Hremmingar þeirra sem veikjast til langframa

Skoðað: 755

Öryrkjar þessa lands og fatlaðir eru upp á guð og lukkuna komin þegar kemur að því að draga fram lífið á þessu vindbarða eldfjallaskeri úti í norðuríshafi sem við köllum heimili okkar.

Einhvernveginn virðist svo vera sem að kerfið hafi gjörsamlega brugðist notendum sínum, þegnum þessarar þjóðar og þá helst lítilmagnanum, þeim sem verst og sárast hafa það í þjóðfélaginu.
Öryrkjar, fatlaðir og aldraðir eiga margir í vök að verjast í þjóðfélaginu, í því þjóðfélagi sem ríkisstjórn Íslands og kerfið hafa skapað okkur, en það eru jú þau sem setja stefnumótunina og reglurnar.

Ástandið er í raun skelfilegt. Margar fjölskyldur lifa á fátæktarmörkum, þótt hæstvirtir ráðherrar vilji halda öðru fram. Hérlendis er oftast nær lyfjaskortur og vantar oft tilhlýðileg lyf svo vikum skiptir og oft þarf öryrki að ferðast á milli apóteka til að komast í sín lyf, því að þau eru til af svo skornum skammti hér á landi.

Svo er það heilbrigðiskerfið okkar, öryrkjar eru flestir okkar veikasta fólk og þurfa bæði á lyfjum og mikilli læknisaðstoð að halda. En heilsugæslukerfið er gjörsamlega sprungið, það tekur tímana tvenna að ná sambandi inn á heilsugæsluna oft á tíðum og svo taka við viku, jafnvel mánaða biðir eftir því að komast að hjá heimilislækni, sem sjálfir hafa sagt að of mikill tími þeirra sjálfra fari í skriffinnsku.
Bráðamóttakan sem þeir sem allra veikastir eru, hafa leitað til, er núna hættulegur staður, sökum manneklu og bugunar starfsfólks.

Ég ætla að taka tvo menn sem dæmi, báðir eru Íslendingar og báðir tiltölulega ungir að árum. Báðir þessir menn hafa hlotið heilaskaða og hafa keyrt á veggi í samfélaginu fyrir vikið.

Aðili 1 er sá sem ritar þennan texta. Hann er 46 ára, 3ja barna faðir. Hann var 41 árs þegar að hann fékk massíva heilablæðingu sem kom út frá meðfæddum en ókunnum galla í heila. Hann fór afar illa út úr téðri blæðingu vegna stórvægilegra mistaka sem voru gerð innan heilbrigðiskerfisins þegar að sjúkraflutningamenn ákváðu að sjúkdómsgreina hann sjálfir (rangt auðvitað) og skildu hann eftir heima með blæðingu inn á heila í tæpa 2 sólarhringa. SAH blæðingar líkar því sem hann fékk eru í nær 40% tilfella dauðadómur um leið og blæðingin verður og 20% ofan á það deyja innan viku. Þannig að það er 60% líkur á dauða og undirritaður því sérdeilis heppinn að vera hér að skrifa þennan texta.

Aðili 1 skrifaði þennan pistil í aðsendri grein í vikunni um Úrræði fyrir Heilaskaðaða, lýsir þessu flestu í stórum dráttum:

https://skessuhorn.is/adsendar-greinar/langtimaurraedi-heilaskadadra/?fbclid=IwAR2-sQTyqQnC8dmVs0dpmnbyYj8mEOAgbNbd6hEMh2qn-BsxAmMKHh5Y9LA

Aðili 2 er yngri, hann er 38 ára, hann er einhleypur en á eitt barn, hann varð fyrir heilaskaða er hann varð fyrir tilefnislausri árás sturlaðs fíkniefnaneytanda í miðborg Reykjavíkur. Þessi maður hefur átt erfitt með að feta sig aftur í lífinu, hann eins og svo margir sem hafa alvarlegan heilaskaða geta ekki unnið heilan vinnudag og hann hefur lent í massívum skerðingum TR af því að hann fékk í byrjun of hátt borgað en á í dag að sleikja saltið af götunum til að draga fram lífið fyrir vikið. Hann því miður hefur lagt út í þann róður að biðja um styrki á Facebook, með misjöfnum árangri, en þannig virkar eða virkar ekki heili heilaskemmdra og þeir gera oft hluti sem þið hin mynduð aldrei taka upp á.

Það er eitt að reyna að skýra út fyrir fólki að maður sé veikur, að maður sé öryrki, en að ætla að skýra út fyrir fólki hvernig heilaskaði virkar eða virkar ekki er nánast vonlaus verknaður.

Heilaskaðaðir þurfa að geta sótt í stuðning upp á hvern einasta dag, sótt í sálfræðinga, iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, hugræna þjálfun, talþjálfun, lært hugleiðslu eða eitthvað sem róar hugann og svo margt fleira, það þyrfti að vera til opin stofnun fyrir heilaskaðaða.

Ég svo sem býst ekki við miklum stórvirkjum á næstunni frá ríkisstjórninni eða kerfisköllunum, þótt loforðaflaumurinn sé litaður öllum heimsins litum, þá hentar það þeim best að halda okkur hoppandi á barmi fátæktarpollsins. En kannski er möguleiki að manni takist að nudda inn einhverri smá skynsemi hjá einhverjum þeirra sem skipta máli og það verði eitthvað gert til að ýta við málum öryrkja og fatlaðra og þá sérstaklega þeirra sem ég berst helst fyrir, heilaskaðaðra.

Ég veit að fæst ykkar ná að tengja við þetta en þar sem að allir geta lent í slysum hvenær sem er á lífsleiðinni og fengið höfuðáverka eða fengið einhverskonar heilaskot/blæðingu, þá er vert að minnast á þetta jafnt á við hjartasjúkdóma og krabbamein.
Ég vona að ég nái að koma þessu málefni inn á borð þeirra sem máli skipta í þjóðfélaginu og að við sem eigum bágt í heilanum getum farið að sækja í einhverskonar úrræði sem ekki eru okkur hulin eða takmörkum sett.

Skoðað: 755

Umsagnir eru á ábyrgð þess sem þær skrifa

umsagnir