Að réttlæta þjófnað ríkisins á lífeyristekjum eldri borgara og öryrkja

Skoðað: 3089

Takið eftir illskusvipnum á Bjarna.

Það er tíund nóvember og bankareikningurinn er tómur en búnki af reikningum bíður þess að verða borgaður eða fara í vanskil á næstu dögum.  Sumir eru þegar komnir á eindaga og á leið í innheimtu þar sem leggjast á þá vextir, dráttarvextir og vanskilagjald auk þóknunar frá innheimtufyrirtækinu.
Í ískápnum eru tvær mjólk, lítið eitt af grænmeti og matur fyrir næstu tvo daga.  Frystirinn geymir dálítið af kjötvöru sem keypt var á útsölu, aðalega hakk og annað sem geymist vel í nokkrar vikur án þess að skemmast.
Ekki er til peningur fyrir ferskvöru það sem eftir lifir mánaðarins.

Þetta er sá raunveruleiki sem þúsundir íslendinga lifa við í hverjum einasta mánuði og hafa gert jafnvel árum saman því af þeim lúsarlaunum, örorkubótum eða ellilífeyri, eða hvaða nafni sem fólk kýs að kalla þessa smán sem ríkið skammtar þeim, dugar engan vegin fyrir framfærslu út mánuðinn hjá þeim sem þurfa að komast af á lægstu launum eða bótum almannatrygginga.
Það er staðreynd.

Þeir sem hafa unnið allt sitt líf og greitt í lífeyrissjóði er síður en svo betur settir en þeir sem fá strípaðar bætur almannatrygginga því ríkið hirðir allt af þeim á þeim forsendum að ríkið eigi ekki að halda uppi lúxuslífsgæðum fólks sem fær “ellilífeyri” frá lífeyrissjóðum og ekki er staða þess fólks sem missti heilsuna langt fyrir aldur fram og lenti á örorku neitt betri því þó þetta fólk fái greitt frá lífeyrissjóðunum þá hirðir ríkið af þeim mismunin.

Fjármálaráðherra reyndi meira að segja að réttlæta þennan þjófnað ríkisins í fyrirspurn Guðmundar Inga á Alþingi þann 6. nóvember síðastliðin þegar hann sagði orðrétt:

Þegar hv. þingmaður talar um skerðingar finnst mér að hann horfi gersamlega fram hjá þeirri staðreynd að í bótakerfum ríkisins, sem við rekum saman, erum við með viðleitni til að tryggja að þeir takmörkuðu fjármunir sem við höfum úr að spila rati til þeirra sem eru í mestri þörf. Þá byrjum við að taka frá þá sem hafa aðra tekjustofna, þá sem hafa úr einhverju öðru að spila. Það er leið okkar til að tryggja að þeir takmörkuðu fjármunir sem við höfum fari fyrst til þeirra sem hafa minnst, sem hafa ekkert, sem hafa engin lífeyrisréttindi, búa einir eða hafa engar atvinnutekjur. Það er fólkið sem við setjum fremst í röðina.

Þetta eru rökin sem fjármálaráðherra notar til að réttlæta skerðingar á lífeyri öryrkja og aldraðra.  Að stela frá einum fátæklingi og draga hans tekjur niður með skerðingum sem er ekkert annað en hreinn og klár þjófnaður af hálfu ríkisins eru rök hins gjörsamlega siðspillta, óheiðarlega og algjörlega óhæfa fjármálaráðherra sem sjálfur hefur ekkert fjármálavit ef marka má þær þúsundir milljóna sem hann og fjölskylda hans hefur fengið í afskriftir á liðnum árum vegna þess að hann hefur hvorki fjármála né viðskiptavit nema að því marki að keyra öll fyrirtæki sem hann hefur rekið eða verið í forsvari fyrir í þrot og láta síðan almenning í landinu borga afskriftirnar.

Daglega og jafnvel oft á dag fáum við sögur frá fólki út um allan heim, íslendingum búsettum erlendis sem eiga erfitt með að ná endum saman þó svo lífið erlendis sé mun auðveldara en á gamla fróni en samt dugar framfærslan frá íslandi illa til að halda sér uppi en fólk er þó ekki að missa reikninga í vanskil og nær oftast að skrapa saman fyrir mat og lyfjum út mánuðinn sem það ætti ekki minnstu möguleika á að gera á íslandi.

Að vera með gjörsamlega siðblindan milljónamæring í fjármálaráðaneytinu sem aldrei hefur þurft að spá í hvað daglegir hlutir kosta, hvort hann hafi efni á því að veita sér þetta eða hitt í mat eða drykk heldur dregur bara upp kortið og borgar er eitthvað sem er algjörlega á skjön við hinn almenna borgara sem þarf að velta hverri krónu tvisar, þrisvar og jafnvel fjórum sinnum, stinga henni svo í vasan og hætta við að kaupa kubbasteik í sunnudagsmatinn en lætur sér nægja rónasteik í staðin.

Það er ekkert líf fyrir eldri borgara og öryrkja að þurfa að sitja í stofufangelsi heima hjá sér mánuðum og árum saman og geta aldrei leyft sér nokkurn skapaðan hlut hvort sem það er bíó, leikhús eða út að borða því sveltistefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur með Bjarna Benediktsson í forsvari fjármála ætlast til þess að þetta fólk borgi bara sína reikninga, húsaleigu og láti sér síðan duga að sitja aðgerðarlaus og afskipt í andlegu tómarúmi fátæktar og einsemdar það sem eftir lifir mánaðar eða þar til kemur að næstu útborgun og endurtaki þá sömu söguna.  Mánuð eftir mánuð.  Ár eftir ár þar til viðkomandi gefst að lokum upp og tekur sitt eigið líf í verstu tilfellum.

Nú styttist í jólin og það er sá árstími þegar flestir gefast upp á lífinu og ákveða að nú sé komið gott, þetta ástand muni ekkert lagast þeir sjá þingmenn og ráðherra landsins fá feita jólabónusa, rúmlega hálf laun öryrkjans en öryrkinn fær skitinn 10 til 30 þúsund kall í besta falli í jólabónus sem síðan er rifin af honum eftir áramótin með skerðingunum sem Bjarni telur réttlætanlegar eins og áður er nefnt.
Hvað ætli margir öryrkjar og aldraðir eigi eftir að taka líf sitt núna í nóvember og desember?
Sennilega þó nokkrir og í excelskjölum fjármála og velferðarráðherra verða þetta bara tölur sem sýna fram á örlitla fækkun, ekki á fólki.  Ekki á öryrkjum.  Ekki öldruðum.  Nei engin fækkun heldur lækkun á greiðslum almannatrygginga milli mánaða.
Það er allt og sumt.

Hér er fyrirspurn Guðmundar og svör Bjarna.

Lifið heil.

Skoðað: 3089

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir