líka lengst.
Björn segir að sumir búi á götunni, aðrir séu hjá ættingjum. „Síðan eru margir í húsnæði sem er algjörlega óviðunandi, bæði í iðnaðarhúsnæði og húsnæði sem er ætlað sem geymslur og annað. Maður getur eiginlega ekki lýst því,“ segir hann. „Það er nú bara það slæmt að maður getur ekki gert sér í hugarlund hvernig það er.“
Björn segir að sveitarfélögin verði að úthluta fleiri lóðum undir litlar íbúðir og bindur vonir við nýtt stofnframlagakerfi félagsmálaráðherra. Þeir sem bíða eftir íbúðum hjá Öryrkjabandalaginu glíma sumir við geðsjúkdóma, aðrir hafa orðið öryrkjar vegna erfiðra veikinda og lent í fjárhagskröggum vegna þess. Björn hefur áratuga reynslu af málaflokknum og lýst ekki á stöðuna.
„Hún hefur aldrei verið eins slæm og hún hefur verið í dag. Maður hélt fyrst að þetta yrði mjög slæmt eftir hrun en ástandið er mun verra en það var 2009 og 2010,“ segir Björn.
Þrátt fyrir þetta er ekki allt búið því enn er saumað að lífeyrisþegum því í morgunn gaf velferðarráðuneytið það út að uppbætur fyrir Júlí og Desember koma til með að skerðast og lækka í kjölfar þeirra laga sem tóku gildi um síðustu áramót. Þökk sé Eygló Harðardóttur, fyrrverandi velferðarráðherra sem á heiðurinn af þeim lögum.
Það er alveg sama hvert litið er í stjórnkerfinu þegar kemur að þeim verst settu í þjóðfélaginu, alltaf er ráðist á þá og þeim gert að taka á sig skattahækkannir og skerðingar sem rýra lífskjör þeirra, hrekja þá út í að fremja sjálfsvíg eða hreinlega gera það sem skynsamlegast er, koma sér burt af landi okurs og spillingar og setjast að þar sem þessar lúsarbætur sem þeim eru skammtaðar, duga þeim til framfærslu.
Skoðað: 6016